Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2006 Suðurströnd

Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 7. október 2005 um að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi er fólu m.a. í sér lækkun jarðvegsyfirborðs um 1,5 metra.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2006, er barst úrskurðarnefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir H, Steinavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 7. október 2005 að heimila framkvæmdir við gerð gervigrasvallar við Suðurströnd, Seltjarnarnesi er fólu m.a. í sér lækkun jarðvegsyfirborðs um 1,5 metra.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Forsaga málsins er sú að hinn 25. júní 2005 voru haldnar almennar kosningar um skipulag og landnotkun á Hrólfsskálamelum og Suðurströnd á Seltjarnarnesi og hlaut svokölluð S-tillaga, sem gerir m.a. ráð fyrir að áfram verði íþróttavöllur við Suðurströnd, meirihluta atkvæða bæjarbúa en gert hafði verið ráð fyrir að niðurstaða kosninganna væri bindandi gagnvart bæjaryfirvöldum.  Í samræmi við þá niðurstöðu samþykkti bæjarstjórn hinn 21. september 2005 að gerður yrði gervigrasvöllur við Suðurströnd samkvæmt tillögu þeirri er hlotið hafði meirihluta atkvæða. Óskaði bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar eftir því við skipulags- og mannvirkjanefnd með bréfi, dags. 6. október 2005, að nefndin gæfi út leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum og gerð gervigrasvallar með varmalögnum í stað malarvallar þess sem fyrir var.  Samþykkti nefndin beiðnina 7. október s.á. og í kjölfar þess var verkið boðið út og framkvæmdir síðan hafnar.  Kærandi skaut ákvörðun um greindar framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi skírskotar til þess að umdeildar framkvæmdir séu ekki í samræmi við gildandi skipulag.  Ekki sé um að ræða endurbætur á velli sem fyrir sé heldur sé um mun víðtækari framkvæmdir að ræða án þess að hönnun veigamikilla þátta verksins liggi fyrir og verið sé að ganga á loforð sem íbúum hafi verið gefin við kynningu og kosningu um byggingarkosti á svæðinu.  Gangi framkvæmdin eftir með lækkun yfirborðs vallarins að brekkubrún við Suðurströnd og tilfærslu á staðsetningu vallarins, muni hagsmunum kæranda sem búi í næsta nágrenni, verða raskað vegna aukins hávaða og ónæðis sem óhjákvæmilega muni fylgja breytingunni.  Verði framkvæmdir ekki stöðvaðar megi vænta þess að menn standi frammi fyrir orðnum hlut þegar endanlegur úrskurður gangi í málinu, sem ekki yrði færður til lögmæts horfs vegna kostnaðar.  Hefur kærandi reifað sjónarmið sín  frekar í bréfi, dags. 5. apríl, er úrskurðarnefndinni barst í dag.

Af hálfu Seltjarnarnesbæjar er þess krafist að ógildingarkröfu og stöðvunarkröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að stöðvunarkröfu verði hafnað.  Bent er á að gert sé ráð fyrir að jarðvegsmanir í kringum völlinn verði að mestu færðar í fyrra horf en nauðsynlegt hafi reynst að taka ofan af þeim og opna þær tímabundið vegna framkvæmdarinnar.  Frávísunarkrafan byggi á því að umrædd framkvæmd sé ekki kæranleg til nefndarinnar enda liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun.  Framkvæmdin sé ekki leyfisskyld, en eingöngu sé um að ræða breytingu á hæð og yfirborði íþróttavallar sem fyrir hafi verið á svæðinu.  Þá hafi kærufrestur vegna framkvæmdanna verið liðinn þegar kæran með stöðvunarkröfu hafi borist nefndinni en framkvæmdir hafi hafist í byrjun desember 2005.  Loks sé á því byggt að kærandi eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og ekki hafi komið fram hvaða hagsmunir kæranda knýji á um stöðvun framkvæmda.

Krafa um að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda byggi á því að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að brotið hafi verið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða annarra laga í tengslum við hinar kærðu framkvæmdir og séu þær í samræmi við Aðalskipulag Seltjarnarness 1981-2001. Neikvæð grenndaráhrif vegna lækkunar vallarins, breytingar á yfirborðsefni hans og lagfæringa á leiksvæði við hlið hans séu engin. Viðurkennt sé að íbúar í þéttbýli verði almennt að gera ráð fyrir slíkum breytingum og sætta sig við þær.  Stöðvun framkvæmda sé úrræði sem beita verði af varfærni og túlka beri slíkar heimildir þröngt.

Á það sé bent að sá sem setji fram kröfu um stöðvun, verði að sanna eða leiða sterkar líkur að því að ákvörðun sé ólögmæt og að höfnun slíkrar kröfu leiði til tjóns eða réttarspjalla.  Ljóst sé að verði umdeildar framkvæmdir stöðvaðar, muni það leiða til verulegs tjóns fyrir Seltjarnarnesbæ sem augljóslega þurfi a.m.k. að greiða verktaka þeim sem vinni verkið bætur vegna stöðvunarinnar. Fjárhagslegir hagsmunir Seltjarnarnesbæjar séu því skýrir á meðan hagsmunir kærenda liggi ekki fyrir. Að auki séu hagsmunir Seltjarnarnesbæjar miklir af því að koma mannvirkinu sem fyrst í not til að styrkja og efla íþrótta- og ungmennastarf í bæjarfélaginu.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 30. mars sl. að viðstöddum kæranda ásamt fulltrúum og lögmanni Seltjarnarnesbæjar er reifuðu sjónarmið sín og svöruðu fyrirspurnun nefndarmanna.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að vísa frá kröfu kæranda um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda, en tekin verður afstaða til frávísunar málsins í endanlegum úrskurði enda liggja ekki fyrir á þessu stigi málsins allar upplýsingar um atriði er haft geta þýðingu um afstöðu til frávísunar.

Umdeild framkvæmd felst í breytingum á íþróttasvæði við Suðurströnd á Seltjarnarnesi er fela í sér lækkun yfirborðs og frágang undirlags með hitalögn og lagningu gerfigrass á vallaryfirborð.  Er vinna verksins vel á veg komin.  Þegar litið er til þess að ætla má að stöðvun verksins nú muni hafa í för með sér umtalsverða röskun og fjártjón með hliðsjón af þegar gerðum samningum við verktaka og að um er að ræða afturtæka framkvæmd, þykir ekki nauðsyn knýja á um að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um stöðvun framkvæmda við íþróttavöll við Suðurströnd sem skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness heimilaði hinn 7. október 2005, er hafnað.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________          ____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir