Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

181/2024 Nökkvavogur

Árið 2025, fimmtudaginn 20. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 181/2024, kæra á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að eigandi að Nökkvavogi 24 skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. desember 2024, kærir eigandi að Nökkvavogi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 að hann skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins en ella fjarlægja girðingu sem reist hafi verið á lóðarmörkum Nökkvavogar 22 og 24 innan þrjátíu daga frá dagsetningu bréfsins. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 3. febrúar 2025.

Málavextir: Í byrjun árs 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að búið væri að reisa girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 í Reykjavík án þess að fyrir lægi samþykki eiganda aðliggjandi lóðar. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, var þinglýstum eiganda að Nökkvavogi 24 gert að leggja fram slíkt samþykki eða láta í té skriflegar skýringar vegna málsins innan 14 daga. Umbeðið samþykki eða skýringar bárust ekki og með bréfi, dags. 31. október s.á., gerði byggingarfulltrúi honum að leggja fram samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar innan 14 daga en ella að fjarlægja viðkomandi girðingu innan 30 daga. Í sama bréfi var tilkynnt að byggingarfulltrúi hygðist ekki beita þvingunarúrræðum vegna girðingarinnar, þar sem ekki stafaði almannahætta af henni.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að ónæði hafi verið af óviðkomandi umferð yfir lóð kæranda að Nökkvavogi 24 og því hafi girðing verið reist á lóðarmörkum Nökkvavogs 22 og 24, meðfram runnum sem þar voru. Þessi fyrirætlun hafi verið rædd í vitna viðurvist við eigendur Nökkvavogs 22 á óformlegum fundi úti í garði í október 2022 og þau hafi samþykkt hana. Þegar girðingin var reist hafi þau hins vegar ekki kannast við að hafa gefið samþykki sitt. Eigendur Nökkvavogs 22 hafi síðan farið í framkvæmdir á lóðamörkum sín megin sumarið 2024 og fellt þá runnana sem voru við girðingu kæranda. Kærandi hafi ekki heyrt frá þeim aftur fyrr en þau sendu ábendingu til byggingarfulltrúa og mál þetta hófst. Kærandi álítur að munnlegt samþykki fyrir girðingunni hafi legið fyrir og að byggingarfulltrúi hafi í umsögn vísað í 3. mgr. gr. 7.2.3. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sem geri ekki kröfu um að samþykki aðliggjandi lóðarhafa sé skriflegt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að kærandi hafi fengið rúman tíma til að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa. Þar sem aðliggjandi lóðarhafi hafi gert ábendingu um framkvæmdina sé ljóst að ekki sé samkomulag um girðinguna eins og krafist sé í 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hún hafi verið sett upp í óleyfi og kæranda beri að fjarlægja hana. Ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu ákvörðunarinnar og þess sé krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun í máli þessu er frá 31. október 2024, en hún var birt kæranda 25. nóvember s.á. og miðar nefndin við þann dag sem upphafsdag kærufrests sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæran barst nefndinni 24. desember s.á. eða innan kærufrests. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í báðum erindum byggingarfulltrúa þar sem kæranda er gert að leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa vegna uppsetningar girðingar á lóðamörkum er vísað í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem segir m.a: „Lóðarhöfum samliggjandi lóða er heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingar eða skjólveggi allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum, enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.“ Í máli þessu áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og lóðarhafa Nökkvavogs 22, en ótvírætt er að ekki liggur fyrir undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina og hefur staðhæfingum kæranda um munnlegt samþykki verið mótmælt.

Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er kveðið á um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slíkt verk á hans kostnað. Fyrir liggur að uppsetning umræddrar girðingar á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24 er háð skriflegu samþykki rétthafa að þeim lóðum samkvæmt áðurnefndum e-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Slíkt samþykki liggur ekki fyrir. Var byggingarfulltrúa því rétt að taka hina kærðu ákvörðun um að skjólveggurinn skyldi fjarlægður. Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 31. október 2024 um að kærandi skuli leggja fram samþykki aðliggjandi lóðarhafa en ella fjarlægja girðingu á lóðamörkum Nökkvavogs 22 og 24.