Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til hundahalds á sex hundum að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2014, er barst nefndinni 11. mars s.á., kærir J, Suðurlandsbraut 27, Reykjavík, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 að afturkalla leyfi til hundahalds á sex hundum að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.
Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til meðferðar hvað varðar kröfuna um frestun réttaráhrifa.
Málsatvik og rök: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun kærandi hafa fengið leyfi til að halda hunda að Suðurlandsbraut 27. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dagsettu 19. desember 2013, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfa til hundahalds vegna sex hunda. Var sú ástæða tilgreind að hundarnir væru ekki haldnir á heimili kæranda eins og gert væri að skilyrði í umræddum leyfum. Með bréfi, dagsettu 20. desember 2013, óskaði kærandi eftir gögnum málsins frá heilbrigðiseftirlitinu. Var sú beiðni ítrekuð í bréfum kæranda, dagsettum 30. desember s.á og 2. janúar 2014, þar sem jafnframt var farið fram á rökstuðning fyrir fyrirhugaðri afturköllun leyfanna og frekari fresti til andmæla af hálfu kæranda. Heilbrigðiseftirlitið skírskotaði til þess í svarbréfi, dagsettu 6. janúar 2014, að ástæða fyrirhugaðrar afturköllunar leyfanna kæmi fram í bréfi stofnunarinnar frá 19. desember 2013. Það bréf, ásamt eftirlitsskýrslu frá 8. ágúst s.á. sem fylgdu bréfinu frá 6. janúar, væru gögn málsins. Frestur kæranda til athugasemda vegna málsins var framlengdur til 13. janúar 2014. Með bréfi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 14. febrúar s.á. var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun og ítrekaði hann kröfu sína um rökstuðning og um afhendingu málsgagna í bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dagsettu 27. s.m. Því bréfi svaraði heilbrigðiseftirlitið hinn 3. mars s.á. þar sem vísað var til fyrri bréfa um rökstuðning og málsgögn.
Kærandi vísar til þess að hann hafi hvorki fengið í hendur málsgögn né umbeðinn rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun. Engin rök standi til þess að svipta kæranda leyfi til hundahalds vegna tímabundinnar dvalar hans utan lögheimilis vegna meðferðarúrræðis á vegum Reykjavíkurborgar. Þá verði að finna að þeim starfsháttum heilbrigðiseftirlitsins að boðsenda erindi til kæranda á vistunarstað hans í stað lögheimilis en trúnaður eigi að ríkja um vistunarstaðinn gagnvart einstaklingum og stjórnvöldum. Með málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar sé farið gegn meðalhófsreglu og í ýmsu brotið gegn réttindum kæranda á sviði persónu-, upplýsinga- og stjórnsýslulaga.
Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé lögmæt að efni og formi til. Kæranda hafi verið veittur aðgangur að gögnum máls og rök að baki ákvörðuninni séu ljós. Hún byggi á 2. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík þar sem skýrt komi fram að leyfi til hundahalds séu bundin við persónu hundaeiganda og heimili hans. Fyrir liggi að kærandi eigi ekki heimili þar sem umræddir hundar séu haldnir og í því efni sé ekki um tímabundið ástand að ræða. Hundar kæranda séu því ekki í hans umsjá heldur annars aðila sem haldi hundana í skjóli leyfa kæranda. Erindi og bréf vegna máls þessa hafi verið birt og afhent kæranda á dvalarstað hans, sem sé í samræmi við efni 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða: Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 11. mars 2014 og var kallað eftir málsgögnum og athugasemdum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hinn 12. s.m. Þá var sérstök athygli vakin á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar hinn 20. mars 2014 með ósk um að afhendingu gagna yrði flýtt af því tilefni. Gögn og athugasemdir vegna kröfunnar um frestun réttaráhrifa bárust úrskurðarnefndinni frá stjórnvaldinu 24. mars 2014. Í málinu er um það deilt hvort kærandi hafi brotið gegn skilyrði umræddra leyfa að halda títtnefnda hunda á heimili sínu eða ekki.
Fyrir liggur að hinn 24. mars 2014 voru fimm af þeim sex hundum sem hin kærða ákvörðun tekur til teknir í vörslur heilbrigðiseftirlitsins í skjóli ákvörðunarinnar og kæranda tilkynnt að hundunum yrði ráðstafað eftir sjö daga, að öllu óbreyttu, eða hinn 31. mars 2014. Samkvæmt 18. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012 verða hundar, sem færðir hafa verið í hundageymslu á grundvelli þess ákvæðis og ekki eru afhentir eiganda, aflífaðir að sjö dögum liðnum verði þeim ekki ráðstafað til nýs eiganda eða seldir.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011 þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar þar til endanlegur úrskurður gengur í kærumálinu.
Úrskurðarorð:
Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 11. febrúar 2014 um að afturkalla leyfi til hundahalds á sex hundum að Suðurlandsbraut 27 í Reykjavík.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson