Ár 2010, mánudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2010, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við norðausturhlið hússins að Austurgötu 25 í Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréf til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir K, Gunnarssundi 5, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við norðausturhlið hússins að Austurgötu 25 í Hafnarfirði. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða byggingarleyfis.
Kærandi hefur jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að taka það til efnismeðferðar, en framkvæmdir vegna hins kærða byggingarleyfis hafa nú þegar verið bannaðar af hálfu byggingaryfirvalda í Hafnarfirði. Er því ekki ástæða til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda í máli þessu.
Málsatvik og rök: Hinn 18. apríl 2007 var tekin fyrir umsókn eiganda fasteignarinnar að Austurgötu 25 í Hafnarfirði um breytingar á nefndri fasteign og var erindið afgreitt með svofelldri bókun: „L… sækir um að byggja viðbyggingu við norðurhlið hússins að Austurgötu 25, Hafnarfirði skv. teikningum Byggingar- og skipulagshönnunar ehf. dags. 21.3. Nýjar teikningar bárust 18.04.2007 með nýjum rýmisnúmerum. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkir erindið. Umsóknin samræmist lögum nr. 73/1997.“ Fundargerðin var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs 24. apríl 2007 og staðfest í bæjarstjórn 2. maí sama ár.
Kærandi bendir á að samþykktar teikningar að fyrirhuguðum breytingum feli í sér viðbyggingu við norðvesturhlið hússins að Austurgötu 25 auk glugga sem til standi að bæta við á suðausturhlið hússins, en hún snúi að garði kæranda. Grenndarkynna hefði átt fyrirhugaðar breytingar en viðbyggingin kalli á breytingu á deiliskipulagi þar sem um stækkun á byggingarreit sé að ræða og útliti húss breytt með fyrrgreindum glugga. Kæranda hafi fyrir tilviljun fengið vitneskju um umdeilt byggingarleyfi sumarið 2009 og hefði þá verið tjáð af bæjaryfirvöldum að mistök hefðu átt sér stað. Leyfið væri hins vegar fallið niður þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist innan tilskilins frests og yrði það ekki veitt að nýju nema að undangenginni réttri málsmeðferð. Í byrjun mars 2010 hafi byggingarleyfishafi hins vegar tjáð kæranda að fyrirhugað væri að saga gat fyrir áðurgreindum glugga í samræmi við veitt byggingarleyfi. Bæjaryfirvöld hafi nú upplýst að vafi leiki á um hvort umdeilt leyfi sé fallið niður en kærandi hafi gert kröfu til bæjaryfirvalda um að leyfið verði fellt úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar.
Fram hefur komið af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að veitt leyfi fyrir viðbyggingu að Austurgötu 25 rúmist innan skilmála gildandi deiliskipulags. Hafi því ekki komið til grenndarkynningar á breytingu skipulagsins en í umsókn hafi þess ekki verið getið að sótt væri um að fjölga gluggum hússins. Vafi leiki á um hvort framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingaleyfi hafi byrjað innan 12 mánaða lögmælts frests svo það haldi gildi sínu. Leitað hafi verið upplýsinga hjá byggingarleyfishafa í því efni en engar úttektir hafi átt sér stað af hálfu byggingaryfirvalda á heimiluðum framkvæmdum.
Af hálfu byggingarleyfishafa er skírskotað til þess að hann hafi fengið umrætt byggingarleyfi að undangenginni umsögn húsafriðunarnefndar. Hann sé smiður að mennt og hafi sjálfur unnið að endurbótum að Austurgötu 25 og m.a. smíðað gluggana sjálfur. Framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu hafi verið byrjaðar innan árs frá veitingu þess og beri tiltækar ljósmyndir með sér að búið hafi verið að setja alla glugga á framhlið fyrstu hæðar hússins í febrúar 2008. Framkvæmdir hafi staðið yfir frá árinu 2007 og standi enn yfir. Nýtt gluggaop á fyrstu hæð hússins, sem snúi að fasteign kæranda og samþykkt hafi verið af byggingaryfirvöldum hinn 18. apríl 2007, sé eldhúsgluggi og hafi mikið notagildi vegna birtu og loftræstingar. Þegar séu fyrir tveir gluggar á annarri hæð og einn gluggi á fyrstu hæð sem snúi að fasteign kæranda og ekki verði séð hvaða óhagræði fylgi einu glugga til viðbótar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 18, apríl 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 2. maí sama ár. Í samþykktinni felst að heimilað er að reisa viðbyggingu við norðausturhlið hússins að Austurgötu 25. Af samþykkum uppdráttum má ráða að einnig felist í hinni umdeildu samþykkt leyfi til að beyta innra skipulagi á 1. hæð, setja nýjan glugga á suðausturhlið hússins og loka dyragati og setja glugga í þess stað á suðvesturhlið, en þessara breytinga á innra skipulagi og á gluggum er hvorki sérstaklega getið í bókun um samþykkt leyfisins né í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum.
Kærandi vísar til þess að hann hafi verið búinn að skipta um glugga á framhlið (suðurvesturhlið) hússins í febrúar 2008 og því hafi framkvæmdir hafist innan árs frá útgáfu byggingarleyfisins. Við þessa staðhæfingu er það að athuga að ekki var í hinu kærða leyfi fjallað um endurnýjun glugga á framhlið hússins, ef frá er talin heimildin til að setja glugga í dyraop, sem ekki hefur verið hafist handa við. Engin úttekt hefur farið fram í tengslum við verkið og ekki hefur veri skráður byggingarstjóri á það. Hefur byggingarleyfishafi ekki sýnt fram á að hann hafi, enn sem komið er, hafið neinar framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi, sbr. 14. gr. byggingar¬reglugerðar nr. 441/1998, og skipta framkvæmdir hans við endurbætur á húsinu að öðru leyti engu máli í því sambandi.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingar¬leyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins og byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd. Í 4. mgr. sömu greinar segir að staðfesting sveitarstjórnar falli úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða. Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess.
Eins og að framan greinir hafa engar framkvæmdir enn hafist á grundvelli hins kærða byggingarleyfis, en rúm tvö ár eru nú liðin frá staðfestingu sveitarstjórnar á leyfinu. Er sú staðfesting því úr gildi fallin.
Byggingarleyfishafi mun hafa greitt tilskilin byggingarleyfisgjöld í kjölfar afgreiðslu bæjaryfirvalda á umsókn hans. Væri litið svo á að með því hafi honum verið veitt byggingaleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga þá er það leyfi einnig úr gildi fallið, sbr. 1. mgr. 45. gr. laganna. Eru því úr gildi fallnar allar heimildir til þeirra framkvæmda sem leyfðar voru með hinni kærðu samþykkt og verður hér eftir ekki í þær ráðist nema að undangenginni nýrri samþykkt sveitarstjórnar. Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða byggingarleyfis, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu því vísað frá úrskurðar¬nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ________________________
Ásgeir Magnússon Hildigunnar Haraldsdóttir