Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2005 Hólmgarður

Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 um breytingu á deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. febrúar 2005, er barst nefndinni hinn 1. mars s.á., kærir K, Hólmgarði 28, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 að breyta deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. nóvember 2004 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða við Hólmgarð.  Á fundinum var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Hólmgarði 17-46. 

Að grenndarkynningu lokinni var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa hinn 21. janúar 2005, þar sem fyrir lágu framkomnar athugasemdir við tillöguna frá nokkrum fjölda íbúa við Hólmgarð og þ.á m. kæranda.  Á fundinum var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. janúar 2005, og var málinu vísað til afgreiðslu skipulagsráðs sem samþykkti deiliskipulagstillöguna hinn 26. sama mánaðar.  Auglýsing um gildistöku hennar var síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. febrúar 2005. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málskot sitt á því að ekki sé rétt með farið í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum við staðsetningu bílastæða að meirihluti íbúa við Hólmgarð 22-32 og 36-46 hafi viljað hafa stæðin framan við innganga húsa við götuna.  Hið rétta sé að með handauppréttingu á íbúafundi 2. september 2004 hafi meirihlutinn samþykkt að bílastæðin yrðu staðsett til hliðar við inngangana eins og þau hefðu áður verið.  Svar skipulagsfulltúa vegna umdeildrar staðsetningar bílastæðanna eigi því ekki við rök að styðjast. 

Það auki slysahættu að færa stæðin beint ofan í innganga húsanna, mengun aukist þar og fórnað sé grænu svæði framan við hús kæranda, en það svæði hafi ásamt öðru ráðið því að hann hafi keypt íbúð sína við Hólmgarð.  Fyrirhuguð tilkoma trjáa og runna við hlið bílastæða skerði útsýni og auki slysahættu.  Kæranda gruni að það komi í hlut íbúanna að annast þennan gróður, enda hafi þeir slegið grasbletti í eigu borgarinnar fyrir framan húsin.  Breikkun götu um einn metra, svo sem skipulagsbreytingin geri ráð fyrir, auki líkur á hraðakstri með tilheyrandi slysahættu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda um ógildingu á umdeildri samþykkt skipulagsráðs verði hafnað. 

Meðferð deiliskipulagstillögunnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Í umsögn skipulagsfulltúa vegna framkominna athugasemda við skipulagstillöguna segi m.a.:  „Á fyrrnefndum íbúafundi sem haldinn var 2. september síðastliðinn voru kynntar tvær tillögur að bílastæðum fyrir framan umrædd hús. Ein tillagan gerði ráð fyrir því að bílastæðin yrðu staðsett á svipuðum stað og þau voru áður en framkvæmdir hófust þ.e. ekki við innganga húsa heldur til hliðar við innganga. Hin tillagan sem kynnt var á fundinum gerir ráð fyrir að bílastæðin yrðu staðsett við innganga. Það var greinilega vilji meirihluta íbúa að hafa bílastæðin staðsett við innganga húsa og er það ástæðan fyrir því að gert var ráð fyrir því fyrirkomulagi á kynntum uppdrætti.“  Þá segi þar ennfremur:  „Mjög vel var mætt á fundinn og náðist ágæt sátt á honum, en ósk allflestra var að fyrirkomulag bílastæða við Hólmgarð 22-32 og 36-46 yrði eins og það var áður.“ 

Athugasemdir íbúa við grenndarkynningu hafi verið allnokkrar en engin þeirra hafi lotið að staðsetningu bílastæða fyrir framan innganga húsanna nema athugasemd kæranda í máli þessu.  Sé kærandi því einn um túlkun sína á niðurstöðu fyrrgreinds íbúafundar um vilja íbúa.  Ekki hafi sérstaklega verið greidd atkvæði um það hvort bílastæðin ættu að vera framan við inngang húsa eða til hliðar, heldur hafi komið fram sá vilji meirihluta fundarmanna að hafa fyrirkomulagið eins og áður, þ.e. með grænum svæðum á milli bílastæða. 

Varðandi aðrar málsástæður kæranda sé vísað til ofangreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa en þar komi fram að grafík vegna gróðurs á uppdrætti sé ekki bindandi.  Deiliskipulagsbreytingin taki ekki til gróðurs á grænu svæðunum.  Ekki megi gróðursetja á þessum reitum á þann hátt að það valdi skerðingu á útsýni. 

Gert sé ráð fyrir hraðahindrun við Hólmgarð 34 samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem draga muni úr hraðakstri í götunni.  Ekki sé fallist á að breikkun á götunni á svo stuttum kafla sem um ræði leiði til hraðaksturs eða aukinnar slysahættu og ekki hafi verið leidd rök að því að staðsetning bílastæðanna valdi aukinni mengun. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting fól í sér fækkun bílastæða og gerð gróðurreita á milli þeirra auk þess sem göngustígur við götu var færður nær húsum á kafla og þar gert ráð fyrir bílastæðum meðfram gróðurreitum við götu.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. júlí 2004, var gert ráð fyrir bílastæðum án gróðurreita framan við húsin að Hólmgarði 22-32 og 36-46, þ.á.m. við innganga þeirra húsa.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að skiptar skoðanir hafi verið meðal íbúa um hvort fækka ætti bílastæðum og skapa þannig rými fyrir gróðurreiti á milli stæða og að tilgangurinn með umdeildri skipulagsbreytingu hafi verið sá að koma til móts við óskir þeirra sem vildu halda í gróðurreiti framan við húsin á kostnað fjölda bílastæða sem ráðgerð voru í skipulaginu frá árinu 2004. 

Hvað sem líður skoðanaskiptum á fyrrgreindum kynningarfundi með íbúum hinn 2. september 2004 hróflar það ekki við gildi skipulagsbreytingarinnar að þar sé gert ráð fyrir bílastæðum framan við innganga húsa, enda var sú tilhögun þegar mörkuð í skipulagi svæðisins. 

Breikkun sú sem verður á götu við það að gangstígur er færður verður ekki talin til þess fallin að auka hraðakstur, enda er sú breikkun á stuttum kafla götunnar og rýmið sem myndast lagt undir bílastæði.. 

Að þessu virtu og þar sem ekki verður séð að þeir annmarkar hafi verið á meðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði verður kröfu kæranda þar að lútandi hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005, um að breyta deiliskipulagi Bústaðahverfis vegna bílastæða við Hólmgarð í Reykjavík. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_________________________                                 ___________________________    Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson