Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.
Fyrir var tekið mál nr. 179/2024, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20. desember 2024, kærir húsfélagið að Grandavegi 42, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar.
Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. janúar 2025.
Málavextir: Á lóð nr. 121 við Hringbraut í Vesturbæ Reykjavíkur stendur hús sem byggt var árið 1953. Almennt er vísað til þess sem JL-hússins og hefur það hýst ýmsa starfsemi í gegnum tíðina. Með umsókn, dags. 13. nóvember 2024, var sótt um breytingu á deiliskipulagi reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðarinnar. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. nóvember 2024 og vísað til meðferðar verkefnastjóra hjá embættinu. Umsóknin var aftur tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 28. s.m. og hún samþykkt með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsing um breytinguna var birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. janúar 2024 og kom þar fram að hún fæli í sér að heimilt yrði að vera með sérstök búsetuúrræði í húsinu, sbr. kafla 3.4.1 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Fyrir liggur að áformað er að hin sérstöku búsetuúrræði að Hringbraut 121 hýsi umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að samkvæmt meginreglu skipulagslaga nr. 123/2010 skuli fara með breytingar á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða og túlka beri öll frávik frá þeirri meginreglu þröngt. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé Hringbraut 121 á skilgreindu verslunar- og þjónustusvæði, VÞ1, og sé fasteignin skilgreind sem hverfiskjarni við aðalgötu. Þar sé heimilt að hafa stærri matvöruverslanir og fjölbreytta verslun og þjónustu sem þjóni heilu hverfi. Þá sé, samkvæmt gildandi skipulagi, heimilt að reka veitingastaði í flokki I og II í hverfiskjörnum, sem og gististaði í flokki I-III. Feli hin kærða ákvörðun í sér breytingu á landnotkun frá því sem kveðið er á um í gildandi skipulagi enda ekki að finna heimild fyrir sértækt búsetuúrræði á lóðinni. Því hafi borið að fara með deiliskipulagsbreytinguna eftir 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga eða í það minnsta að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar fyrir nágrönnum og öðrum aðilum sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, skv. 2. mgr. 43. gr. laganna.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er byggt á því að sú ráðagerð að húsnæði á lóð nr. 121 við Hringbraut verði notað að hluta til tímabundinnar dvalar umsækjenda um alþjóðlega vernd feli ekki í sér aðra eða víðtækari notkun en fylgir húsnæði á verslunar- og þjónustusvæðum. Ákvörðun skipulagsfulltrúa um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir lóðina hafi hvorki í för með sér breytta notkun hússins né umfangsmeiri starfsemi en almennt sé heimil á verslunar- og þjónustusvæðum. Þá sé tímabundin búseta umsækjenda um alþjóðlega vernd í fullu samræmi við þá starfsemi sem um árabil hafi verið í húsinu. Ákvörðun skipulagsfulltrúa sé hvorki veruleg né óveruleg í skilningi skipulagslaga. Umþrætt breyting á skipulagsskilmálum víki að engu leyti frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti, formi eða svipmóti hins deiliskipulagða svæðis. Þá feli breytingin hvorki í sér breytingu á landnotkun né útliti hússins. Breytingin hafi ekki í för með sér skerðingu á hagsmunum nágranna heldur aðeins breytingu á deiliskipulagsskilmálum sem rúmist innan skilmála í aðalskipulagi og landnotkun lóðarinnar, sbr. c-lið gr. 6.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.
Í gildi sé deiliskipulag fyrir Hringbraut 121 sem tekið hafi gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2007. Í deiliskipulaginu sé ekki kveðið sérstaklega á um notkun og tegund starfsemi á Hringbraut 121. Þá sé starfsemi hússins ekki settar ákveðnar takmarkanir, s.s. um tímamörk eða opnunartíma. Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé Hringbraut 121 skráð sem atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Á undanförnum árum hafi starfsemi þar verið fjölbreytt. Þar hafi m.a. verið starfræktur veitingastaður, verslun, gistiheimili og skóli. Hótelið hafi verið með rekstrarleyfi fyrir allt að 240 gesti á 4. og 5. hæð, eða samtals 61 gistiherbergi. Einnig hafi verið starfræktur veitingastaður á jarðhæð sem og verslun og kaffihús. Á 2. og 3. hæð hússins var Myndlistaskólinn í Reykjavík með aðstöðu, svo sem kennslustofur, skrifstofur og vinnustofur. Samkvæmt árskýrslu skólans 2023 var fjöldi nemenda í fullu námi á haust- og vorönn 2022 um 240-260 talsins. Að auki hafi skólinn verið í samstarfi við leik- og grunnskóla og hýsti tímabundið um 500 nemendur. Námskeið fyrir fullorðna og sumarnámskeið skólans hýstu rúmlega 200 nemendur.
Samkvæmt byggingarlýsingu umsækjanda, dags. 14. október 2024, sé ætlaður fjöldi þeirra sem gista samstundis í húsnæðinu 326 einstaklingar og verði ekki talið að umfangið sé verulegt miðað við þá starfsemi verið hafi í húsnæðinu um árabil. Að auki megi telja að umfang þeirrar starfsemi sem verið hafi á jarðhæð á undanförnum árum, þ.e.a.s. veitingastaður, kaffihús og verslun, sé sambærilegt því umfangi sem nú sé fyrirhugað. Eðli starfseminnar sem nú sé heimiluð með breytingu á skilmálum deiliskipulagsins, þ.e. tímabundin búseta umsækjenda um alþjóðlega vernd, sé í eðli sínu sambærileg starfsemi og verið hafi í húsnæðinu á undanförnum árum. Ekki sé að sjá að fyrirhuguð starfsemi í húsnæðinu sé frábrugðin þeirri starfsemi. Í öllum tilvikum, hvort heldur um sé að ræða tímabundna gistingu ferðamanna á farfuglaheimili eða hóteli eða umsækjenda um alþjóðlega vernd sé um að ræða manneskjur með ólíka eiginleika og þarfir, menntun og trúarbrögð. Bakgrunnur þeirra sem dvelji á farfuglaheimili eða hóteli geti verið jafn fjölbreyttur og þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.
Athugasemdir umsækjanda: Af hálfu umsækjanda um hina umdeildu breytingu á deiliskipulagi er vísað til þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þröskuldur íslensks réttar um lögvarða hagsmuni sé hár og beri framkvæmd úrskurðarnefndarinnar þess merki. Nálægð fasteigna nægi þannig ekki ein og sér til þess að aðild sé játuð að kærumáli. Er um það vísað til tveggja úrskurða úrskurðarnefndarinnar, annars vegar í málum nr. 35/2008 og 44/2008, Urðarmói, uppkveðnum 2. desember 2009, og hins vegar í máli nr. 11/2024, Gauksstaðir, uppkveðnum 22. mars 2024. Til þess sé að líta að ekki verði aukning á fjölda þess fólks sem dvelji í fasteigninni enda hafi 500 nemendur um tíma sótt nám í hluta hússins auk þess að þar hafi verið starfrækt hótel fyrir allt að 240 manns. Þá sé ótalin sú veitingastarfsemi sem verið hafi á jarðhæð hússins á sama tíma. Fjölmargar íbúðir á lóð nr. 121 við Hringbraut séu í eigu Félagsbústaða og hafi m.a. erlendir aðilar á þeirra vegum dvalið í húsnæðinu í langtíma dvöl.
Þá er vísað til sjónarmiða um túlkun 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það að bæta við ákvæði um sérstök búsetuúrræði í deiliskipulag geti ekki talist til breyttrar landnotkunar í skilningi 3. mgr. 43. skipulagslaga. Hugtakið landnotkun sé skilgreint í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, frístundahús, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sé Lýsisreiturinn á verslunar- og þjónustusvæði sem sé einn landnotkunarflokka sem taldir séu upp í gr. 6.2. í reglugerðinni. Nánar tiltekið tilheyri reiturinn svæði VÞ1 sem skilgreint sé sem hverfiskjarni, slíkir kjarnar séu kjarnar með stærri matvöruverslunum og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem þjóni heilu hverfi. Á meðal þess sem heimilt sé að hafa í hverfiskjörnum sé „landnotkunarflokkurinn samfélagsþjónusta og húsnæðislausnin sérstök búsetuúrræði.“ Hvergi sé í skipulagsreglugerð eða skipulagslögum minnst á sérstök búsetuúrræði og því ljóst að tilvikið falli ekki undir hugtakið landnotkun í skilningi skipulagsréttar. Megi ráða að sérstök búsetuúrræði teljist til húsnæðislausnar en séu ekki landnotkun í sjálfu sér og geti verið á þeim landnotkunarflokkum sem kveðið sé á um í aðalskipulagi.
Athugasemdir Vinnumálastofnunar: Af hálfu Vinnumálastofnunar er bent á að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í málinu varði verulega hagsmuni. Umfangsmikill undirbúningur hafi átt sér stað til að koma úrræðinu á laggirnar og séu framkvæmdir á lokastigi. Bæði stofnunin og eigandi húsnæðisins hafi lagt í kostnaðarsama vinnu við að gera viðeigandi viðbætur og endurbætur á húsnæðinu, fullviss um að viðhlítandi heimildir væru fyrir nýtingu á húsnæðinu.
Vinnumálastofnun veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar hér á landi og leigi aðstöðu í umræddu húsnæði að Hringbraut 121 og nýti fyrir umsækjendur. Í húsnæðinu muni búa konur, pör og fjölskyldur og þegar hafi um 60 konur flutt inn á 4. hæð þess. Alls sé rými fyrir 400 einstaklinga í húsnæðinu en ekki sé gert ráð fyrir fullnýtingu á rýmum enda bjóði samsetning umsækjendahópa og fjölskyldustærðir ekki upp á það. Á fyrstu hæð hússins sé gert ráð fyrir virknimiðstöð fyrir einstaklingana sem búa í húsnæðinu ásamt vinnuaðstöðu fyrir þjónustuteymi Vinnumálastofnunar sem þjónusti einstaklingana meðan þeir dvelji þar. Öryggisgæsla sé í húsnæðinu allan sólarhringinn og sé Vinnumálastofnun með húsnæðisteymi sem sinni viðhaldi.
———-
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærandi í máli þessu er húsfélagið að Grandavegi 42 A–G. Á þeirri lóð stóð áður verksmiðja Lýsis hf. og á lóðin m.a. mörk að lóð nr. 121 við Hringbraut. Við skipulagsbreytingar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni voru lagðar kvaðir á lóð nr. 121 við Hringbraut og lóðir nr. 42 og 44 við Grandaveg, sem síðar voru sameinaðar sem lóð nr. 42. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. september 2013, er í gildi kvöð um umferð fótgangandi um lóð kæranda frá Grandavegi og í port á lóð nr. 121 við Hringbraut. Þá er í gildi kvöð um umferðarrétt ökutækja á lóð nr. 121 við Hringbraut í bílgeymslu á lóð nr. 42 við Grandaveg. Má í þessu sambandi nefna að gert er ráð fyrir því að annar megin inngangurinn í JL-húsið verði um inngangsdyr við vesturgafl gegnt Grandavegi 42. Að þessu virtu verður að álíta að kærandi eigi slíkra hagsmuna að gæta af breytingum á skipulagi lóðarinnar að játa verður honum kæruaðild að máli þessu.
Vegna framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa var af hálfu borgaryfirvalda upplýst um að umsókn um byggingarleyfi hefði ekki verið samþykkt og því hefði byggingarleyfi ekki verið gefið út og var í umsögn borgarinnar vísað til þess að gildistaka deiliskipulags og breytingar á deiliskipulagi feli ekki í sér heimildir til að hefja umsóttar breytingar heldur þurfi til að koma veiting byggingarleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.
Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en í því felst einnig heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við beitingu þessara ákvæða ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Jafnframt skal tryggja að haft sé samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að gefið sé tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. d-lið lagagreinarinnar. Við töku skipulagsákvarðana er sveitarstjórn bundin af meginreglum stjórnsýsluréttarins, þ. á m. lögmætisreglunni. Að gættum framangreindum reglum hafa sveitarstjórnir mat um það hvernig deiliskipulagi og breytingum á því skuli háttað.
Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstri, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit, sbr. 3. mgr. 37. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skal stefna um landnotkun í skipulagi sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem er ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skilgreint í skilmálum, sbr. 2. málsl. ákvæðisins. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 er lóð nr. 121 við Hringbraut hverfiskjarni við aðalgötu á verslunar- og þjónustusvæði, VÞ1. Samkvæmt aðalskipulaginu er hverfiskjarni „kjarni með stærri matvöruverslunum og fjölbreyttri verslun og þjónustu sem þjónar heilu hverfi.“ Veitingastaðir í flokki I og II eru heimilir í hverfiskjörnum, svo og gististaðir í flokki I–III. Veitingastaðir í flokki III geta verið heimilir samkvæmt ákvörðun í deiliskipulagi eða hverfisskipulagi. Íbúðir eru heimilar, einkum á efri hæðum bygginga. Samfélagsþjónusta er heimil auk þrifalegrar atvinnustarfsemi.
Í 3. kafla aðalskipulags Reykjavíkur eru sett fram bindandi ákvæði um íbúðarbyggð ásamt því að m.a. eru skilgreindar heimildir sem gilda um „sértæk búsetuúrræði“ og íverurými utan hefðbundinnar íbúðarbyggðar og blandaðrar byggðar. Er fjallað um sértæk búsetuúrræði í kafla 3.4.1. og hugtakið þar skilgreint sem húsnæðislausnir fyrir félagshópa með sérstakar húsnæðis- og/eða þjónustuþarfir, til lengri eða skemmri dvalar. Kemur þar fram að þessi búsetuúrræði geti verið heimil innan íbúðarbyggðar, verslunar- og þjónustusvæða, miðsvæða, athafnasvæða, hafnarsvæða, opinna svæða og landbúnaðarsvæða. Þá sé að undangenginni breytingu á deiliskipulagi, hægt að staðsetja búsetuúrræðin innan m.a. verslunar- og þjónustusvæða. Í þessari skyldu til að breyta deiliskipulagi felst viðurkenning á því að nokkrum grenndaráhrifum geti verið til að dreifa vegna slíkra úrræða sem krafist geti ítarlegri málsmeðferðar.
Í 43. gr. skipulagslaga er fjallað um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi. Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að um breytinguna skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Samkvæmt 2. mgr. er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga er síðan mælt fyrir um heimild skipulagsnefndar til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.
Í umsókn um hina kærðu breytingu á deiliskipulagi, dags. 13. nóvember 2024, kom fram að umsóknin væri í samræmi við kafla 3.4.1. í aðalskipulagi. Engin nánari gögn fylgdu umsókninni sem varpað gátu skýrari mynd af ráðgerðum áformum umsækjanda. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa, dags. 28. nóvember 2024, var við töku hinnar kærðu ákvörðunar bókað um að breyting væri gerð á „núverandi deiliskipulagi í samræmi við fyrirmæli í aðalskipulagi, sbr. minnisblað skrifstofu stjórnsýslu og gæða“, sem dagsett var sama dag. Í minnisblaðinu var að finna nánari lýsingu á áformunum og þá afstöðu að deiliskipulagsbreytingin væri í samræmi við aðalskipulag, en í kafla 3.4. í aðalskipulaginu eru sett almennt leiðbeinandi viðmið um staðsetningu búsetuúrræða af þessu tagi. Við auglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda kom einungis fram að heimilt yrði að vera með sérstök búsetuúrræði í húsinu og að uppdrættir hefðu fengið meðferð skv. 2. mgr. 43. gr. og 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Var með þessu ekki með greinargóðum hætti gerð grein fyrir umfangi ráðgerðra áforma, m.a. í ljósi landnotkunar svæðisins sem hverfiskjarna.
Af gögnum þessa máls, m.a. fyrrgreindu minnisblaði sem einnig var sent Skipulagsstofnun í tilefni af breytingu á deiliskipulaginu, verður ráðið að um sé að ræða búsetuúrræði sem ætlað er fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, allt að 326 talsins, og aðstaða verði á fyrstu hæð þar sem Vinnumálastofnun verði með vinnuaðstöðu, einnig verði þar skrifstofur, opin rými, kaffiaðstaða, salerni, viðtalsrými og tómstundaherbergi. Þá er gert ráð fyrir einhverri tegund af gæslu eða eftirliti og þjónustu sem krefjist viðveru starfsmanns allan sólarhringinn. Að þessu virtu verður ekki fallist á þau sjónarmið Reykjavíkurborgar að ráðgerð notkun hússins sé sambærileg þeirri notkun sem áður hafi verið á húsinu. Það orkar þannig tvímælis að leggja að jöfnu grenndaráhrif sértæks búsetuúrræðis eins og hér um ræðir, þar sem dvalið er til lengri tíma, við starfsemi hótels og gistihúss eða skóla. Hafa samantekið að áliti úrskurðarnefndarinnar ekki verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að heimilt hafi verið að fara með málið sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hefði borið að auglýsa tillöguna opinberlega. Er þar jafnframt til þess að líta að húsið er skilgreint sem hverfiskjarni sem ætlað er að þjóna nærumhverfinu. Var því ekki heimilt að viðhafa málsmeðferð skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga við meðferð málsins. Verður af þeirri ástæðu fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember 2024 um að samþykkja tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags reits 1.520, Lýsisreits, vegna lóðar nr. 121 við Hringbraut.