Árið 2024, föstudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 178/2024 kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024.
úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 14. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Álfaskeiði 37, Hafnarfirði, íbúð 0201, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærendur gera jafnframt þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 17. desember 2024.
Málsatvik og rök: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli eigenda íbúða í fasteigninni að Álfaskeiði 37. Í byrjun árs 2024 höfðu eigendur íbúðar 0101 samband við byggingarfulltrúa vegna óleyfisframkvæmda í kjallara hússins. Að þeirra sögn höfðu kærendur, sem eru eigendur íbúðar 0201, sagað gat í burðarvegg og sett upp salernisaðstöðu í geymslum sem tilheyri íbúðinni og að í þessum rýmum væri búseta. Var þeim ráðlagt að halda húsfund eða hafa samband við húseigendafélagið til þess að reyna að ná sáttum við kærendur og knýja á um að sótt yrði um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.
Húseigendafélagið sendi kærendum bréf dags. 7. maí 2024 þar sem farið var fram á að sameign hússins yrði komið í fyrra horf. Þeim kröfum var hafnað með bréfi frá lögmanni kærenda dags. 7. júní s.á. Í byrjun ágúst 2024 fóru eigendur íbúðar 0101 á fund byggingarfulltrúa. Í framhaldi fundarins sendi byggingarfulltrúi kærendum bréf dags. 21. s.m. þar sem skorað var á þau að láta af búsetu hið fyrsta og sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum. Var þeim veittur frestur til 11. september 2024. Sú beiðni var svo ítrekuð með bréfi dags. 17. októberber s.á. og bent á að verði ekki brugðist við erindinu fyrir 15. nóvember s.á. gæti komið til dagsekta.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. nóvember 2024 var tekin ákvörðun um að leggja dagsektir að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr.
Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili er að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.
Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024. Kærendur hafa nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kærendum. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa.
Úrskurðarorð:
Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024.