Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

174/2024 Óskotsvegur

Árið 2025, miðvikudaginn 5. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 174/2024, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 15. nóvember 2024 um að synja kæranda um byggingarleyfi og breytingu á aðalskipulagi til að breyta landnotkun lóðar í eigu kæranda.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 12. desember 2024, kærir eigandi lóðarinnar Óskotsvegs 42, landnúmer 125474, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 15. nóvember 2024 að synja henni um byggingarleyfi og breytingu á skilgreindri landnotkun lóðarinnar á aðalskipulagi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skilgreining á landi hennar verði sú sama og á landi á svæðinu eða frístundabyggð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 15. janúar 2025.

Málavextir: Kærandi er eigandi lóðarinnar Óskotsvegur 42 í Mosfellsbæ. Hinn 8. september 2023 lagði kærandi inn umsókn um breytingu á aðalskipulagi til að fá byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni ásamt ósk um breytingu á skráðri landnotkun úr óbyggðu svæði og hverfisverndarsvæði í frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 15. nóvember 2024 var umsókn og ósk kæranda hafnað og er sú ákvörðun kærð í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi greinir frá því að á lóð hans hafi staðið hús lögbýlisins Óss. Með samþykki þáverandi eigenda hafi það verið brennt á æfingu slökkviliðsins árið 1993. Þáverandi eigendur hafi fengið ábendingu frá Mosfellsbæ í bréfi dags. 29. október 1993 vegna brunans um að sækja yrði um leyfi byggingarnefndar fyrir endurbyggingu hússins. Í nokkur skipti hafi verið sótt um slíkt leyfi en vegna skilgreiningar á landinu sem óbyggt svæði í aðalskipulagi hafi það ekki fengist. Kærandi hafi rætt hugsanlegar breytingar á aðalskipulagi við fulltrúa Mosfellsbæjar á fundi þann 10. ágúst 2023 og verið bjartsýnn um að fallist yrði á breytta landnotkun. Í trausti þess hafi hann keypt lóðina í september 2023 og óskað eftir breytingu á aðalskipulagi í því skyni að fá byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni. Þeirri ósk hafi verið hafnað af Mosfellsbæ í nóvember 2024.

Með afgreiðslu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar sé brotið á rétti kæranda því bréfið frá 29. október 1993 sé enn í gildi og eigendum landsins hafi aldrei verið gert ljóst að breyta ætti skilgreiningu landsins úr landbúnaðarlandi í óbyggt svæði/annað land. Á korti frá 1992 sjáist að lóð kæranda sé innan svæðis sem merkt sé sem frístundabyggð og aðalskipulag hafi ekki breyst nema fyrir þá lóð og aðra lóð úr landi Óss. Lóðin standi í frístundabyggð þar sem séu tugir sumarhúsa og byggingarleyfi hafi verið veitt vegna 15-25 frístundahúsa á nokkrum stöðum austan Hafravatns á síðustu þrem árum. Nýtt hús hafi risið nálægt lóð kæranda árið 2022 og ný hús séu í smíðum á fleiri stöðum. Óskiljanlegt sé að leyfa ekki byggingu á sumarhúsi á landi mitt í frístundabyggð og brjóti það gróflega gegn jafnræðisreglu og reglu um meðalhóf.

Málsrök Mosfellsbæjar: Mosfellsbær bendir á að kærandi vísi til þess að lögbýlið Ós hafi staðið á lóð hennar, en því lögbýli hafi verið skipt upp, íbúðarhúsið að Ósi hafi ekki verið innan lóðar kæranda og engum lögbýlisrétti sé til að dreifa. Í bréfi byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1993 til fyrri eiganda hafi verið leiðbeint um að endurbygging bústaðar á lóðinni væri háð leyfi byggingarnefndar. Í því hafi ekki falist réttur til endurbyggingar. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé það skilyrði fyrir byggingarleyfi að fyrirhugað mannvirki samræmist skipulagsáætlun á svæðinu. Þar sem umrætt svæði sé skipulagt sem óbyggt svæði hafi byggingarfulltrúa verið óheimilt að lögum að gefa út umsótt byggingarleyfi.

Við endurskoðun gildandi aðalskipulags Mosfellsbæjar hafi kærandi komið á framfæri óskum um að umrætt svæði yrði fellt undir landnotkunarflokkinn frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 15. nóvember 2024 hafi verið ákveðið að synja beiðni um breytt aðalskipulag og deiliskipulagsgerð þar sem ákveðið hafi verið að ekki yrðu skipulögð ný frístundasvæði innan sveitarfélagsins. Það sé í samræmi við aðalskipulagsáætlanir 2002-2024 og 2011-2030. Fyrri eigandi landsins hafi sótt um sambærilega breytingu árið 2006 og verið hafnað. Kærandi hafi samkvæmt þinglýstum gögnum aðeins átt lóðina í rúmt ár en núgildandi aðalskipulag, og þau ákvæði þess sem takmarka nýtingarmöguleika lóðarinnar, hafi verið í gildi þegar hann keypti lóðina. Hann hafi ekki með nokkrum hætti mátt hafa raunhæfar væntingar til þess að umbeðnar breytingar á skipulagi eða umsókn um byggingarleyfi yrðu samþykktar af bænum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Með tölvupósti 27. janúar 2025 ítrekaði kærandi málsástæður sínar og greindi um leið frá því að arkitekt hefði fyrir hans hönd gert drög að deiliskipulagi þar sem gert hafi verið ráð fyrir 7000 fermetra skika innan lóðar, sem væri nægilegur fyrir sumarhús og lægi utan hverfisverndarsvæðis. Þeirri breytingu hafi verið hafnað.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 15. nóvember 2024 varðandi umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna endurbyggingar á sumarhúsi á lóð hennar að Óskotsvegi 42 og synjun á beiðni kæranda þess efnis að breyta skilgreindri landnotkun lóðarinnar úr óbyggðu svæði í frístundabyggð. Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en þar undir fellur veiting byggingarleyfis.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér bréf skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar frá 29. október 1993 til þáverandi eiganda lóðar kæranda sem ritað var í tengslum við ráðgerða brunaæfingu á ónýtum sumarbústað á lóðinni og er þar í niðurlagi vakin athygli á því að sækja skuli um leyfi bygginganefndar til endurbyggingar bústaðarins. Í þessu felast leiðbeiningar og verður að fallast á það með Mosfellsbæ að í þeim felst ekki ádráttur um heimild til slíkrar mannvirkjagerðar. Lýtur erindi kæranda eigi heldur að því að endurbyggja það hús sem áður stóð á lóðinni. Er jafnframt mjög langt um liðið síðan leiðbeining þessi var látin í té.

Við athugun á gögnum þessa máls verður ekki ráðið að erindi kæranda til Mosfellsbæjar hafi falið í sér umsókn um byggingarleyfi, heldur hafi falist í því umsókn um breytingu á aðalskipulagi með það í huga að fá byggingarleyfi að slíkum breytingum loknum. Í máli þessu liggur þannig hvorki fyrir formleg umsókn um byggingarleyfi né ákvörðun byggingarfulltrúa um höfnun á slíkri umsókn, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki verður því álitið að til sé að dreifa kæranlegri ákvörðun um synjun byggingarleyfis og ber því að vísa þeim þætti kærunnar frá úrskurðarnefndinni.

Fyrir liggur að lóð kæranda að Óskotsvegi 42 er skilgreind sem óbyggt svæði á aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030. Kærandi kom á framfæri ósk um breytingu á aðalskipulagi bæjarfélagsins við endurskoðun aðalskipulags í september 2023. Á fundi skipulagsnefndar bæjarfélagsins þann 15. nóvember 2024 var því erindi synjað, á þeim forsendum að skipulagsnefndin hefði tekið ákvörðun um að ekki yrðu skipulögð ný frístundasvæði innan sveitarfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Með vísan til 3. mgr. 29. gr.  og 1. mgr. 36. gr. sömu laga verður af þeim sökum einnig að vísa frá úrskurðarnefndinni þeim þætti kærunnar sem varðar höfnun um breytingu á aðalskipulagi.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.