Árið 2025, þriðjudaginn 4. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 172/2024, kæra vegna ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024 um tímabundna lokun leikskólans S
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. desember 2024, kærir A, leikskólastjóri, „framferði fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í leikskólanum S þann. 5. nóvember 2024“. Nefndin skilur málatilbúnað kæranda á þann veg að kærð sé ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024 um að loka tímabundið leikskólanum S í kjölfar þess að húsnæði skólans var við eftirlit metið heilsuspillandi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 14.janúar 2025.
Málavextir: Þann 5. nóvember 2024 fóru tveir heilbrigðisfulltrúar í reglubundið eftirlit og í úttekt á nýrri viðbyggingu leikskólans S. Í ljós kom m.a. óþrifnaður og mikil ummerki um meindýr og var húsnæðið metið heilsuspillandi. Heilbrigðiseftirlitið tók ákvörðun um að stöðva þyrfti starfsemina til bráðabirgða, sbr. 63. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi dags. 6. nóvember 2024 upplýsti Heilbrigðiseftirlitið leikskólann um hvaða úrbætur þyrfti að gera áður en leikskólinn gæti tekið til starfa að nýju. Þann 8. nóvember 2024 upplýsti leikskólastjórinn að búið væri að uppfylla þær kröfur sem þyrfti til að aflétta lokun leikskólans og að lokinni úttekt heilbrigðisfulltrúa sama dag var upplýst að úrbætur væru metnar fullnægjandi og að leyfilegt yrði að opna leikskólann á ný þann 11. nóvember 2024.
Málsrök kæranda: Kærandi greinir frá því að tveir fulltrúar Heilbrigðiseftirlitsins hafi þann 5. nóvember 2024 komið til að taka út húsnæði leikskólans S. Við úttektina hafi fulltrúarnir fundið músagildrur og ummerki um mýs og fyrirskipað tafarlausa lokun leikskólans. Sú fyrirskipan hafi verið ,,hóflaus og án málefnalegrar ástæðu“ því sú heilbrigðisógn sem til staðar hafi verið gæti ekki réttlætt svo harkalegar aðgerðir. Kærð sé sú hóflausa valdbeiting sem í þessu hafi falist, ófagleg og ruddaleg framkoma, einstrengingslegar tilvísanir í reglugerðartexta og að ekki hafi verið gerður greinarmunur á mismunandi tegundum þrifa í húsnæði leikskólans. Álítur kærandi að hægt hefði verið að mæta úrbótakröfum án þess að loka leikskólanum.
Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Rekstrarstjóri leikskólans hafi undirritað eftirlitsskýrslu þann 5. nóvember 2024 þar sem fram komi að þar sem heilnæmi og öryggi væri ekki tryggt yrði leikskólinn lokaður þar til fullnægjandi úrbætur hefðu verið gerðar og teknar út. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um ákvörðunina þann 5. nóvember. Bréf um stöðvun starfsemi til bráðabirgða, dagsett 6. nóvember 2024 var undirritað af leikskólastjóra 7. nóvember 2024. Kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni 10. desember 2024. Kæran hafi því borist of seint og með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri því að vísa henni frá nefndinni.
Heilbrigðiseftirlitið bendir einnig á að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hin kærða ákvörðun frá 6. nóvember 2024 um stöðvun starfsemi til bráðabirgða hafi verið afturkölluð og sé því ljóst að hún hafi ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hafi kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og því ætti að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 5. nóvember 2024, að loka tímabundið leikskólanum S í kjölfar þess að við eftirlit hafði komið í ljós ummerki eftir mýs og að heilnæmi og öryggi væri ekki tryggt í leikskólanum. Rekstrarstjóri leikskólans undirritaði og staðfesti móttöku á eftirlitsskýrslu þann 5. nóvember þar sem fram kom að loka þyrfti leikskólanum. Bréf um stöðvun starfsemi leikskólans dags. 6. nóvember, með ítarlegum upplýsingum um kærurétt og fresti vegna kæru til úrskurðarnefndarinnar, var samkvæmt upplýsingum Heilbrigðiseftirlitsins afhent og staðfest móttekið af kæranda þann 7. nóvember.
Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Álíta verður að kæranda hafi orðið kunnugt um ákvörðun um lokun leikskólans þegar eftirlitsskýrsla var undirrituð af starfsmanni leikskólans 5. nóvember og að kærandi hafi fengið upplýsingar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar eigi síðar en 7. nóvember 2024. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni meira en mánuði síðar, 10. desember 2024.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Ekki verður talið eins og atvikum er háttað, m.a. í ljósi þess að lokun leikskólans var aflétt þann 11. nóvember 2024, að ástæða sé til að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti.
Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.