Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

171/2024 Æðaroddi

Árið 2025, fimmtudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 171/2024, kæra á afgreiðslu á erindi kæranda um að sauðfjárhald í hesthúsi að Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. desember 2024, kærir eigandi hesthúss að Æðarodda 29, afgreiðslu á erindi hans um að sauðfjárhald í næsta hesthúsi, Æðarodda 27, Akranesi, verði stöðvað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akraneskaupstað 17. janúar 2025.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi hesthúss að Æðarodda 29 á Akranesi. Með tölvupósti 18. nóvember 2024 til skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar óskaði hann eftir skýringum á sauðfjárhaldi í hesthúsi að Æðarodda 27. Í framhaldi kom fram af hálfu bæjarins að heimilt væri samkvæmt deiliskipulagi að halda fé á svæðinu en krafa sé gerð um að taðþró þurfi að vera innan eða utan byggingar. Í tölvupósti, dags. 26. nóvember 2024, benti kærandi á að teikningar fyrir taðþró í kjallara hússins að Æðarodda 27 vanti á kortavef sveitarfélagsins. Þá hafi húsið verið byggt og skilgreint sem hesthús en ekki fjárhús. Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta því í fjárhús né hafi verið lagðir inn uppdrættir fyrir þeim breytingum sem gerðar hafi verið á húsinu. Var þess krafist að allt sauðfé yrði fjarlægt úr húsinu þangað til þessi mál væru komin í lag. Var þessu erindi ekki svarað af hálfu bæjaryfirvalda.

Kærandi bendir á að í fasteignaskrá sé húsið að Æðarodda 27 skráð sem hesthús. Nú sé þar eingöngu sauðfé og það sem því tilheyri, þar á meðal slátrun sauðfjár að hausti. Sauðfjárhald hafi verið í húsinu í nokkur ár en hann hafi ekki vitað af því fyrr en fyrir stuttu síðan að ekki mætti breyta um starfsemi í húsinu nema með leyfi sem háð væri nýjum uppdráttum vegna breytinga. Töluverð óþægindi verði af sauðfjárhaldinu og hafi hann fengið ámæli fyrir að trufla sauðburð og sé erfitt að vera með hunda á lóðum í kring vegna þess. Vegna vondrar lyktar sem stafi frá fénu geti hann auk þess orðið fyrir fjárhagstjóni.

Af hálfu Akraneskaupstaðar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé til að dreifa kæranlegri ákvörðun né heldur hafi kæra borist innan kærufrests. Jafnframt er vísað til þess að notkun hússins að Æðarodda nr. 27 sé í samræmi við landnotkun samkvæmt deiliskipulagi og sé bænum ekki heimilt að verða við kröfum kærenda um að búfjárhald verði þar stöðvað. Athugasemdum kæranda hafi verið svarað og skýrt hafi verið út fyrir honum að sú starfsemi sem hann krefjist að verði stöðvuð sé lögmæt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum. Í bréfi kæranda, dags. 26. nóvember 2024, var farið fram á að sauðfjárhald yrði stöðvað í húsinu að Æðarodda 27. Erindinu hefur ekki verið svarað en í fyrri tölvupóstsamskipum milli kæranda og bæjaryfirvalda kom fram sú afstaða Akraneskaupstaðar að starfsemin samrýmdist skipulagsáætlunum á svæðinu. Sú afstaða stjórnvalds verður ekki jöfnuð við afgreiðslu málsins hjá því stjórnvaldi sem til þess er bært, en fyrir liggur að beiðni kæranda um að þvingunarúrræðum yrði beitt hefur ekki verið formlega afgreidd hjá byggingarfulltrúa Akraneskaupstaðar. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.