Árið 2023, fimmtudaginn 23. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 17/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 29. janúar 2023, kæra eigendur landareignarinnar Hagavíkur C, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varðar þann hluta hverfisverndar HV6 sem nær inn í land Hagavíkur.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 17. febrúar 2023.
Málsatvik og rök: Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 16. febrúar 2022 að auglýsa tillögu að nýju aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Á kynningartíma gerðu kærendur athugasemdir við hverfisvernd á Stóra-Grámel í landi Hagavíkur C. Sveitarstjórn féllst ekki á athugasemdir kærenda. Aðalskipulagið var samþykkt af sveitarstjórn 15. júní 2022, staðfest af Skipulagsstofnun 13. desember s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.
Af hálfu kærenda er bent á að aðalskipulagið hafi ekki verið staðfest af ráðherra og eigi því undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engin þörf sé á hverfisvernd á svæðinu þar sem engin ógn stafi af svæðinu og engar framkvæmdir ráðgerðar. Þá séu lagaákvæði um hverfisvernd svo almenn og óljós að ekki ætti að vera hægt að leggja á skyldur eða kvaðir á grundvelli þeirra. Að lokum hafi rökstuðningur ákvarðana verið rýr og svör frá sveitarfélaginu borist seint.
Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er farið fram á frávísun málsins með vísan til 52. gr. laga nr. 123/2010.
Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag.
Kærendur hafa bent á að ráðherra hafi ekki staðfest aðalskipulagið og eigi málið því undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður að skilja 52. gr. laga nr. 123/2010 sem svo að ákvarðanir sem annaðhvort eru staðfestar af Skipulagsstofnun eða af ráðherra verði ekki bornar undir nefndina, enda eru engar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 123/2010 sem bæði Skipulagsstofnun og ráðherra þurfa að staðfesta.
Samkvæmt framangreindu brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.