Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2017 Vegamótastígur

Árið 2017, föstudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b í Reykjavík og ákvörðun hans frá 18. október s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. janúar 2017, er barst nefndinni 4. febrúar s.á., kæra eigendur, Grettisgötu 3 og 3a, og eigendur, Grettisgötu 5, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir flutningi einbýlishúss af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg yfir á lóðina Grettisgötu 54b, Reykjavík, og þá ákvörðun hans frá 18. október s.á. að veita byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 í Reykjavík. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 22. febrúar 2017.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði, og á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða sambærilegrar starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir.

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. febrúar 2016 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir flutningi friðaðs einbýlishúss frá árinu 1904, af lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, á steyptan sökkul á lóðinni nr. 54b við Grettisgötu. Þá var hinn 31. maí 2016 tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á lóðunum nr. 7 og 9 við Vegamótastíg með 39 herbergjum fyrir 78 gesti auk bílageymslu í kjallara fyrir sex bíla. Þeirri umsókn var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans frá 1. júlí s.á. var tekið jákvætt í að minnka bílakjallara, en bent var á að lóðarhafi þyrfti að greiða fyrir stæðin sem upp á vantaði samkvæmt kröfum deiliskipulags og tryggja jafnframt stæði fyrir hreyfihamlaða við bygginguna. Á afgreiðslufundi sínum 20. september 2016 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um leyfi fyrir flutningi fyrrgreinds húss og hinn 18. október s.á. var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli auk kjallara á tveimur hæðum. Er gert ráð fyrir 39 herbergjum fyrir 78 gesti og veitingastað í efri kjallara, en ekki er gert ráð fyrir bílastæðum í neðri kjallara á samþykktum teikningum og engin bílastæði á lóð eru merkt á uppdrætti.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir muni rýra verulega lífsgæði þeirra. Heimiluð sé bygging fimm hæða hótels með tveggja hæða bílakjallara og veitingastað með næturopnun. Útsýni frá fasteignum kærenda muni skerðast, birta minnka og ónæði muni skapast vegna hótelgesta, veitingastaðar og bílakjallara. Kærendur hafi komið á framfæri rökstuddum andmælum sem ekki hafi verið tekin gild. Kærendur kæri einnig niðurrif á húsi á sömu lóð. Framkvæmdir séu hafnar en kærendur telji að byggingarleyfi og framkvæmdarleyfi hafi ekki verið gefin út.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að byggingaráform hafi verið samþykkt með vísan til gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu sé fjallað um samþykkt byggingaráforma en slík samþykkt feli það eitt í sér að fyrirhuguð byggingarframkvæmd uppfylli ákvæði laga, reglugerða og skipulags. Með ákvörðun um samþykki byggingaráforma sé umsækjanda veittar réttmætar væntingar til þess að byggingarleyfi fáist útgefið. Samþykkt byggingaráforma heimili umsækjanda aftur á móti ekki að hefja framkvæmdir fyrr en að byggingarleyfi hafi verið gefið út sbr., 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Óheimilt sé að hefja byggingarframkvæmd fyrr en að leyfi hafi verið gefið út.

Í kærumáli þessu liggi fyrir að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út á grundvelli samþykktra byggingaráforma. Umsækjandi hafi ekki enn uppfyllt skilyrði gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð til þess að fá útgefið byggingarleyfi. Yfirferð séruppdrátta sé enn ekki lokið og ekki hafi enn verið gefið út takmarkað byggingarleyfi á grundvelli fyrrnefndra ákvæða. Á þeim grundvelli sé það mat byggingarfulltrúa að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. gr., sbr. 2. mgr. 4. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa kærunni frá nefndinni.

Í kæru sé að finna röksemdafærslu fyrir kröfu kærenda sem byggi á skipulagslegum sjónarmiðum. Við gerð skipulagsáætlunar skuli m.a. litið til hæðar húsa, skuggavarps, starfsemi, birtu o.s.frv., sbr. gr. 5.3.2. og 5.1.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 1. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð verði byggingarleyfisumsókn ekki samþykkt nema að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun. Því geti ekki komið til greina að leggja mat á atriði sem taka skuli afstöðu til við skipulagsgerð þegar lagt sé mat á lögmæti byggingarleyfisumsóknar. Öðru máli gegni þegar kæra varði byggingarleyfi sem sé að mati kærenda ekki í samræmi við skipulagsskilmála. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir niðurrifi húss á lóðunum en aftur á móti hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir flutningi húss af annarri lóðinni hinn 20. september s.á.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skuli í kæru koma fram hvaða ákvörðun sé kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Í kærunni sé ekki tiltekið með nákvæmum hætti hvaða stjórnvaldsákvörðun sé verið að kæra, en í upphafi segi að verið sé að kæra „framkvæmdir og byggingarleyfi vegna áætlaðrar byggingar við Vegamótastíg 7-9“. Í niðurlagi kærunnar segi að kærendur telji „að byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út“. Þá sé niðurrif á húsi á sömu lóð einnig kært. Flutningur gamals húss á lóðinni hafi farið fram nokkrum vikum fyrir dagsetningu kærunnar. Vandséð sé að kæra uppfylli almenn skilyrði stjórnvaldskæru.

Þá hafi deiliskipulagi reitsins verið breytt með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 en breytingin hafi tekið til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9. Byggingarleyfið sem samþykkt hafi verið í október á síðasta ári sé að öllu leyti í samræmi við hið samþykkta deiliskipulag. Í kærunni sé ekki á nokkurn hátt reynt að sýna fram á að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við deiliskipulag. Aðeins sé verið að endurtaka þær athugasemdir sem gerðar hafi verið við deiliskipulagið á sínum tíma. Til þess að taka megi kæru til efnismeðferðar verði kærendur að tiltaka með skýrum hætti hvað það sé í útgefnu byggingarleyfi sem ekki sé í samræmi við lög eða gildar stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. hvort eða með hvaða hætti byggingarleyfið sé ekki í samræmi við samþykkt og auglýst deiliskipulag. Það sé ekki gert í kærunni. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kærunni.

Niðurstaða: Kveðið er á um það í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun þeirri sem kæra á. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 fól í sér heimild til flutnings mannvirkis af lóð. Kærendur hafa ekki teflt fram réttarhagsmunum sínum sem gætu raskast við flutning hússins, en telja verður að slík framkvæmd sé almennt ekki til þess fallin að hafa áhrif á einstaklega lögvarða hagsmuni eigenda nágrannaeigna. Skortir því á að fyrir liggi að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda ákvörðun byggingarfulltrúa um flutning hússins af lóð Vegamótastígs 9 sem veiti þeim kæruaðild í þeim þætti málsins. Verður kæru vegna greindrar ákvörðunar byggingarfulltrúa því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæra í málinu er skrifleg og undirrituð. Þar kemur fram hverjir kærendur eru og má af henni ráða hvaða kröfur þeir geri. Úrskurðarnefndin starfar eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hefur því bæði leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu um það hvað liggi að baki kæru. Með hliðsjón af framangreindu þykir skilyrðum um form kæru uppfyllt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var umsókn leyfishafa um byggingarleyfi samþykkt. Sú ákvörðun var tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og skapaði rétt til handa leyfishafa með tilteknum skilyrðum sem leyfishafa bar að uppfylla áður en að ráðist yrði í framkvæmdir. Samþykki byggingaráforma er því stjórnvaldsákvörðun sem ekki verður dregin til baka eða afturkölluð nema eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, en útgáfa byggingarleyfis fer fram í skjóli þeirrar ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun um samþykki byggingaráforma um nýbyggingu á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9 verður því borin undir úrskurðarnefndina skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í skilmálum gildandi deiliskipulags sem tekur til lóðanna Vegamótastígs 7 og 9 segir: „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls 5 hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum“. Þá segir einnig: „Einnar hæðar kjallari verður undir húsunum og verður hann notaður fyrir bílastæði.“ Samkvæmt þeim aðaluppdráttum sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa hinn 18. október 2016 verður kjallarinn undir húsunum á tveimur hæðum. Í neðri kjallara er gert ráð fyrir geymslum, þvottaherbergi o.fl. og í efri kjallara er gert ráð fyrir veitingasal. Liggur því fyrir að byggingarleyfið fer í bága við skilmála skipulagsins hvað varðar fjölda hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis. Skortir því á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi skipulag eins og kveðið er á um í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki.

Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“

Í byggingarlýsingu hins kærða byggingarleyfis fyrir nýbyggingum á fyrrgreindum lóðum kemur fram að samkvæmt deiliskipulagsskilmálum þyrftu að vera 15 bílastæði á lóðunum tveimur og greiða þurfi fyrir þau stæði. Á samþykktum aðaluppdráttum er ekki gert ráð fyrir bílastæðum í kjallara nýbyggingarinnar eða á lóðunum. Hinn 16. september 2016 var undirritað samkomulag milli Eignasjóðs Reykjavíkurborgar og leyfishafa vegna afnotaréttar af bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Samkvæmt samkomulaginu skyldi útvegað eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar. Stæðið skyldi merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða, en það yrði ekki sérmerkt Vegamótastíg 7 og 9. Fyrirhugað er að bílastæðið verði í um 10 m fjarlægð frá inngangi hótelsins, meðfram götu gegnt hótelinu.

Kröfur 6. kafla byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða og staðsetning þeirra gagnvart byggingum styðst við markmið algildrar hönnunar sem tryggja skal að sem flestir eigi kost á viðunandi aðgengi að tilteknum byggingum. Verður ekki talið að heimild 19. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, til þess að greiða bílastæðagjald ef ekki er hægt að koma bílastæðum fyrir á lóð, geti vikið til hliðar kröfum reglugerðarinnar um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu og sem ekki er sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi á umræddum lóðum, uppfyllir ekki kröfur byggingarreglugerðar til bílastæða fyrir hreyfihamlaða.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. september 2016 um að samþykkja flutning á húsi af Vegamótastíg 9.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingum á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Þorsteinn Þorsteinsson