Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 17/2008, kæra á útgáfu skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 4. febrúar 2008 á framkvæmdaleyfi fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir E, Vesturgötu 73, Reykjavík, fyrir sína hönd, annarra íbúa í hverfinu og húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, útgáfu skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 4. febrúar 2008 á framkvæmdaleyfi fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík, með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu. Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi en að öðrum kosti að framkvæmdir verði stöðvaðar ef til þeirra komi.
Í málinu liggur ekki fyrir umboð íbúa hverfisins eða húsfélagsins að Vesturgötu 69-75 til að kæra umdeilda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og verður því litið svo á að aðild málsins sé á hendi kæranda persónulega.
Málsatvik og rök: Hinn 13. júní 2007 var lagt fram á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs borgarinnar, dags. 10. júní 2007, þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi til að koma fyrir út frá Ánanaustum allt að þriggja hektara landfyllingu með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu. Var afgreiðslu erindisins frestað en það hlaut síðan samþykki ráðsins á fundi hinn 20. júní 2007. Var þeirri ákvörðun skotið til úrskuðarnefndarinnar sem vísaði kærumálinu frá hinn 14. desember 2007 þar sem ekki var talið að kærandi í því máli hefði einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sem er skilyrði kæruaðildar að stjórnsýslurétti. Hinn 4. febrúar 2008 var leyfisbréf vegna umræddrar framkvæmdar gefið út í umboði skipulagsstjóra Reykjavíkur með stoð í samþykkt skipulagsráðs um veitingu leyfisins frá 20. júní 2007. Hefur kærandi nú skotið þessari útgáfu framkvæmdaleyfisins til úrskurðarnefndarinnar.
Vísar kærandi til bréfs til borgarráðs frá 27. febrúar 2008 með tilmælum um að framkvæmdaleyfið frá 4. febrúar 2008 yrði afturkallað og fallið frá umræddri framkvæmd. Framkvæmdin snerti grenndarhagsmuni íbúa á svæðinu enda fylgi fyrirhuguðum flutningi á 300.000 rúmmetrum jarðvegs mikill hávaði og rykmengun. Ógildingarkrafa kæranda byggi m.a. á 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjalli um framkvæmdaleyfi, en álit Skipulagsstofnunar hafi ekki legið fyrir er leyfið hafi verið gefið út. Jarðvegur sem nota eigi við landfyllinguna sé talinn mengaður og snerti framkvæmdin að því leyti grenndarhagsmuni íbúa með ríkum hætti. Sé hún ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur og brjóti í bága við lög um mat á umhverfisáhrifum og sé vísað í því sambandi til bréfa Skipulagsstofnunar til borgaryfirvalda, dags. 26. september 2007 og 11. febrúar 2008.
Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram í fyrra kærumáli um fyrrgreinda framkvæmd að ástæða fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi vegna landfyllingar við Ánanaust sé sú staðreynd að mikið efni komi upp úr grunni vegna byggingar tónlistarhúss við Geirsgötu. Sé litið til umhverfisáhrifa verði að telja þetta hagkvæmustu lausnina við að losna við efnið jafnframt því að leyst yrði vandamál vegna ágangs sjávar við Ánanaust. Efnið sem um ræði sé gömul landfylling sem sjór hafi leikið um í áraraðir, en sjávarfalla hafi gætt langt inn í hana.
Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu við Ánanaust. Skilgreind landnotkun á fyllingunni sé blönduð byggð og í fyrstu töflu í greinargerð I í skipulaginu segi að þessi uppbygging verði á tímabilinu 2012 til 2024. Í neðanmálsgrein í sömu töflu segi enn fremur: „Meginhluti uppbyggingar viðkomandi svæðis fari fram á tilgreindu tímabili. Nauðsynlegur undirbúningur vegna uppbyggingar á einstökum svæðum, s.s. landfyllingar, getur hafist mun fyrr. Gert er ráð fyrir að landfylling fyrir framhaldsskóla við Ánanaust verði gerð fyrir 2012.“ Fyrirhuguð framkvæmd fari því ekki í bága við aðalskipulag. Heildarskipulag svæðisins verði unnið í samráði við íbúa og umhverfismat framkvæmt áður en til uppbyggingar komi á væntanlegri landfyllingu samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Hin heimilaða þriggja hektara landfylling sé ekki tilkynningarskyld eða matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Um sé að ræða afturkræfa framkvæmd en ekki verði ráðist í frekari landfyllingu á svæðinu eða framkvæmdir fyrr en að uppfylltum skilyrðum aðalskipulags Reykjavíkurborgar varðandi fyrirhugaða 35 hektara landfyllingu á svæðinu.
Niðurstaða: Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi sveitarstjórnar til framkvæmda sem ekki eru háðar ákvæðum IV. kafla skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi. Þá kemur fram í gr. 9.3 í greindri reglugerð að gefa megi út framkvæmdaleyfi þegar sveitarstjórn hafi staðfest samþykkt skipulagsnefndar um veitingu þess. Ákvörðun sveitarstjórna um veitingu framkvæmdaleyfis er endanleg stjórnvaldsákvörðun í því efni og er unnt að skjóta henni til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Hinn 20. júní 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur lokaákvörðun um veitingu umdeilds framkvæmdaleyfis á grundvelli c- liðar 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð, er staðfest var í borgarstjórn hinn 5. apríl 2005. Í nefndri grein er skipulagsráði falin lokaákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfa skv. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga með stoð í 2. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 svo sem henni var breytt með lögum nr. 74/2003. Eins og fyrr var að vikið var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá á grundvelli aðildarskorts.
Sú embættisathöfn, sem gerð var í umboði skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar, að gefa út framkvæmdaleyfisbréf hinn 4. febrúar 2008 fyrir umdeildri landfyllingu, er gerð með stoð í fyrrgreindri ákvörðun skipulagsráðs. Hún felur því ekki í sér sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar og markar ekki nýjan kærufrest vegna umdeilds framkvæmdaleyfis frá árinu 2007, sem telja verður að hafi verið löngu liðinn er kæra í máli þessu barst. Verður kærumáli þessu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson