Ár 2007, þriðjudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Geirharður Þorsteinsson skipulagshönnuður.
Fyrir var tekið mál nr. 17/2005, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag fyrir Sóltún-Ármannsreit.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. febrúar 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir V, Sóltúni 5, Reykjavík, f.h. húsfélagsins að Sóltúni 5, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 26. janúar 2005 um breytt deiliskipulag Sóltúns-Ármannsreits. Á fundi borgarráðs hinn 3. febrúar 2005 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.
Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Að öðrum kosti verði hinni kærðu ákvörðun breytt þannig að umferð að Sóltúni 8-18 og fræðslustofnun sem fyrirhuguð er á svæðinu verði einnig frá Hátúni.
Málavextir: Á árinu 2000 var samþykkt deiliskipulag fyrir svokallaðan Sóltúns-Ármannsreit sem markast af Sóltúni til suðurs, Hátúni til vesturs, Miðtúni til norðurs og Nóatúni til austurs. Á árinu 2001 voru gerðar lítilsháttar breytingar á skipulaginu. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. október 2004 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins og á fundi nefndarinnar hinn 13. s.m. var samþykkt að auglýsa framkomna tillögu. Fól hún m.a. í sér heimild til hækkunar hjúkrunarheimilisins að Sóltúni 2 um eina hæð ásamt fjölgun bílastæða á lóðinni, heimild til byggingar fjögurra hæða húss fyrir hjúkrunartengda þjónustu að Sóltúni 4 ásamt bílastæðum sem og að á lóðinni að Sóltúni 6 myndi rísa fræðslustofnun. Þá fól og tillagan í sér heimild til að reisa á lóðinni Sóltún 8-18 allt að átta hæða fjölbýlishús með 70 íbúðum ásamt bílastæðum, en deiliskipulagið frá árinu 2000 gerði ráð fyrir stækkun íþóttahúss er þar stóð ásamt 5000 m² byggingu á tveimur hæðum.
Tillaga að breyttu deiliskipulagi Sóltúns-Ármannsreits var auglýst til kynningar frá 10. nóvember 2004 til 20. desember s.á. og bárust þrjár athugasemdir, þ.á.m. frá kæranda.
Á fundi skipulagsráðs hinn 26. janúar 2005 var málið tekið fyrir að nýju. Voru þar lagðar fram athugasemdir ásamt umsögn skipulagsfulltrúa. Var eftirfarandi fært til bókar: „Auglýst tillaga samþykkt. Vísað til borgarráðs.“ Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum þann 3. febrúar 2005. Skipulagsstofnun tilkynnti í bréfi, dags. 16. febrúar 2005, að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing um gildistökuna hinn 18. febrúar 2005.
Framangreindri samþykkt skipulagsráðs skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að með hinu kærða deiliskipulagi sé gerð veruleg breyting á nýlegu skipulagi svæðisins. Í innsendum athugasemdum hafi kærandi lagst gegn auknu byggingarmagni á lóðinni að Sóltúni 8-18 og farið fram á að fjölbýlishúsin er þar muni rísa yrðu lækkuð um a.m.k. eina hæð. Þá vísi kærandi og til þess að slæm aðkoma sé að fjölbýlishúsunum og fræðslustofnuninni á lóðinni nr. 6 við Sóltún þar sem hún fari aðeins um Sóltún. Þetta hafi í för með sér mikið álag með ófyrirsjáanlegum afleiðingum sem geti leitt til alvarlegra umferðaróhappa og því þurfi aðkoman einnig að vera frá Hátúni. Ljóst sé að umferð um svæðið eigi eftir að margfaldast, sérstaklega þegar litið sé til þess að á svokölluðum Bílanaustsreit eigi eftir að byggja um 200 íbúðir til viðbótar þeim byggingarheimildum sem hið kærða deiliskipulag feli í sér. Þá bendi kærandi og á að ekki sé nægilega gerð grein fyrir stærð lóðar fræðslustofnunarinnar eða fyrirkomulagi leiksvæðis.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að umtalsvert byggingarmagn verði á lóðinni nr. 8-18 við Sóltún. Byggingarnar séu þó þannig staðsettar að þær varpi litlum skugga á íbúðabyggð við Sóltún 5 að sumarlagi. Því sé þó ekki að neita að þær hafi áhrif á útsýni.
Þá sé og vísað til þess að arkitekt hússins hafi verið beðinn um að kanna möguleika þess að færa aðkomu fjölbýlishússins þannig að hún yrði frá Hátúni. Hann hafi ekki talið sig geta fundið viðunandi lausn enda myndi þá aðkoman að fræðslustofnuninni færast vestar og vera nær Sóltúni 5 og valda meiri óþægindum. Einnig hafi verið óskað eftir umsögn verkfræðistofu sem ekki hafi gert athugasemd við fyrirkomulag gatnatenginga og aðkomu að fræðslustofnuninni og fjölbýlishúsunum.
Varðandi umferðarálag sé bent á að með góðri útfærslu stíga innan lóðar fræðslustofnunarinnar megi tryggja að foreldrar barna á leikskólanum leggi bílum sínum við vesturkant Hátúns og gangi með börn sín um 70 metra að inngangi leikskólans en lóðinni hafi verið úthlutað til Waldorfskólans. Í samræmi við framangreint verði gert ráð fyrir að dreifa umferðarálagi að skólanum. Inngangar að skólanum verði þrír til fjórir og gert sé ráð fyrir því að hluti nemenda geti gengið inn í skólann úr suðaustri þannig að hentugt verði fyrir foreldra að leggja bílum sínum meðfram Hátúni aki þeir börnum sínum í skólann.
Deiliskipulagið geri ráð fyrir lítilsháttar færslu á götunni fjær Sóltúni 5. Á þeirri spildu sem myndist við færsluna sé æskilegt að koma fyrir trjágróðri eða hlöðnum vegg sem dregið gæti úr áhrifum aukinnar umferðar um götuna. Varðandi athugasemdir um skólalóð og leiksvæði sé gert ráð fyrir að hanna nánar leiksvæði og skólalóð í tengslum við uppbyggingu á lóðinni. Samkvæmt umsögnum umferðarsérfræðinga muni umferð ekki aukast meira en það sem hægt sé að leggja á götur hverfisins.
Sérstaklega sé minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar fyrir Sóltúns-Ármannsreit og gerð krafa um að úrskurðarnefndin felli hana úr gildi m.a. með þeim rökum að auknar byggingarheimildir á svæðinu og útfærsla umferðarmannvirkja hafi í för með sér aukna umferð sem erfitt verði að stýra. Á skipulagsuppdrættinum er greinargerð sem lýsir markmiðum skipulagsbreytingarinnar, gerð er grein fyrir afmörkun svæðisins, skipulagsskilmálum, nýtingarhlutfalli og útfærslu fyrirhugaðra bygginga, bílastæða og aðkomu að svæðinu. Verður ekki annað séð en að framsetning skipulagsuppdráttar og greinargerðar sé nægjanlega skýr með hliðsjón af 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gr. 5.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Að auki verður ekki annað af málsgögnum ráðið en að skipulagsyfirvöld hafi við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar kannað nægilega áhrif skipulagsbreytingarinnar með tilliti til umferðar um svæðið. Verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi vegna ágalla á undirbúningi eða framsetningu hennar.
Með hinni kærðu ákvörðun var gerð breyting á deiliskipulagi er tók gildi á árinu 2000. Almennt verður að gjalda varhug við því að gera miklar breytingar á nýlega samþykktu deiliskipulagi enda má ætla að þeir er hagsmuna eigi að gæta hafi væntingar til þess að því verði ekki breytt þannig að gengið sé gegn hagsmunum þeirra. Eigi að síður verður að telja að skipulagsyfirvöldum borgarinnar hafi verið heimilt að samþykkja hinar umdeildu skipulagsbreytingar eins og hér stóð á, enda var svæði það sem um ræðir skilgreint þéttingarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Verður og að líta til þess að hafi kærandi sannanlega orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við gildistöku skipulagsins er honum tryggður réttur til skaðabóta samkvæmt 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hins kærða deiliskipulags.
Kærandi gerir og kröfu um að úrskurðarnefndin breyti hinni kærðu ákvörðun þannig að umferð og aðkomu að svæði því er um ræðir verði breytt ásamt því að hæð fjölbýlishúsa verði lækkuð. Í þessari kröfu felst að úrskurðarnefndin taki skipulagsákvörðun en til þessa er nefndin ekki bær og verður þessum kröfulið því vísað frá.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tímafrekrar gagnaöflunar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu samþykktar skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 26. janúar 2005 um breytt deiliskipulag Sóltúns-Ármannsreits.
Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um að hinni kærðu ákvörðun verði breytt.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Geirharður Þorsteinsson