Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

168/2024 Vistarvegur

Árið 2025, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 168/2024, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess að leggja á dagsektir, að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Vistarvegar 12, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk dagsekta, að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að veittur verði frestur til 1. september 2025 og að fjárhæð dagsekta verði lækkuð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 31. desember 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en deilur hafa staðið yfir frá árinu 2007 um hver sé raunveruleg stærð lóðarinnar Vistarvegar 12. Hinn 29. mars 2019 var samþykktur aðaluppdráttur fyrir byggingu sumarhúss á lóðinni sem skyldi staðsett innan skilgreinds byggingarreits og 5,0 m frá aðliggjandi lóðarmörkum. Í júní 2021 framkvæmdi EFLA verkfræðistofa mælingar á lóðamörkum Vistarvegar 10 og 12 sem byggðust á þinglýstum og hnitsettum lóðamörkum. Samkvæmt mælingunum var sumarhúsið, sem reist hafði verið að Vistarvegi 12, u.þ.b. 3,4 m út fyrir byggingarreit í austurátt og þannig einungis 1,6 m frá lóðamörkunum. Sveitarfélagið taldi þannig ljóst að sumarhúsið að Vistarvegi 12 hefði verið reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt, byggingarleyfi og ákvæði byggingar­reglugerðar um bil milli bygginga. Kærandi taldi á hinn bóginn að mælingarnar væru rangar þar sem miðlína á milli lóðanna hefði raskast og sumarhúsið væri þannig ekki út fyrir byggingarreit sinn.

Í framhaldinu fór skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings eystra fram á að kærandi færði sumarhúsið til á lóðinni þannig að það yrði innan byggingarreits og í 5 m fjarlægð frá lóðarmörkum Vistarvegar 10, að viðlögðum dagsektum að upphæð 25.000 krónum frá 28. febrúar 2023. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem kvað upp úrskurð 28. apríl 2023 í máli nr. 134/2022, þar sem ákvörðunin var felld úr gildi með þeim rökum að ágallar hefðu verið á undirbúningi ákvörðunarinnar, m.a. með tilliti til rannsóknar máls og meðalhófs sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verkfræðistofan Mannvit, nú COWI, framkvæmdi nýja mælingu í ágúst 2023 sem sýndi að fjarlægð milli húsa að Vistarvegi 10 og 12 væri 6,59 m að norðanverðu en 6,54 m að sunnanverðu.

Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda dags. 10. nóvember 2023 var tilkynnt að mælingar EFLU verkfræðistofu, um fjarlægð milli húsa hefðu verið sannreyndar af Mannviti verkfræðistofu. Fór sveitarfélagið fram á að þáverandi eigandi Vistarvegar 12 legði tvær eða fleiri tillögur að lausn sem uppfylltu kröfur gr. 9.7.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 fyrir 15. desember 2023. Þáverandi eigandi lést og fengu erfingjar hans frest til 15. febrúar 2024 sem var svo framlengdur til 15. apríl s.á. Nokkrir viðbótarfrestir hafa verið veittir eftir það af ýmsum ástæðum. Nokkur samskipti hafa verið milli sveitarfélagsins og kæranda um lausnir á málinu og hefur kærandi lagt fram tillögur til lausnar sem eigandi Vistarvegs 10 hefur hafnað. Hinn 5. nóvember 2024 var kæranda tilkynnt hin kærða ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi í engu haft þau atriði sem úrskurðarnefndin mæli fyrir um í niðurstöðu í máli nr. 134/2022 er gætu haft áhrif á mat um beitingu umþrættra þvingunarúrræða s.s. um stærðir lóða og lóðarmörk. Hafi sveitarfélagið látið Mannvit sannreyna mælingar EFLU verkfræðistofu út frá sömu gögnum og forsendum sem Efla hafi notað við mæliblað dags 8. júní 2021 sem legið hafi fyrir í máli nr. 134/2022 og verið forsenda fyrir ákvörðun sveitarfélagsins á þeim tíma. Sé vandséð hvernig þessar tvær verkfræðistofur ættu að fá sitthvora niðurstöðuna þegar verið sé að mæla staðsetningu húsanna út frá sömu forsendum enda megi sjá af mælingunum að þeim skeiki óverulega. Hafi ágreiningurinn ekki snúist um það hvort mæling Mannvits á fjarlægð milli húsanna væri röng eða mælingar EFLU heldur um forsendur mælinganna eins og bent sé á í úrskurðinum.

Sveitarfélagið hafi í engu kannað þær forsendur heldur látið Mannvit framkvæma mælingar að óbreyttum forsendum. Annað hvort séu forsendur mælinganna rangar, þ.e. að miðlínan sé mæld 5 m frá húsinu að Vistarvegi 10, en kærandi telji að eigandi þess húss hafi byggt út fyrir byggingarreit eða þá að það hafi aldrei verið 10 m á milli byggingarreita. Megi m.a. ráða það af mæliblaði sem sveitarfélagið lét gera að rotþró fyrir Vistarveg 12 sem sé nú komin yfir á Vistarveg 10. Hafi sveitarfélagið ekki upplýst hvers vegna svo sé og af hverju samþykkt hafi fengist fyrir húsinu að Vistarvegi 12 ef það komist ekki fyrir á byggingarreitnum. Hafi sveitarfélagið staðsett byggingarreitinn fyrir húsið, samþykkt teikninguna og gefið út fokheldisvottorð árið 2019, án nokkurra athugasemda byggingarfulltrúa og þar með staðfest að húsið væri innan byggingarreits.

Það eina sem sveitarfélagið hafi gert eftir framangreindan úrskurð nefndarinnar var að láta aðra verkfræðistofu mæla bilið á milli húsanna og í kjölfarið fara fram á að kærandi legði til tvær eða fleiri tillögur að lausnum sem uppfylltu brunaöryggiskröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hafi kærandi lagt fram þrjár tillögur í tölvupósti 26. apríl 2024 sem sveitarfélagið hafi ætlað að skoða og vera svo í sambandi við kæranda. Í tölvupósti 2. júlí s.á. hafi lögmaður kæranda vísað til fyrri málssögu og að ekki hafi borist formlegt svar við framlögðum tillögum, en til að brunahönnuður gæti hafist handa við nánari útfærslu þyrfti að liggja fyrir afstaða til þess hvaða leiðir væru samþykktar. Hafi sveitarfélagið ekki verið tilbúið til að líta til annarra úrræða sem gætu uppfyllt kröfur gr. 9.7.5 í byggingarreglugerð og borið fyrir sig andstöðu eigenda Vistarvegar 10 þar um.

Varðandi það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun, um að kæranda hafi verið í lófa lagið að staðsetja húsið annars staðar á lóðinni án þess að um brot á nálægðarreglu væri að ræða, sé vísað til nefnds úrskurðar í máli nr. 134/2022. Þar segi að ef fylgja ætti ákvörðun byggingarfulltrúa yrði að færa hús kæranda um 3,4 m til vesturs, en af gögnum málsins verði ráðið að húsið yrði þá komið út fyrir byggingarreit og jafnvel út fyrir mörk lóðar kæranda. Sé því lágmark að sveitarfélagið upplýsi hann um hvert eigi að færa húsið til á lóðinni enda rúmist það ekki innan byggingarreitsins þannig að 5. m séu að lóðarmörkum. Húsið verði ekki fært lengra til vesturs á lóðinni enda sé bilið að gaddavírsgirðingu og þverhnípi við hana um 1,5 m.

Að framangreindu sé því ljóst að ágreiningur sé um atriði sem áhrif gætu haft á mat við beitingu þvingunarúrræða s.s. um stærð lóða og lóðarmörk sem eru forsendur að þeirri mælingu sem framkvæmd hafi verið af verkfræðistofum og sveitarstjórn studdi ákvörðun sína við.

Málsrök Rangárþings eystra: Vísað er til bréfs fulltrúa skipulags- og byggingarsviðs Rangárþings eystra, dags. 10. nóvember 2023, til þáverandi eiganda Vistarvegar 12. Þar komi m.a. fram að mælingar á lóðunum og fjarlægð milli húsa hafi verið staðreynd af Mannviti og að fyrir liggi að húsið að Vistarvegi 12 sé reist í ósamræmi við samþykktan aðaluppdrátt. Á uppdrættinum komi skýrt fram að sumarhúsið eigi að vera 5,1 m frá lóðarmörkum að norðanverðu en 4,9 m að sunnanverðu sem ekki sé raunin miðað við mælingar EFLU og Mannvits. Í bréfinu sé farið fram á að eigandi Vistarvegar 12 leggi fram tvær eða fleiri tillögur að lausn sem uppfylli kröfur gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, varðandi brunaöryggiskröfur. Hafi frestur verið veittur til 15. desember 2023. Með tölvupósti lögmanns kæranda, dags. 26. apríl 2024, sé vísað í tillögur Verkís og lagðar til þrjár leiðir til úrbóta. Þær hafi verið að koma upp „sprinkler“ kerfi í bústöðunum, setja eldveggi á húsin að Vistarvegi 12 og 10 eða reisa sjálfstæðan brunavegg milli húsanna. Jafnframt hafi verið lögð fram tillaga um að nefndur brunahönnuður hjá Verkís, tæki verkið að sér. Hafi fulltrúi skipulags- og byggingarsvið sent bréf til eiganda Vistarvegar 10, dags. 2. maí 2024, þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um framangreindar tillögur. Svarbréf hafi borist frá lögmanni eigandans, dags. 31. maí 2024, þar sem tillögunum hafi verið hafnað.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 2024, til lögmanns kæranda hafi verið ítrekuð krafa sveitarfélagsins um skýringar frá byggingarstjóra Vistarvegar 12 á því hvers vegna húsið hafi ekki verið byggt samkvæmt samþykktum uppdráttum. Veittur hafi verið loka athugasemdafrestur til 20. ágúst 2024. Í niðurlagi bréfsins hafi jafnframt verið kynnt sú ákvörðun að dagsektir yrðu lagðar á kæranda ef fullnægjandi skýringar bærust ekki eða að öðrum kosti til að knýja fram úrbætur í formi brottflutnings hússins. Með bréfi dags. 11. september 2024 hafi lögmanni kæranda verið kynnt að fulltrúi skipulags- og byggingarsviðs Rangárþings eystra hefði í hyggju að taka ákvörðun um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsinu að Vistarvegi 12 að viðlögðum dagsektum. Gefinn hafi verið 15 daga frestur til að koma að sjónarmiðum eiganda Vistarvegar 12 en að þeim tíma liðnum yrði ákvörðun tekin.

Engin svör hafi borist og hafi kæranda með bréfi dags. 5. nóvember 2024, verið gert að rífa húsið, flytja það til á lóðinni, minnka eða breyta þannig að kröfur um fjarlægð milli húsa væri fylgt eða fjarlægja húsið með öðrum hætti fyrir 1. apríl 2025.

Vísað sé til gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi bil á milli bygginga. Ysta klæðning mannvirkjanna að Vistarvegi 10 og 12 séu í flokki 2 sem þýði að lágmarks bil milli húsanna þurfi að vera 10 m. Fyrir liggi að bilið milli húsanna sé fjarri því að vera nægilegt svo sem fram komi í mælingum EFLU og Mannvits. Eigandi Vistarvegar 12 beri ábyrgð á því að húsið sé ranglega staðsett á lóðinni og ekki byggt í samræmi við samþykktar teikningar, lóðarblað og framangreind fyrirmæli í byggingarreglugerð.

Með bréfi dags. 5. nóvember 2024 hafi kæranda verið gefinn kostur á að bæta úr fyrir 1. apríl 2025 og honum gefnir fjórir kostir í því sambandi. Þá komi fram í niðurlagi bréfsins að verði ekki brugðist við innan tímamarka muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess sem lagðar yrðu kr. 200.000 dagsektir á lóðarhafa þar til því verki væri lokið. Kærandi hyggist augljóslega ekki nýta gefinn frest til að bæta úr þar sem hann hafi þegar kært ákvörðunina og krafist ógildingar á henni. Hafi sveitarfélagið rannsakað málið í þaula og reynt allt til að leita lausna með mildari hætti, án árangurs. Engar heimildir séu til að þvinga eiganda Vistarvegar 10 til aðgerða eða framkvæmda sem hann sé ekki sammála um að fara í.

Hafi sveitarfélögunum verið gefin jörðin Ytri-Skógar með því samkomulagi að gefendur myndu reisa tvö sumarhús til eigin nota á lóð sem tæki til 5 ha. sem hvorki mætti selja né leigja og myndu þau ekki erfast. Lóðastærðin hafi verið skráð 2.500 m² í fasteignaskrá en afmörkun og hnitsetningu hafi fyrst verið þinglýst í nóvember 2020. Lóðarhafar hafi gert athugasemdir þegar deiliskipulagstillaga var auglýst og í kjölfarið hafi verið unnar tillögur að stækkun lóðanna. Þeim tillögum hafi verið hafnað að hálfu landeigenda. Þáverandi eigandi Vistarvegar 12 hafi skrifað undir og þinglýst lóðaleigusamningi fyrir þá lóð og því sé ljóst að engin deila sé fyrir hendi varðandi stærð lóðanna. Væri sú deila enn til staðar, breytti það að auki engu um raunverulega fjarlægð milli húsanna tveggja sem sé ólögmæt.

Þó kærandi hafi vissulega gert tillögur þá breyti það ekki þeirri stöðu að eigandi Vistarvegar 10 sé ekki samþykkur þeim framkvæmdum. Enginn vafi sé á stærð eða legu lóðarinnar að Vistarvegi 12 og sé byggingarreitur á lóðinni óumdeildur. Mælingar EFLU og Mannvits hafi eingöngu snúist um að mæla raunverulega fjarlægð milli þessara tveggja bygginga. Það geti ekki verið nema ein aðferð til að mæla þá vegalengd og því óhugsandi að mismunandi forsendur breyti nokkru um niðurstöðuna. Umfjöllun í kæru um aðstæður á lóðinni vegna landrofs og þverhnípis breyti engu um að bilið milli húsanna sé of stutt og það sé kjarni málsins.

Kæranda hafi verið í lófa lagið að hanna hús sitt og staðsetja þannig á lóðinni og innan byggingarreits að ekki yrði um brot á fjarlægðarreglum að ræða. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til minnisblaðs skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 28. desember 2024, sem sýni greinilega hvernig húsið að Vistarvegi 12 sé ranglega staðsett og hvernig kæranda hefði verið í lófa lagið að koma því fyrir á samþykktum byggingareit án þess að brjóta ákvæði reglugerðar um fjarlægð milli húsa.

Athugasemdir lóðareiganda að Vistarvegi 10: Bent er á að það liggi fyrir að sumarhús kæranda að Vistarvegi 12 hafi verið byggt utan byggingarreits eins og hann er skilgreindur í þinglýstum og hnitsettum skjölum og byggingin er ekki í samræmi við aðaluppdrátt. Þetta virðist raunar óumdeilt þar sem fram komi í kæru máls, og öðrum skjölum sem stafi frá kæranda, að húsið hafi verið reist í samræmi við samþykktar teikningar og verið byggt innan byggingarreits „eins og hægt var“. Samkvæmt 15. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 beri kærandi ábyrgð á því og þá jafnframt ábyrgð á úrbótum.

Það liggi nú fyrir með óyggjandi hætti með mati tveggja óvilhallra aðila, að húsið að Vistarvegi 12 hafi verið byggt utan byggingarreits eins og hann sé afmarkaður í þinglýstum skjölum. Húsbyggingin sé þar af leiðandi ekki í samræmi við aðaluppdráttinn frá 2019 og í því felist brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar.

Staðsetning hússins að Vistarvegi 12 uppfylli ekki meginreglu 9.7.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 m.t.t. brunavarna. Til þess að svo væri þyrfti að líkindum að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á báðum húsum sem hefðu að auki áhrif á útlit bygginganna. Sé lóðareiganda að Vistarvegi 10 alls kostar óskylt að ráðast í slíkar framkvæmdir þar sem húsið á lóð hans sé byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag. Það sé á ábyrgð lóðarhafa að Vistarvegi 12 að hús hans hafi verið reist í trássi við áðurnefnda grein reglugerðarinnar.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Með umdeildri ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra var lagt fyrir kæranda að færa til, fjarlægja eða breyta sumarhúsi hans að Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025 að viðlögðum 200.000 króna dagsektum og að húsið yrði fjarlægt af sveitarfélaginu á kostnað kæranda. Byggði ákvörðunin á því að bil milli húss kæranda og húss að Vistarvegi 10 fullnægði ekki kröfu ákvæðis gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bil á milli bygginga.

Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og ef ekki þá beita eftir atvikum þvingunar-úrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis en lagaákvæðið ber með sér að nefndum úrræðum verði ekki beitt samtímis.

Beiting nefndra þvingunarúrræða er verulega íþyngjandi ákvörðun sem er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun að vera studd efnislegum rökum. Þá ber stjórnvaldi einnig að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. um meðalhóf og rannsókn máls.

Eins og fram hefur komið hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurði í máli nr. 134/2022 fjallað um lögmæti þeirrar kröfu byggingarfulltrúa að eigandi sumarhúss að Vistarvegi 12 færi húsið til á lóð sinni að viðlögðum dagsektum. Ástæðu þeirrar kröfu mátti rekja til mælinga verkfræðistofunnar EFLU frá 8. júní 2021, þar sem niðurstöður sýndu að bilið á milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12 fullnægði ekki kröfum ákvæðis gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð um bil á milli bygginga. Í niðurstöðu úrskurðarins var tekið fram að ekki væri annað séð en að húsið að Vistarvegi 12 hafi verið reist samkvæmt aðaluppdráttum, samþykktum 29. mars 2019 af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra, og var hin kærða ákvörðun í því máli felld úr gildi. Eftir uppkvaðningu nefnds úrskurðar fól sveitarfélagið Mannviti verkfræðistofu að endurmeta fjarlægðir milli húsanna að Vistarvegi 10 og 12. Við mælinguna var stuðst við sömu gögn og EFLA verkfræðistofa hafði áður notað og var niðurstaðan sú sama, þ.e. að bil milli húsanna væri of lítið. Búa því efnisrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt lóðablöðum fyrir Vistarveg 10 og 12 skal fjarlægð frá byggingarreit hvorrar lóðar að lóðarmörkum að vera 5,0 m og þ.a.l. bil á milli byggingarreita alls 10,0 m. Er sú tilhögun byggð á ákvæðum byggingarreglugerðar, n.t.t. ákvæða gr. 9.7.5. um bil á milli bygginga. Deilur eru uppi í máli þessu um lóðarmörk umræddra lóða. Á slíkur ágreiningur, sem er eignaréttarlegs eðlis, ekki undir úrskurðarnefndina þar sem hún er ekki til þess bær að lögum heldur á ágreiningurinn eftir atvikum að vera til lykta leiddur fyrir dómstólum.

Samkvæmt aðaluppdrætti fyrir Vistarveg 10, samþykktum af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra 5. maí 2010, var sama fjarlægð á milli byggingarreita lóðanna að lóða-mörkum. Á uppdrættinum má sjá að byggingarreitur á lóðinni Vistarvegi 12 gaf lítið sem ekkert svigrúm fyrir stækkun hússins sem fyrir var í átt að lóðinni Vistarvegi 10. Í byggingarlýsingu Vistarvegar 10 kemur fram að húsið hafi verið lengt um 1 m til vesturs, í átt að Vistarvegi 12. Eftir að húsið að Vistarvegi 12 var stækkað er bilið milli bygginganna 6,57 m að norðanverðu og 6,53 m að sunnanverðu. Árið 2019 var samþykkt leyfi til byggingar 128 m² sumarhúss á lóðinni Vistarvegi 12, í stað eldra húss sem var 40 m². Sú fjarlægð sem mælist á milli bygginganna er ekki í samræmi við þá aðaluppdrætti sem samþykktir voru árið 2019.

Þá liggur fyrir að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins gerði fokheldisúttekt á húsinu að Vistarvegi 12 þann 12. ágúst 2019 þar sem kom fram að of lítið bil væri á milli bygginganna nr. 10 og 12. Fram að þeim tíma mátti kærandi vera í góðri trú þegar hann reisti húsið að það væri rétt staðsett miðað við samþykktan aðaluppdrátt. Auk þess bera fyrirliggjandi gögn með sér að ef húsið yrði fært 3,4 metra frá lóðamörkum væri það komið út fyrir byggingarreit og lóðarmörk Vistarvegar 12. Þá hefur sveitarfélagið leitast við að finna lausn á málinu og ýmsar tillögur kæranda um úrbætur hafa verið lagðar fyrir eiganda Vistarvegar 10, en þeim verið hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber eigandi ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Fram kemur í 1. mgr. 16. gr. sömu laga að hlutverk útgefanda byggingarleyfis sé að hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda. Hvílir þ.a.l. ábyrgð á báðum aðilum um að farið sé eftir lögum og reglugerðum.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í máli þessu er enn deilt um hver beri ábyrgð á því að fjarlægð milli húsanna standist ekki kröfur byggingarreglugerðar. Þegar aðilar stjórnsýslumáls eiga öndverðra hagsmuna að gæta er stjórnvöldum skylt að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra beggja eða allra. Um 10. gr. stjórnsýslulaga, segir í frumvarpi með lögunum að: „Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun í málinu. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar.“

Með vísan til framangreinds þykja enn vera annmarkar á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hefur áður vísað til í máli nr. 134/2022 með tilliti til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og þykir ekki með hliðsjón af 12. gr. laganna rétt að kærandi beri einn hallann af því ósamræmi sem er á milli samþykkts aðaluppdráttar hússins og þess sem raunin varð.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 5. nóvember 2024 um að krefjast tilfærslu, niðurrifs eða breytingar á húsi því sem stendur á lóðinni Vistarvegi 12 fyrir 1. apríl 2025. Að öðrum kosti muni sveitarfélagið láta fjarlægja húsið af lóðinni á kostnað lóðarhafa auk þess að leggja á dagsektir að upphæð kr. 200.000, þar til því verki sé lokið.