Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

167/2024 Langholtsvegur

Árið 2024, fimmtudaginn 5. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 167/2024, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. febrúar 2024 um að fjarlægja ekki sorptunnur við fasteignina að Langholtsvegi 135 og endurgreiðslu á álagningu gjalds vegna þeirra.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. desember 2024, kærir A þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 22. febrúar 2024 að synja beiðni um að sorptunnur við fasteign hans að Langholtsvegi 135 verði fjarlægðar og gjald vegna þeirra endurgreitt. Er þess krafist að sorptunnurnar verði fjarlægðar og gjaldið endurgreitt.

Málsatvik og rök: Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2024, dags. 19. janúar 2024, voru lögð á kæranda gjöld vegna sorphirðu við hús hans að Langholtsvegi 135 í Reykjavík. Skiptust þau þannig að vegna 240 lítra tvískiptrar tunnu fyrir blandað sorp og matarleifar var gjaldið kr. 52.500 og vegna 240 lítra tunnu fyrir pappírsúrgang og plast kr. 10.500. Samanlagt nam fjárhæð gjaldanna kr. 63.000.

Kærandi vísar til þess að hann hafi árangurslaust óskað eftir því að sorptunnurnar yrðu fjarlægðar. Þær séu óþarfar þar sem hann hendi litlu rusli og fari með það á móttökustöð. Tunnurnar hafi verið tómar allt árið og sé ekki þörf álagningar vegna þeirra. Með tölvubréfi frá 5. febrúar 2024 hafi hann óskað eftir því að tunnurnar yrðu fjarlægðar og kostnaður vegna þeirra dreginn frá fasteignagjöldum. Hafi hann í framhaldi átt í nokkrum samskiptum við starfsmenn Reykjavíkurborgar þar til beiðni hans var synjað með tölvubréfi frá 22. febrúar s.á.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Beiðni kæranda um að sorptunnur yrðu fjarlægðar og kostnaður vegna þeirra dreginn frá fasteignagjöldum var synjað með tölvubréfi frá 22. febrúar 2024. Voru samtímis gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Jafnframt voru á bakhlið álagningarseðils fasteignagjalda, dags. 19. janúar 2024, upplýsingar um kærurétt til nefndarinnar. Með þessu verður álitið að kæranda hafi verið eða mátt vera kunnugt um kærurétt sinn til úrskurðarnefndarinnar eigi síðar en 22. febrúar 2024. Kæra í máli þessu barst nefndinni 2. desember 2024, eða að liðnum lögbundnum kærufresti og verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulag nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.