Árið 2025, þriðjudaginn 25. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 165/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var með bréfi dags. 28. október 2024, um að aðhafast ekki varðandi útlitsbreytingu á gluggum á Nönnugötu 16.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. nóvember 2024, kærir Húsfélagið Nönnugötu 16, þá ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjavík frá 28. október 2024 að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar. Er þess krafist að úrskurðarnefndin ,,skoði málið og taki það til endurskoðunar.“
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2024.
Málavextir: Reykjavíkurborg barst þann 19. september 2024 ábending frá húsfélaginu Nönnugötu 16 um að gluggar á 2. hæð íbúðar nr. 202 samræmist ekki byggingartíma né teikningum hússins. Bent var á að ekki mætti breyta útliti hússins án samþykkis annarra eigenda og hafi þeir ekki verið látnir vita um þessar framkvæmdir. Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa þann 26. september 2024 og bókað í fundargerð: ,,Nönnugata 16 – breyting á útliti glugga. Byggingarfulltrúi mun ekki aðhafast þar sem ekki er um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í 2.3.4 gr. byggingarreglugerðar.“ Húsfélaginu var tilkynnt um um þessa niðurstöðu þann 28. október 2024. Úrskurðarnefndin lítur svo á að lögmæti þessarar afgreiðslu sé borin undir nefndina í máli þessu.
Málsrök kæranda/kærenda: Kærandi lýsir því að hann hafi kvartað til Reykjavíkurborgar um að eigandi íbúðar nr. 202 á annarri hæð hafi endurnýjað alla glugga á íbúðinni án samráðs við húsfélagið þannig að útlit þeirra varð annað en annarra glugga í húsinu. Kærður sé úrskurður deildar afnota- og eftirlits á umhverfissviði en teikningar af gluggunum í samþykktum teikningum hjá borginni hljóti að hafa tilgang. Gluggarnir vísi bæði út á Nönnugötu og Njarðargötu og sé stílbrotið hrópandi og augljóst öllum vegfarendum. Gluggarnir séu öðruvísi t.d. séu færri rúður í hverjum glugga, sem sé verulegur munur. Þetta sé lýti á yfirbragði hússins og leiði til lægra söluverðs fasteigna svo áhrifin séu bæði byggingarfræðileg og fjárhagsleg.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg vísar til þess að Jón Árnason og Ólafur Þór Celbat hafi lagt fram kæru í máli þessu fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16, sem skráð sé í fyrirtækjaskrá án þess að prókúruhafi sé tilgreindur. Ljóst sé að Jón og Ólafur, sem séu eigendur íbúða í húsinu, geti ekki lagt fram kæru í nafni húsfélagsins né skuldbundið félagið nema hafa til þess umboð skv. lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, en í 71. gr. þeirra laga sé fjallað um umboð til þess að skuldbinda húsfélag og aðildarhæfi, en æðsta vald í málefnum húsfélagsins sé í höndum almenns fundar þess sbr. 58. gr. laganna. Samkvæmt 12. tl. A-liðar 1. mgr. 41. gr. laganna þurfi einnig samþykki allra eigenda til ráðstafana og ákvarðana sem ekki varða sameignina og sameiginleg málefni, en eigendur telji æskilegt að þeir standi saman að og ráði í félagi. Umboð til rekstrar málsins þurfi að vera í samræmi við lög um fjöleignarhús og ná sérstaklega til rekstrar þessa máls. Slík ákvörðun þyrfti að vera tekin á dagskrá á löglega boðuðum húsfundi, með samþykki allra eigenda húsfélagsins. Kæran sé því haldin annmarka að þessu leyti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.
Reykjavíkurborg fjallar einnig um viðeigandi ákvæði byggingareglugerðar nr. 112/2012, m.a. gr. 2.3.4., og mannvirkjalaga nr. 160/2010 m.a. gr. 9, 55, 56 og 60. Mat byggingarfulltrúa á því hvort breyting á útliti fjölbýlishússins við Nönnugötu 16 hafi verið veruleg og hvort beita ætti þvingunarúrræðum hafi verið stutt efnislegri- og málefnalegri skoðun og rökum, breytingin skerði ekki hagsmuni nágranna, breyti eða hafi áhrif á götumynd, né raski öryggis- og almannahagsmunum. Ekki sé því um verulega breytingu að ræða. Ekki verði séð að óveruleg framkvæmd eða útlitsbreyting eins og sú sem um sé að ræða geti falið í sér lækkun á fasteignaverði eignarinnar og kærandi hafi ekki sýnt fram á tjón. Úrskurðarnefndin eigi því að hafna kröfum kæranda.
Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Úrskurðarnefndin óskaði staðfestingar á að þeir aðilar sem undirrituðu kæruna fyrir hönd húsfélagsins að Nönnugötu 16 hefðu nauðsynlegt umboð til slíks. Leiðbeint var um þetta við móttöku kærunnar og síðan veittur frestur til þessa til eins mánaðar sem náði til 15. febrúar 2025. Ekkert slíkt umboð barst.
———-
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að aðhafast ekki vegna ábendingar um breytingu á ásýnd á nýjum gluggum á 2. hæð á Nönnugötu 16, þar sem ekki sé um að ræða verulega útlitsbreytingu með vísan í gr. 2.3.4 gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Kæran er send og undirrituð af Jóni A. Árnasyni og Ólafi Þór Chelbat, fyrir hönd húsfélagsins Nönnugötu 16. Í húseigninni að Nönnugötu 16 eru 10 fastanúmer og um hana gilda fjöleignarhúsalög nr. 26/1994, m.a. um húsfélag og heimildir þess. Samkvæmt 66. gr. laganna skal í húsfélagi vera stjórn sem kosin er á aðalfundi, skipuð a.m.k. þrem mönnum og sé einn þeirra formaður sem kosinn er sérstaklega.
Í 1. og 2. mgr. 70. gr. laganna er stjórn húsfélags veitt heimild til að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar sem og að láta framkvæma minni háttar viðhald, viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. beri að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar. Í 1. mgr. 71. gr. laganna segir að húsfélag sé skuldbundið út á við með skriflegri eða rafrænni undirritun meiri hluta stjórnarmanna og skuli formaður að jafnaði vera einn af þeim. Í 2. mgr. 71. gr. segir að húsfélagið geti verið aðili að dómsmáli, bæði til sóknar og varnar.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð og koma fram hver sé kærandi. Upp gefinn kærandi í máli þessu er húsfélagið Nönnugata 16, sem er skráð í fyrirtækjaskrá og hefur kennitölu. Það er lögbundið félag skv. lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús og þótt ljóst sé að Jón A. Árnason og Ólafur Þór Chelbet, sem undirrituðu kæruna f.h. húsfélagsins, séu eigendur íbúða í fjöleignarhúsinu að Nönnugötu 16 liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að þeir séu stjórnarmenn í húsfélaginu eða að þeir hafi umboð félagsins til að leggja fram kæruna í nafni þess. Með því að ekki er ljóst að kæran stafi með lögformlegum hætti frá upp gefnum kæranda, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2024, er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.