Ár 2008, fimmtudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 163/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að klæða húsið nr. 28b við Fálkagötu í Reykjavík að utan með timburklæðningu í stað múrhúðunar.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2007, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra S S, D G, E G, M K B, S S og H N H, eigendur íbúða að Fálkagötu 28 í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. desember 2007 að veita leyfi til að klæða húsið nr. 28b við Fálkagötu í Reykjavík að utan með standandi timburklæðningu í stað múrhúðunar á einangrun.
Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að taka megi það til efnislegrar úrlausnar.
Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. desember 2007 var lögð fram umsókn um að utanhússklæðning hússins nr. 28b við Fálkagötu verði standandi timburklæðning í stað múrhúðunar á einangrun. Samþykkti byggingarfulltrúi erindið og á fundi borgarráðs hinn 20. sama mánaðar var afgreiðslan staðfest.
Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekki liggi fyrir samþykki þeirra varðandi breytta utanhússklæðningu eins og áskilið sé í 30. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Hafi því byggingarfulltrúa borið að kalla eftir slíku samþykki en ella að synja umsókninni.
Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að heimilt hafi verið að afgreiða byggingarleyfisumsóknina með þeim hætti sem gert hafi verið enda séu breytingarnar svo smávægilegar að aðrir meðlóðarhafar hafi engra hagsmuna að gæta varðandi þær og eigi því ekki lögvarinn rétt á að þeim verði synjað. Því eigi tilvitnað ákvæði fjöleignarhúsalaga ekki við um breytingar þessar. Þyki ljóst að áhrif breytingarinnar séu ekki svo veruleg að leitt geti til ógildingar byggingarleyfisins.
Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um kröfur kærenda en hefur ekki gert það.
Niðurstaða: Húsin að Fálkagötu 28 og 28b eru aðskilin en standa á sameiginlegri lóð. Ekki munu kærendur fara með eignarhald á húsi því er hið kærða leyfi varðar og telst það því ekki til sameignar í skilningi laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Verður því ekki séð að tilvitnað ákvæði 30. greinar nefndra laga eigi við í tilviki því sem hér er um ræðir og verður ekki fallist á að byggingarfulltrúa hafi borið að afla samþykkis kærenda áður en hið kærða leyfi var veitt. Verður ekki heldur talið að hin kærða ákvörðun raski svo lögvörðum grenndarhagsmunum kærenda að varðað geti ógildingu hennar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu samþykktar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. desember 2007 um að veita leyfi til að klæða húsið nr. 28b við Fálkagötu í Reykjavík að utan með timburklæðningu í stað múrhúðunar.
__________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson