Árið 2025, fimmtudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 162/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 um að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10, Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. nóvember 2024, kærir eigandi, Fjóluhlíð 11, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 12. maí 2024 að aðhafast ekki frekar vegna lóðarmarka Fjóluhlíðar 11 og Furuhlíðar 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 3. desember 2024.
Málsatvik og rök: Á árinu 2023 hóf kærandi tölvupóstsamskipti við byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna hæðar lóðar Furuhlíðar 10 og stöllunar á henni, sem hann taldi ekki vera samkvæmt samþykktum teikningum og skipulagi. Í kjölfarið fór byggingarfulltrúi á staðinn ásamt mælingamanni og með bréfi, dags. 12. maí 2024, var kæranda tilkynnt um niðurstöður mælinga. Í bréfinu kom fram að byggingarfulltrúi teldi að stöllun innan lóðar Furuhlíðar 10 samræmdist deiliskipulagi. Þá benti hann á að lóðarfrágangurinn hafi verið með þessum hætti frá því að húsin hafi verið byggð fyrir um 20-30 árum. Þá hugðist embættið ekki aðhafast frekar í málinu.
Kærandi kveðst hafa byggt hús sitt að Fjóluhlíð 11 í samræmi við samþykktar teikningar og hæð lóðarinnar sé í samræmi við deiliskipulag. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt nokkrum árum seinna og lóðin sett í jafna hæð í kóta 31 nema um 1,5 m frá lóðamörkum Fjóluhlíðar 11 þar sem 1,5 m hár stoðveggur hafi verið gerður svo hæðarkóti yrði réttur á lóðarmörkum. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar Furuhlíðar 10 enda hafi lóðin verið tekin út af byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar. Lóðin sé teiknuð einhalla að lóðarmörkum og hluti hæðarmunar tekinn upp við mitt hús Furuhlíðar 10. Byggingarfulltrúi hafi í ákvörðun sinni vísað til deiliskipulags um að heimilt sé að stalla lóðina niður að lóðarmörkum Fjóluhlíðar og að það sé gert með stoðvegg úr stórgrýti. Stöllun lóðar Furuhlíðar 10 sé í engu samræmi við teikningar lóðarinnar sem sýni einhalla, né deiliskipulag. Kærandi kannist ekki við að hafa fengið bréf með ákvörðun byggingarfulltrúa og því ekki náð að kæra ákvörðunina innan tímamarka. Á árinu 2024 hafi bréf verið send til bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa þar sem kærandi hafi óskað eftir viðbrögðum við erindi sínu. Bréfinu hafi ekki verið svarað fyrr en eftir samtöl við fulltrúa Hafnarfjarðar þegar afrit af bréfi byggingarfulltrúa hafi verið afhent.
Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er talið að kæran í málinu sé of seint fram komin og að hafna eigi öllum kröfum kæranda. Þá sé tiltekið að húsin og lóðirnar hafi verið í þessu horfi svo áratugum skipti. Húsið að Furuhlíð 10 hafi verið byggt árið 1989 og hús kæranda að Fjóluhlíð 11 hafi verið byggt 1994. Kærandi hefði mátt gera sér grein fyrir landhallanum þegar hús hans hafi verið byggt. Á samþykktum teikningum séu lóðarmörkin sýnd aflíðandi að lóðarmörkum, sem ekki sé raunin. Mælingamaður hafi mælt hæð á lóðarmörkum og í framhaldinu hafi verið ákveðið að embættið myndi ekki aðhafast meira í þessu máli. Kæranda hafi verið tilkynnt sú ákvörðun með bréfi.
Niðurstaða Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun byggingarfulltrúa var send á lögheimili kæranda með bréfi, dags. 12. maí 2024, þar sem samtímis voru gefnar leiðbeiningar um kærurétt til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið bréfið en fengið það síðar í hendur í samskiptum við fulltrúa Hafnarfjarðar. Í gögnum málsins er ódagsett bréf sem kærandi kveðst hafa afhent fulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar í júní 2024. Kemur þar fram að erindi hans um að lóðin Furuhlíðar 10 yrði hæðarsett í samræmi við skipulag, hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af þessu en að kærendur hafi vitað af hinni kærðu ákvörðun eigi síðar en í júní 2024.
Í ljósi þess að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. nóvember 2024, sem var að liðnum lögbundnum kærufresti, verður henni vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.