Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

160/2024 Laugarásvegur

Árið 2025, miðvikudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Halldóra Vífilsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 160/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember 2024 um að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 18. nóvember 2024, kærir Skúbb ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember s.á. um að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. desember  2024.

Málavextir: Með bréfi, dags. 28. nóvember 2023, var kærandi máls þessa upplýstur um að eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hefði borist ábending vegna ljósaskilta að Laugarásvegi 1. Þar kom einnig fram að á samþykktum aðaluppdráttum kæmi fram að ekki yrði sett skilti á bygginguna og að settar yrði límfilmur/merkingar í glugga. Skiltin væru þannig án byggingarleyfis. Var þinglýstum eiganda gert að fjarlæga skiltið innan 14 daga frá móttöku bréfsins. Í kjölfar símtals kæranda við starfsmann Reykjavíkurborgar 21. mars 2024 var samþykkt að fresta þvingunaraðgerðum þar sem fyrirhugað væri að sækja um byggingarleyfi vegna skiltanna.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2024, var þinglýstum eiganda Laugarásvegar 1 gert að fjarlægja viðkomandi skilti innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Var kæranda sent samrit bréfsins. Í bréfinu kom einnig fram að yrði ekki brugðist við kröfunni innan gefins frests áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir kr. 25.000. Var veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum vegna áforma um fyrirhugaðar dagsektir.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að sá einstaklingur sem sent hafi ábendingu til byggingarfulltrúa um skiltin sé mikið í nöp við ísbúðina Skúbb og hafi kvartað til allra yfirvalda með engum árangri hingað til. Önnur fyrirtæki í þjónustukjarnanum hafi líka haft skilti en ekki hafi verið bent á þau. Umræddur einstaklingur hafi unnið skemmdarverk á bíl fyrirtækisins, starfsfólk Skúbb sé hrætt við hann vegna hótana í þeirra garð. Viðkomandi noti m.a. bílastæði sem ætluð séu viðskiptavinum þjónustukjarnans. Skiltamálið hafi verið rætt á húsfundi og hafi niðurstaða fundarins verið ástæða þess að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi. Gerðar hafi verið ráðstafanir til að merkja ísbúðina með öðrum hætti og verið sé að bíða eftir þeirri pöntun. Fór kærandi fram á að ákvörðun byggingarfulltrúa yrði felld úr gildi vegna tómlætis íbúa þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en áður greindur einstaklingur hafi farið í stríð við ísbúðina. Til vara hafi kærandi farið fram á frest þar til ný lausn á merkingu ísbúðarinnar, sem ekki krefðist breytingar á byggingarleyfi, væri komin.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að umrætt skilti utan á byggingunni á lóð nr. 1 við Laugarásveg sé án byggingarleyfis og í ósamræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Samkvæmt gr. 2.3.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé óheimilt að reisa mannvirki, breyta því, burðavirki þess, lagnakerfum, notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Meint tómlæti meðeigenda eða borgaryfirvalda breyti engu. Eiganda skiltisins hafi um nokkra hríð verið kunnugt um að sækja þyrfti um breytingu á byggingarleyfinu ef skiltin ættu að vera áfram á húsinu. Það hafi kærandi ekki gert, enda virðist sem meðeigendur hússins samþykki ekki slíka ráðstöfun. Ekkert hafi komið fram sem geti valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og því beri að hafna kröfum kæranda í málinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg. Í húsnæðinu er rekin ísbúð.

Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, er kveðið á um að byggingarfulltrúi skuli gera eiganda eða umráðamanni lóðar aðvart sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu.

Í samþykktum aðaluppdráttum fyrir Laugarásveg 1, þar sem sótt var um leyfi vegna ísbúðar, er fjallað um merkingar. Þar segir: „Settar verða límfilmur í glugga. Ekki verður sett skilti eða frekari merking á bygginguna“. Eru hin umdeildu skilti þannig ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Meint tómlæti eiganda annarra eignarhluta í húsinu að Laugarásvegi 1 breytir því ekki að hin umdeildu skilti eru ekki í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti. Ef breyta á samþykktum aðaluppdráttum þarf byggingarleyfi sbr. 6. tl. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 160/2010 sbr. gr. 2.3.1. byggingarreglugerðar.

Að framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember s.á. um að fjarlægja skuli ljósaskilti á húsi á lóð nr. 1 við Laugarásveg.