Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2006 Smiðjuvellir

Ár 2006, fimmtudaginn 4. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon varaformaður, héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2006, kæra á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 9. febrúar 2006 um úthlutun lóðarinnar nr. 17 við Smiðjuvelli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir Garðar Briem hrl., f.h. B sf. og G ehf. ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 9. febrúar 2006 um úthlutun lóðarinnar nr. 17 við Smiðjuvelli, Akranesi til Bíláss ehf. 

Gera kærendur þá kröfu að samkomulag bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, dags. 8. febrúar 2006, um úthlutun lóðar nr. 17 við Smiðjuvelli, samkvæmt tillögu að deiliskipulagi á Smiðjuvöllum, við Bílás ehf., sem samþykkt var í bæjarráði Akraneskaupstaðar hinn 9. sama mánaðar, verði felld úr gildi. 

Þá er einnig gerð sú krafa að úrskurðarnefndin banni þegar allar framkvæmdir á lóð nr. 17 samkvæmt deiliskipulagstillögunum meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.  Krafist er málskostnaðar úr hendi Akraneskaupstaðar.

Málavextir:  Kærendur reka fyrirtæki á Akranesi sem fæst við léttan blikkiðnað og tækjaleigu.  Hafa þeir í hyggju að stækka við sig húsnæði og í því skyni lögðu þeir inn umsókn til bæjarins um byggingarlóð fyrir allt að 1000 fermetra húsnæði.  Í umsókninni var óskað eftir ,,5500 m² lóð sem staðsett er í framhaldi af nýúthlutaðri Bónuslóð.  Til vara er sótt um lóð sem staðsett er vestan við Bónuslóð og við þjóðveg“. 

Hjá bæjaryfirvöldum er til meðferðar nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir nokkrum breytingum á umræddu svæði.  Felast breytingarnar meðal annars í því að aðkoma vegfarenda inn í bæinn breyttist nokkuð og mun vegurinn sem er aðalinnkeyrslan í bæinn færast til og liggja austan við núverandi þjóðveg.  Á svæðinu hefur ekki verið samþykkt nýtt deiliskipulag.  Nýtt deiliskipulag var auglýst til kynningar hinn 23. febrúar 2006.  Í deiliskipulagshugmyndunum er gert ráð fyrir blöndu af verslunar- og þjónustusvæði á lóðunum austan megin og athafnasvæði á lóðunum vestan megin.

Kærendur sóttu um lóðir samkvæmt hinu ósamþykkta deiliskipulagi en gerðu sér ekki grein fyrir að deiluskipulagsferlinu væri ekki lokið.  Að sögn kærenda var þeim tjáð á fundi með formanni skipulags- og umhverfisnefndar, hinn 23. nóvember 2005, að deiliskipulagið væri enn til endurskoðunar og yrðu lóðir auglýstar til umsóknar þegar deiliskipulagsferlinu lyki.  Af hálfu kærenda var ítrekaður áhugi þeirra á lóðinni sem þeir sóttu um til vara í lóðarumsókn sinni.

Á fundi bæjarráðs hinn 9. febrúar 2006 var Bílás ehf. úthlutað lóð þeirri er kærendur óskuðu eftir og hinn 28. febrúar 2006 auglýsti Akraneskaupstaður lausar til umsóknar athafnalóðir við Smiðjuvelli og Kalmansvelli með fyrirvara um samþykki deiliskipulags.  Sóttu kærendur aftur um lóð nr. 17 samkvæmt skipulagshugmyndunum.  

Kærendur skutu ákvörðun um úthlutun lóðarinnar nr. 17 við Smiðjuvelli til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök aðila:  Kærendur byggja ógildingarkröfu sína á mörgum málsástæðum. Telja þeir að bæði formreglur og efnisreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar við meðferð málsins.  Telja kærendur að vinnureglur bæjarins við úthlutunina hafi verið brotnar auk þess sem ekki hafi verið gætt að óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins um val á leiðum til úrlausnar máls.  

Kærendur vísa sérstaklega til þess að þegar lóðinni nr. 17 við Smiðjuvelli hafi verið  úthlutað til Bíláss ehf. hafi á umræddu svæði verið í gildi deiliskipulag frá árinu 1997.  Því sé sú lóð sem fyrirtækinu hafi verið úthlutað í raun tvær lóðir.  Samkvæmt deiliskipulagstillögum sem nú séu til meðferðar sé aftur á móti gert ráð fyrir því að lóðirnar sameinist.  Því sé ljóst að lóðin sem Bíláss ehf. hafi verið úthlutað hafi í reynd ekki verið til þegar henni hafi verið úthlutað.  Kærendur hafni því að hægt sé að úthluta lóð sem ekki hafi verið til samkvæmt gildandi deiliskipulagi á þeim tíma sem úthlutun hafi farið fram. 

Af hálfu Akraneskaupstaðar er þess krafist að úrskurðarnefndin vísi kærumáli þessu frá nefndinni þar sem kæruefnið eigi ekki undir hana, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var kærendum veittur kostur á að tjá sig um framangreinda kröfu bæjaryfirvalda og mótmæltu þeir henni með bréfi, dags. 7. apríl 2006, og telja að ekki verði annað ráðið af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum en að ákvörðunin sé kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  

Af hálfu kærenda er vísað til þess að skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kveði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í lögunum sé kveðið á um meginverksvið nefndarinnar og sé það skilgreint rúmt og afmarkist við ágreiningsmál um skipulags- og byggingarmál.  Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmál nr. 621/1997 segi að hverjum þeim er telji rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar og/eða sveitarstjórnar sé heimilt að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndarinnar með kæru.  Sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Hlutverk nefndarinnar sé því afmarkað og telja kærendur að ákvæðið taki til þessa máls.  

Lóðinni nr. 17 við Smiðjuvelli hafi sannanlega verið úthlutað með samþykkt bæjarráðs og kæran hafi sannanlega verið lögð fram innan áskilins eins mánaðar frests.  Hvergi í tilvitnuðu ákvæði sé það gefið í skyn að kærur vegna lóðaúthlutana séu undanskildar verksviði nefndarinnar heldur sé orðalag ákvæðisins rúmt.  Skýrt sé að hverjum þeim sem telji rétti sínum hallað sé heimilt að skjóta máli sínu til nefndarinnar og telja kærendur að úrskurðarnefndinni beri að taka mál þeirra til efnismeðferðar að þessum skilyrðum uppfylltum.  Kærendur hafna því með öllu að nefndinni sjálfri sé heimilt að þrengja starfssvið sitt með því að undanskilja lóðaúthlutanir frá verksviði sínu í andstöðu við rúmt afmarkað verksvið sem skilgreint sé í skipulags- og byggingarlögum og reglugerð nr. 621/1997.  Það sé  greinilegt af öllum tilvitnuðum réttarheimildum, sem varði skilgreiningu á verksviði nefndarinnar að, löggjafinn og framkvæmdavaldið hafi með úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála viljað setja á fót sjálfstæða og sérfróða stjórnsýslunefnd sem úrskurði í öllum málum er varði skipulags- og byggingarmál.  Aldrei hafi verið ætlunin að undanskilja lóðaúthlutanir sérstaklega, enda hefði slíkt verið tekið fram í lögunum eða reglugerðinni.  Allan vafa í þessum málum verði að túlka kærendum í hag.

Lóðaúthlutanir í nýjum hverfum séu undanfari þess að gefin verði út byggingarleyfi á lóðunum enda verði ekki sótt um byggingarleyfi nema umsækjandi sé eigandi lóðar eða eigi rétt til afnota hennar.  Lóðaúthlutanir séu mikilvægasti þátturinn í skipulagsmálum að því er snerti borgarana og því mikilvægt að jafnræðis sé gætt.  Við slíkar úthlutanir eigi allir að standa jafnir og leikreglur sem sveitarfélögin hafi sjálf sett sér eigi að vera virtar.  Þetta sé sérstaklega mikilvægt í máli kærenda þar sem lóð á góðum stað við nýja innkomu í bæinn geti ráðið öllu um hvort fyrirtæki muni verða undir eða yfir í innbyrðis samkeppni.  Lóðaúthlutunin varði því mikla fjárhagslega hagsmuni kærenda. 

Niðurstaða sem fæli það í sér að lóðaúthlutun sveitarfélaga teldist ekki til skipulags- og byggingarmála í skilningi skipulags- og byggingarlaga myndi raska þessu fyrirkomulagi og hafa í för með sér mikið réttaróöryggi fyrir borgarana.  Væri með þeirri niðurstöðu í raun verið að gefa sveitarfélögum heimild til að haga lóðaúthlutunum sínum eftir hentugleika.  Slík niðurstaða yrði með öllu óásættanleg.  Lóðaúthlutanir og önnur skipulags- og byggingarmál verði aldrei aðskilin.

Verði ekki fallist á að 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar nái yfir kæruatriði vísa kærendur til 2. mgr. 1. gr. þar sem segi að um sé að ræða önnur kæruatriði en varði samþykkt byggingarnefndar og/eða sveitarstjórnar sé þeim sem telji rétti sínum hallað heimilt að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndarinnar með kæru.  Kærufrestur sé þrír mánuðir frá því að aðila hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.  Telja kærendur að í tilvitnaðari grein séu tekin af öll tvímæli um það að úrskurðarnefndin eigi að fjalla um öll kærumál vegna samþykkta sveitarstjórna sem snerti skipulags- og byggingarmál.  Kærufresturinn sé í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttarins um kærufrest vegna stjórnsýslukæra og það styðji þá niðurstöðu að málið eigi heima hjá nefndinni.

Niðurstaða:  Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í þeim er ekki að finna reglur er varða lóðaúthlutanir og hefur úrskurðarnefndin ekki vald til að úrskurða um meðferð eða afgreiðslu lóðaúthlutana.  Því verður ágreiningur um slíkt efni ekki borinn undir nefndina og er kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

     ___________________________          
                        Ásgeir Magnússon                               

 

 
_____________________________       ____________________________ 
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðaheiður Jóhannsdóttir