Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/1999 Laugavegur

Ár 1999, fimmtudaginn 15. apríl kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/1999; kæra vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. febrúar 1999 um að veita leyfi til að byggja verslunar-, þjónustu- og íbúðarhús úr steinsteypu á lóðinni nr. 53b í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 31. mars 1999, sem barst nefndinni sama dag, kæra sjö eigendur/íbúar húsnæðis að Laugavegi 53a, Laugavegi 55 og Hverfisgötu 70, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 25. febrúar 1999, sem staðfest var á fundi borgarstjórnar hinn 4. mars 1999, um að veita leyfi til byggingar verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúss á lóðinni nr. 53b við Laugaveg í Reykjavík.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá krefjast kærendur þess að framkvæmdir verði stöðvaðar strax og byggingarleyfi hafi verið veitt.  Kæruheimild er skv. 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 en krafa kærenda um stöðvun framkvæmda er gerð með stoð í 5. mgr. 8. gr. sömu laga.

Málavextir:  Einungis verða hér raktir málavextir að því marki sem þýðingu hefur við úrlausn um kröfu kærenda um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.
    
Ágreiningur um leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 53b við Laugaveg hefur áður komið til úrlausnar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Var það niðurstaða nefndarinnar í fyrra kærumáli að byggingarleyfi, sem samþykkt hafði verið, samræmdist ekki skilmálum gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur um nýtingarhlutfall og var byggingarleyfið fellt úr gildi  með úrskurði nefndarinnar hinn 12. nóvember 1998.  Eftir að þessi niðurstaða lá fyrir voru gerðar breytingar á teikningum fyrirhugaðs húss á lóðinni með það að markmiði að draga úr nýtingarhlutfalli þess.  Nýjar tillögur að húsi á lóðinni voru kynntar nágrönnum með grenndarkynningu og bárust athugasemdir frá kærendum.  Að fenginni umsögn skipulags- og umferðarnefndar, auk annarra nýrra gagna, samþykkti byggingarnefnd á fundi sínum hinn 26. febrúar 1998 að leyfa byggingu verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúss á lóðinni samkvæmt þeim teikningum sem þá lágu fyrir nefndinni.  Var samþykkt byggingarnefndar staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. mars 1999, eins og að framan er getið, og eru það þessar ákvarðanir sem kærðar eru í málinu.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Með bréfi til Jóns Magnússonar hrl., lögmanns byggingarleyfishafa, dags. 8. apríl 1999 var honum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum umbj. síns varðandi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Jafnframt var byggingarnefnd Reykjavíkur gefinn kostur á að tjá sig um þennan þátt málsins, en af hálfu nefndarinnar var ekki talin ástæða til þess að skila sérstakri greinargerð um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Með bréfi, dags. 12. apríl 1999, rekur lögmaður byggingarleyfishafa sjónarmið umbjóðanda síns um kröfuna.  Telur hann kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda lítt rökstudda og ekki sé að neinu leyti reynt að skýra í hverju meintir hagsmunir kærenda séu fólgnir og því útilokað að taka tillit til þeirra sjónarmiða.  Engin önnur sjónarmið komi fram af hálfu kærenda sem réttlæti stöðvun framkvæmda og beri því að hafna kröfunni. Þá er á því byggt að uppsteypa bílakjallara hússins skaði ekki hagsmuni kærenda enda hafi þeir ekkert haft við hann að athuga.  Einnig er bent á það að enginn ágreiningur sé um fyrstu hæð hússins og lúti kæran eða hugmyndir kærenda ekki að breytingum á fyrstu hæðinni.  Ágreiningur sé hins vegar um hæðirnar ofan þeirrar fyrstu en ljóst sé að framkvæmdir við þær verði fráleitt hafnar áður en úrskurðað hefur verið efnislega í málinu.  Af þessu sjáist hversu fráleit krafa kærenda um stöðvun framkvæmda sé.

Þá er að því vikið að úrskurðarnefndin hafi áður fjallað um byggingu húss á lóðinni og séu efnisatriði málsins því kunn.  Einungis þurfi að huga að því sem nýtt sé í málinu, þ.e. þeim breytingum, sem gerðar hafi verið á hönnun byggingarinnar, en þar hafi verið tekið mið af þeim sjónarmiðum, sem fram komi í fyrri úrskurði nefndarinnar.  Af þessu megi ætla að nefndin þurfi ekki nema hluta þess tíma sem henni sé ætlaður til þess að ljúka afgreiðslu málsins og séu hagsmunir kærenda af stöðvun framkvæmda því engir en hagsmunir byggingarleyfishafans séu hins vegar miklir.  Hann hafi þegar fengið verktaka til þess að annast framkvæmd verksins og muni þurfa að greiða honum bætur komi til tafa á verkinu vegna stöðvunar framkvæmda.  Þá seinki innkomu sölu- eða leigutekna af húsinu og geti hér verið um tugmilljóna tjón að ræða.  Muni krafa verða höfð uppi á hendur kærendum enda sé ljóst að þeir beri alla ábyrgð á slíku tjóni.  Það þjóni því ekki hagsmunum þeirra að verða við kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.  Loks er því haldið fram að þar sem ekki sé áskilið að kærandi, sem krefst stöðvunar framkvæmda á grundvelli 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997, setji tryggingu fyrir hugsanlegu tjóni, beri að synja um stöðvun framkvæmda nema ótvíræðir augljósir hagsmunir liggi til þess að það verði gert.  Að öðrum kosti verði sá sem krefjast vill stöðvunar framkvæmda að óska lögbanns sbr. 24. gr. laga nr. 31/1990.

Niðurstaða:  Framkvæmdir hófust við byggingu húss að Laugavegi 53b á grundvelli byggingarleyfis þess, sem fellt var úr gildi með úrskurði nefndarinnar hinn 12. nóvember 1998.  Hafa framkvæmdir legið niðri frá þeim tíma en eru nú að hefjast að nýju.  Í greinargerð lögmanns byggingarleyfishafa um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda kemur fram að áformað er að hefja uppsteypu bílakjallara hússins innan fárra daga og að uppsteypu hans og gólfplötu 1. hæðar verði lokið í byrjun næsta mánaðar. Samkvæmt þessum upplýsingum er ljóst að innan skamms tíma verður lokið byggingu varanlegs og verulegs mannvirkis á lóðinni.

Enda þótt mál vegna byggingar húss á lóðinni nr. 53b við Laugaveg hafi áður komið til úrlausnar úrskurðarnefndarinnar er hér alls ekki um sama mál að ræða.  Nú standa að málinu eigendur eignarhluta í húsinu nr. 55 við Laugaveg, sem ekki áttu aðild að fyrra máli.  Þá eru málsástæður ekki í öllum atriðum hinar sömu, auk þess sem hönnun byggingarinnar er nokkuð breytt.  Miklu varðar og að aðrar réttarheimildir eiga í veigamiklum atriðum við í máli þessu frá því sem var í fyrra máli, þar sem skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 eiga við í máli þessu, en eldri reglugerðir um sama efni áttu við í fyrra kærumáli.  Þær nýju aðstæður, sem þannig eru til komnar í máli því sem nú er til meðferðar, leiða til þess að leysa þarf úr allmörgum álitaefnum, sem ekki hafa áður komið til úrlausnar nefndarinnar.  Meðan ekki hefur verið leyst úr þeim álitaefnum, þykir vera það mikill vafi um efnislega niðurstöðu í málinu að óvarlegt sé að heimila þær framkvæmdir sem framundan eru meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.  Ekki er fallist á þá málsástæðu byggingarleyfishafa að ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 verði ekki beitt nema ótvíræðir augljósir hagsmunir liggi til þess að það verði gert og að kærendur verði að öðrum kosti að fá lögbann lagt við fyrirhuguðum framkvæmdum.  Engin slík skilyrði eru í ákvæðinu og verður ákvæðið ekki skilið á annan veg en svo að það sé í valdi úrskurðarnefndarinnar að meta það í hverju tilviki hvort ákvæðinu skuli beitt og réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar þannig frestað.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fallast beri á kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu húss að Laugavegi 53b í Reykjavík skuli stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.  Lagt er fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu kærenda um að framkvæmdir, sem hafnar eru á byggingarstað að Laugavegi 53b í Reykjavík, verði stöðvaðar meðan beðið er úrskurðar um aðalefni kærumáls þessa.  Lagt er fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt.