Árið 2025, miðvikudaginn 12. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 159/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. júní 2023 um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á Brautarholti 18-20.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 15. nóvember 2024, kærir A lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á Brautarholti 18-20, en vottorð þar um var gefið út 15. júní 2023. Í kærunni kemur fram að kærandi sé formaður húsfélagsins í Brautarholti 18-20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík 18. desember 2024.
Málavextir: Í máli þessu er kærð til ógildingar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um útgáfu vottorðs um lokaúttekt á 64 íbúðum á 2. – 5. hæð að Brautarholti 18-20, ásamt sameign og verslunarrými á jarðhæð, á þeim grunni að byggingaraðili hafi ekki farið eftir byggingarreglugerð um fjölbýli.
Málsrök kæranda: Kærandi segir að frágangi byggingaraðila á húseigninni Brautarholt 18-20 hafi um margt verið ábótavant, byggingarframkvæmdum hafi ekki verið lokið í samræmi við byggingarreglugerð og teikningar vanti af framkvæmdum. Kærandi tiltekur fjölda atriða sem hann telur í ólagi m.v. kröfur byggingareglugerðar og krefst ógildingar á lokaúttektinni í þeim tilgangi að fá seljanda byggingarinnar til að ljúka frágangi hennar til samræmis við byggingarreglugerð.
Málsrök byggingarfulltrúans í Reykjavík: Hið kærða lokaúttektarvottorð hafi verið gefið út 15. júní 2023, en kæra sé dagsett 15. nóvember 2024. Því sé ljóst að eitt ár og fimm mánuðir hafi liðið frá því að lokaúttektarvottorð var gefið út og þar til að kæra vegna þess barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hafi verið í sambandi við starfsmenn byggingarfulltrúa í júní 2023 og skv. tölvupóstsamskiptum starfsmanns byggingarfulltrúa og kæranda var kærandi upplýstur um vottorð um lokaúttekt þann 26. júní 2023 og barst vottorðið þann 27. júní 2023. Því sé ljóst að kæranda hafi verið kunnugt um vottorð um lokaúttekt frá 27. júní 2023, en í síðasta lagi í maí 2024 þegar úttektaraðili sem húsfélagið að Brautarholti 18-20 réði skilaði matsskýrslu, sem innihélt m.a. vottorð um lokaúttekt, til húsfélagsins. Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, sbr. 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hafi því verið löngu liðinn þegar kæran barst nefndinni, sama hvort tímamarkið sé miðað við sem upphaf kærufrests. Krefst byggingarfulltrúinn þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin.
———-
Niðurstaða: Í máli þessu er kærð til ógildingar lokaúttekt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarframkvæmdum að Brautarholti 18-20, skv. vottorði um lokaúttekt sem gefið var út 15. júní 2023. Í kærunni segir að kærandi hafi ekki nákvæma dagsetningu á því hvenær og hvernig hann vissi af hinni kærðu ákvörðun. Af fyrirliggjandi gögnum má hins vegar sjá að í samskiptum kæranda og starfsmanns byggingarfulltrúa Reykjavíkur þann 26. júní 2023 kom fram að byggingarfulltrúi hafi gefið út vottorð um lokaúttekt á Brautarholti 18-20 þann 15. júní 2023 og mátti því kæranda vera sú staðreynd ljós þann dag. Byggingarfulltrúi segir að kæranda hafi borist vottorðið 27. júní 2023. Upplýsingar um útgáfu lokavottorðsins komu einnig skýrlega fram í tölvupósti starfsmanns byggingarfulltrúa til kæranda þann 22. nóvember 2023, svo telja má að kæranda hefði í síðasta lagi átt að vera kunnugt um ákvörðunina þann dag.
Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kæran í máli þessu barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 15. nóvember 2024, að lögbundnum kærufresti liðnum.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. skal kæru þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.