Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

159/2007 Melabraut

Ár 2008, mánudaginn 28. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 159/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007 um að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 27 við Melabraut á Seltjarnarnesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. desember 2007, er barst úrskurðarnefndinni 11. sama mánaðar, kæra H og B, Melabraut 28, E, S, K og E, Melabraut 25, F, M,  H og R, Melabraut 26, K og L, Melabraut 30, H, Melabraut 32, C, T, K og S,  Melabraut 29 og B og G, Miðbraut 26 þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007 að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 27 við Melabraut.  Var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007. 

Úrskurðarnefndinna hafa borist tvær aðrar kærur, dags. 5. desember 2007, er bárust nefndinni hinn 11. sama mánaðar, þar sem G og Þ, Miðbraut 32 og Á og Í, Miðbraut 34 kæra einnig fyrrgreinda ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 8. nóvember 2007.  Þykja hagsmunir kærenda fara saman og hafa greind kærumál, sem eru nr. 160/2007 og 161/2007 verið sameinuð kærumálinu númer 159/2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að kveðinn yrði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu og var fallist á stöðvunarkröfu kærenda með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 10. janúar 2008.

Málavextir:  Hinn 25. september 2006 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Vesturhverfis á Seltjarnarnesi, er afmarkast af Lindarbraut, Vallarbraut, Hæðarbraut og Melabraut.  Fram kemur í greinargerð deiliskipulagstillögunar að markmið með endurskoðun deiliskipulags Vesturhverfis sé að samræma stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða og gefa lóðarhöfum, sérstaklega á syðri hluta svæðisins þar sem nýtingarhlutfall er undir meðalnýtingu, möguleika á auknu byggingarmagni innan uppgefinna byggingarreita.  Meðal annars var gert ráð fyrir hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Melabraut 27 í 0,5 og fjölgun heimilaðra íbúða.  Á kynningartími tillögunnar barst fjöldi athugasemda er snertu einkum mismunandi heimildir til nýtingar lóða innan skipulagssvæðisins.  Var tillagan samþykkt ásamt drögum að svörum við athugasemdum á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 8. mars 2007.  Bæjarstjórn samþykkti skipulagstillöguna hinn 27. júní 2007 og tók hún gildi hinn 7. ágúst s.á. með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.  Var deiliskipulagsákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness hinn 8. nóvember 2007 var samþykkt að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á lóðinni nr. 27 við Melabraut á grundvelli hins nýsamþykkta deiliskipulags og var ákvörðunin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007.  Hefur ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins verið skotið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar um deiliskipulag svæðisins sem þeir telji haldna ógildingarannmörkum.  Þá sé hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag.  Að Melabraut 27 hafi staðið einnar hæðar hús og heimili skipulagið hækkun um hálfa hæð.  Hins vegar heimili byggingarleyfið tveggja hæða hús.  Þá sé samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi gert ráð fyrir níu bílastæðum við götu en á skipulagsuppdrætti sé aðeins að finna eitt stæði fyrir umrædda lóð.   

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er skírskotað til þess að samkvæmt deiliskipulagi svæðisins sé heimilt að byggja tveggja hæða hús á umræddri lóð og í skýringum á deiliskipulagsuppdrætti komi fram fjöldi bílastæða á íbúð.    

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna kærumálsins en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir af hans hálfu.

Niðurstaða:  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumálum vegna deiliskipulagsákvörðunar fyrir Vesturhverfi á Seltjarnarnesi er samþykkt var af bæjarstjórn hinn 27. júní 2007.  Í þeim úrskurði var kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsins hafnað.

Hið kærða byggingarleyfi er veitt með stoð í fyrrgreindu deiliskipulagi sem heimilar byggingu tveggja hæða húss með fjórum íbúðum.   Í deiliskipulaginu er kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hverja lóð og verður það ekki talið skapa ósamræmi milli byggingarleyfis og skipulags þótt gert sé ráð fyrir fleiri bílastæðum á lóð í byggingarleyfi heldur en tilgreint er í deiliskipulagi.

Þar sem hið kærða byggingarleyfi er samkvæmt framangreindu í samræmi við gildandi deiliskipulag verður ekki fallist á ógildingu þess enda liggur ekki fyrir að leyfisveitingin  sé haldin öðrum þeim annmörkum er raskað gætu gildi hinnar kærðu ákvörðunar.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 8. nóvember 2007, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 14. nóvember s. á, um  að veita leyfi til að byggja fjögurra íbúða hús á tveimur hæðum á lóðinni nr. 27 við Melabraut.

 

__________________________
                           Hjalti Steinþórsson                          

 

 

_____________________________     ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson