Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

156/2021 Réttarholtsvegur

Árið 2022, föstudaginn 22. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 156/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir færanlegri kennslustofu á lóð nr. 21-25 við Réttarholtsveg í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Langagerði 40, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2021 að samþykkja byggingarleyfi fyrir færanlegri kennslu­stofu á lóðinni nr. 21-25 við Réttarholtsveg fyrir Réttarholtsskóla. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. desember 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 13. júlí 2021 var samþykkt umsókn eignasjóðs Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi fyrir færanlegri kennslustofu K132-J á lóð nr. 21-25 við Réttarholtsveg fyrir Réttarholtsskóla, en byggingin mun hafa verið sett upp um mánaðarmótin júlí/ágúst 2021. Kærandi kom á framfæri athugasemdum vegna byggingar­innar með tölvupósti til Reykjavíkurborgar 8. ágúst s.á. og benti m.a. á að eigendum Langagerðis 40 hefði ekki borist grenndarkynning vegna framkvæmdarinnar. Óskaði kærandi eftir viðbrögðum frá sveitarfélaginu. Með tölvupósti byggingarfulltrúa 14. september s.á. var kærandi upplýstur um fyrrgreinda samþykkt embættisins og honum veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki sé um færanlega kennslustofu að ræða heldur virðist hún varanlega skeytt við landið. Byggingin sé talsvert stór og standi mjög nærri lóðarmörkum fast­eignar kæranda. Umrætt hús sé í engu samræmi við aðrar byggingar á vegum Réttarholts­skóla og trufli verulega útsýni frá húsi kæranda. Skýrt sé samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynning hefði átt að fara fram áður en hið umdeilda leyfi hafi verið veitt. Engar undantekningar sé að finna í nefndum lögum vegna þessarar skyldu sveitarfélagsins og beri því að fella leyfið úr gildi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 88/2020.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Komið hafi upp umfangsmiklar rakaskemmdir í C-álmu Réttarholtsskóla og muni álman ekki verða nýtanleg undir kennslu meðan á fram­kvæmdum við hana standi. Mikilvægt sé að tryggja að skólastarf gangi vel, ekki síst vegna þeirrar röskunar sem orðið hafi síðastliðið eitt og hálft ár vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Í ljósi þess hafi verið ákveðið að tónlistarkennsla fari fram í færanlegri kennslustofu, sem komið verði fyrir á norðausturhluta lóðar skólans. Stærð hennar sé óveruleg miðað við stærð lóðarinnar, eða 80,2 m². Hún sé 16,5 m frá mörkum lóðar kæranda og heildarfjarlægð frá útvegg hennar að útvegg húss kæranda sé rúmir 22 m.

Kennslustofan uppfylli öll skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki er varði öryggi og hollustu­hætti kennsluhúsnæðis. Stofan sé sett upp til bráðabirgða vegna aðkallandi viðhalds á skóla­álmunni og mikilvægt hafi verið talið að koma kennslustofunni fyrir sem fyrst til að tryggja samfellu í kennslu.

Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir að falla megi frá grenndarkynningu ef leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. Þar sem kennslustofan sé staðsett innarlega á lóðinni og hún valdi hvorki skuggavarpi né rýri með nokkrum hætti lífsgæði íbúa við Langagerði, þ. á m. kæranda, sé það mat borgarinnar að skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt. Hefði því ákvæðið átt við þegar byggingarleyfisumsóknin var til meðferðar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að úrskurðarnefndinni beri að líta fram hjá málsrökum Reykjavíkurborgar þar sem greinargerð borgarinnar hafi borist nefndinni að liðnum fresti til að koma að athugasemdum. Áréttað sé að ekki hafi verið heimilt að lögum að fara gegn afdráttarlausum og fortakslausum áskilnaði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um skyldu til grenndarkynningar áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Því sé hafnað að ákvæði 3. mgr. 44. gr. fyrrgreindra laga hafi „átt við undir meðferð umsóknarinnar“, en ekki hafi verið vísað til ákvæðisins þegar hin kærða ákvörðun hafi verið samþykkt. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að falla frá grenndarkynningu ef „sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitar­félagsins og/eða umsækjanda.“ Reykjavíkurborg hafi því sönnunarbyrði fyrir því að þannig sé ástatt með bygginguna að kærandi hafi ekki hagsmuni af stöðu hennar, en því fari fjarri að það hafi verið leitt í ljós. Engu geti skipt um lögmæti byggingarinnar að stærð hennar sé óveruleg miðað við stærð lóðar skólans og hvergi í lögum sé gert ráð fyrir slíkum samanburði í tengslum við grenndarhagsmuni af byggingum.

Sérstaklega sé því mótmælt að kærandi teljist ekki eiga þá hagsmuni sem almennt séu verndaðir með tilliti til grenndar vegna þess að hús hans standi það fjarri byggingunni. Byggingin blasi við frá húsi kæranda og sé þar mjög áberandi, skerði útsýni og valdi skuggavarpi. Hún nái langt upp fyrir þá skólabyggingu sem fyrir sé og í raun þétt upp að lóð kæranda. Grenndarhagsmunir kæranda séu því augljósir. Þá séu rök­semdir Reykjavíkurborgar um röskun á skólastarfi og að byggingin uppfylli skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki máli þessu óviðkomandi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir færanlegri kennslustofu á lóðinni nr. 21-25 við Réttarholtsveg fyrir Réttarholtsskóla.

Umrædd lóð er á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er mælt fyrir um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir fram­kvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags­gerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þétt­leika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. 44. gr. laganna að falla frá grenndar­kynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Lóð Réttarholtsskóla er á skilgreindu svæði fyrir samfélagsþjónustu samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Verður að líta svo á að hin umdeilda kennslustofa fullnægi skilyrðum 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga um samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. og skilgreiningu d-liðar 2. mgr. gr. 6.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 á landnotkunarflokknum samfélags­þjónusta. Bar samkvæmt því að grenndakynna hina umdeildu byggingu áður en leyfi fyrir henni var veitt. Við mat á því hvort heimilt hafi verið að falla frá þeirri kynningu á grundvelli þess að leyfisveitingin varðaði ekki hagsmuni kæranda, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga, verður að líta til þess að kennslu­stofan er einungis í rúmlega 20 m fjarlægð frá húsi kæranda. Er og ljóst að hún hefur grenndaráhrif gagnvart umræddri fasteign kæranda vegna útsýnis og nálægðar. Með hliðsjón af því og með vísan til þess að túlka ber undantekningarákvæði þröngt þykir ekki hafa verið sýnt fram á að fram­kvæmdin varði aðeins hagsmuni Reykjavíkurborgar. Bar borgaryfirvöldum því að grenndar­kynna hina umdeildu byggingu fyrir kæranda. Þar sem það var ekki gert verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 Úrskurðarorð:

 Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir færanlegri kennslustofu á lóð Réttarholtsskóla nr. 21-25 við Réttarholts­veg.