Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

155/2024 Tjarnargata

Árið 2024, mánudaginn 23. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 155/2024, kæra vegna framkvæmda á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. nóvember 2024, kærir eigandi, Tjarnargötu 24, framkvæmdir á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að eigandi lóðarinnar Kirkjugerðis 11 stöðvi framkvæmdir og að lóðamörk sem sett hafi verið árið 1969 fái að standa. Jafnframt er þess krafist að eigandinn gangi svo frá að ekki standi hætta af og að hann setji girðingu í stað þeirrar sem hann hafi tekið niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 20. nóvember 2024.

Málsatvik og rök: Ágreiningur um lóðamörk mun hafa staðið yfir um árabil milli eigenda lóðanna Tjarnargöt 24 og Kirkjugerði 11 í Sveitarfélaginu Vogum, en samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru húsin á nefndum lóðum byggð árið 1969 og 1978. Árið 2017 óskaði eigandi Kirkjugerðis 11 eftir því að lóðin yrði sett út og var mælingafyrirtæki falið það verk. Sama ár sótti eigandinn um leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni að lóðamörkum. Var umsóknin grenndarkynnt og skilaði kærandi athugasemdum við þá kynningu þar sem byggingaráformunum var andmælt. Synjaði byggingarfulltrúi umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykki allra eigenda aðliggjandi lóða. Á þessu ári mun eigandi Kirkjugerðis 11 hafa hafið framkvæmdir við gerð stoðveggjar á umræddum lóðamörkum.

Kærandi telur að lóðamörk sem gerð hafi verið árið 1969 eigi að standa en ekki þær mælingar sem gerðar hafi verið af fyrirtæki. Það sé einkennilegt að einn lóðareigandi geti farið fram á að færa lóðarmörk sinnar lóðar og hefji svo framkvæmdir án leyfis og samráðs við nágranna. Það sé einnig einkennilegt að ekkert leyfi hafi verið gefið út eða að ekkert eftirlit hafi verið með framkvæmdunum.

Sveitarfélagið Vogar tekur fram að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir hinum umdeildu framkvæmdum. Um sé að ræða gerð stoðveggjar á lóðarmörkum Kirkjugerðis 11. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé tiltekið að allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, auk gerðar palla og annars frágangs á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi, sbr. c- og d-lið ákvæðisins. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi jafnframt fram að allur frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþeginn leyfi. Umræddur stoðveggur sé við jarðvegsyfirborð og því sé það afstaða sveitarfélagsins að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Búið sé að steypa vegginn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld eða aðila máls að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að ákveðin eignamörk fái að standa enda er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr um eignaréttarlegan ágreining. Þá verður heldur ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin geri eiganda Kirkjugerðis 11 að stöðva framkvæmdir og haga frágangi með tilteknum hætti.

Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum á lóðamörkum Kirkjugerðis 11 og Tjarnargötu 24 í Sveitarfélaginu Vogum. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út, enda sé það mat þess að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Liggur því fyrir að ekki hefur verið tekin ákvörðun á grundvelli mannvirkjalaga vegna hinna umdeildu framkvæmda. Verður af þeim sökum að líta svo á að ekki sé til að dreifa kæranlegri stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Rétt þykir að leiðbeina kæranda um að telji hann að framkvæmdir fari fram á lóð hans geti hann beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis og farið fram á beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Afgreiðsla slíks erindis sætir eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.