Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 150/2007, kæra á ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst hinn 5. nóvember 2007, kæra S og E, eigendur jarðarinnar Hnúks í Dalabyggð, þá ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi, sem er hluti jarðarinnar Hnúkur.
Kærendur krefjast þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.
Málavextir og rök: Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar hinn 4. júlí 2007 var lögð fram umsókn leigutaka hluta jarðarinnar Hnúks, svokallaðs Hnúksness, um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju. Var umsóknin samþykkt.
Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé tekin án nokkurs samráðs við þá sem landeigendur og að þeim hafi ekki verið gefin kostur á að kynna sér framkvæmdina að nokkru leyti. Þeim sé t.d. ekki kunnugt um í hverju umrædd framkvæmd sé fólgin, umfang hennar, hvernig mannvirkið komi til með að líta út eða hvar ætlunin sé að staðsetja það, en kærendur hafi augljósa, lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.
Bent sé á að framkvæmdin sé einkaframkvæmd, væntanlega unnin á vegum einkahlutafélagsins Hnúksness, og því ekki unnin á vegum opinberra aðila. Leiki vafi á hvort framkvæmdin sé ekki byggingarleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 36. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Land það sem framkvæmdaleyfið taki til, þ.e. Hnúksnes, tilheyri jörðinni Hnúki og sé því mótmælt að byggðarráð geti heimilað hina umdeildu framkvæmd án nokkurs samráðs eða samþykkis landeigenda, þ.á.m. að virtum grenndar- og nábýlisrétti, svo og að virtum skipulagsskyldum sveitarfélagsins lögum samkvæmt. Sé m.a. bent á að ekki hafi verið gætt að andmælarétti landeigenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kanna þurfi hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð í Hnúksnesi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr. 6. gr. hafnalaga nr. 61/2003 ásamt því hvort fyrir Siglingastofnun hafi verið lögð gögn um gerð mannvirkjanna til samþykktar áður en framkvæmdir hefjist.
Málsrök Dalabyggðar: Af hálfu Dalabyggðar er vísað til þess að Hnúksnes ehf. sé með á leigu land úr jörðinni Hnúki og þar séu mannvirki, þ. á m. bryggja, sbr. leigusamning og afsal, dags. 15. október 1967 og dags. 26. febrúar 1972. Hnúksnes ehf. muni hafa leitað til Siglingastofnunar og óskað eftir heimild til byggingar flotbryggju við gamla bryggju, sem þar sé, í tengslum við ferðaþjónustu á svæðinu. Hafi Siglingastofnun samþykkt framkvæmdina og styrk til verkefnisins. Tekið sé fram að fyrstu hugmyndir hafi gert ráð fyrir því að endurbyggja gömlu bryggjuna en þær síðan breyst í að byggja litla flotbryggju við hana. Hnúksnes ehf. hafi sótt um framkvæmdaleyfi og hafi það verið samþykkt enda sé Hnúksnes ehf. með land á leigu á umræddum stað og mannvirki á því landi. Þá sé ekki annað vitað en að öll tilskilin leyfi Siglingastofnunar séu fyrir hendi.
Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeim hafi ekki verið veittur kostur á að kynna sér málið sé tekið fram að maður sá er hafi ætlað að annast framkvæmdina fyrir Hnúksnes ehf. hafi farið sérstaklega á fund annars kærenda til að kynna honum málið. Á þeim fundi hafi engar athugasemdir komið fram.
Niðurstaða: Í máli þessu liggur fyrir samningur, dags. 15. október 1967, þar sem leigður er á erfðafestu hluti úr jörðinni Hnúki undir verslunarhús, sláturhús, frystihús o.fl. Með afsali, dags. 26. febrúar 1972, voru mannvirki á lóðinni seld hlutafélaginu Hnúksnesi ásamt því að lóðarréttindum var afsalað. Þá liggur og fyrir í málinu dómur Hæstaréttar í máli nr. 43/2006 þar sem hafnað er kröfu kærenda máls þessa um uppsögn eða riftun áðurnefnds samnings og verður hann því lagður til grundvallar. Samkvæmt samningnum er lóðin 1.500 m² að stærð og nær til sjávar. Er leigutaka heimilt að reisa á lóðinni hver þau mannvirki sem hann óskar. Verður að telja að flotbryggja sú, sem heimilað var að koma fyrir með hinu kærða leyfi, rúmist innan heimilda leigutaka samkvæmt lóðarleigusamningi og að ekki hafi því borið nauðsyn til þess að afla sérstaks samþykkis kærenda umfram það sem í samningnum fólst. Þá var hið umdeilda leyfi í samræmi við Svæðisskipulag Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu 1992-2012, en þar er gert ráð fyrir smábátahöfn og lendingarstað í Hnúksnesi og máttu kærendur vænta þess að mannvirki væru gerð þar í samræmi við skipulag.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki talið að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi borið að kynna kærendum umsókn Hnúksness ehf. um framkvæmdaleyfið, eða afla samþykkis þeirra áður en leyfið var veitt. Ekki verður heldur séð að aðrir þeir annmarkar hafi verið á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði og verður kröfu kærenda því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggðarráðs Dalabyggðar frá 4. júlí 2007 um að veita framkvæmdaleyfi til byggingar flotbryggju í Hnúksnesi.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson