Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/2006 Tangagata

Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2006, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 3. mars s.á., kærir R, Sundstræti 41, Ísafirði ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hinn 2. febrúar 2006. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og skipulags- og byggingaryfirvalda á Ísafirði til kærunnar og framkominnar kröfu.  Hefur nefndinni borist greinargerð Ísafjarðarbæjar en byggingarleyfishafi hefur ekki lýst sjónarmiðum sínum til kærunnar.  Með hliðsjón af framlögðum gögnum er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé nú tækt til efnisúrlausnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Árið 2000 sótti eigandi Tangagötu 26 um byggingarleyfi til breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs á eignarlóð sinni.  Á svæðinu var í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina frá árinu 1997.  Tillaga að breytingu á umræddu deiliskipulagi var kynnt á árinu 2000 þar sem bygging bílskúrs á lóðinni nr. 26 við Tangagötu, fast að lóðamörkum við Sundstræti, var heimiluð.  Erindið var grenndarkynnt og lauk kynningunni án athugasemda.  Breyting þessi á deiliskipulaginu var hvorki send Skipulagsstofnun til afgreiðslu né auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Framkvæmdir hófust við breytingar á íbúðarhúsinu en ekki við bílskúrinn. 

Vorið 2005 hófst eigandi Tangagötu 26 handa við bílskúrsbygginguna, gróf  fyrir sökklum, skipti um jarðveg og lagði lagnir að grunninum.  Kærandi, sem er eigandi að Sundstræti 41, kom á framfæri við umhverfisnefnd athugasemdum vegna framkvæmdanna og í kjölfarið sótti eigandi Tangagötu 26 um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir bílskúrnum með bréfi, dags. 22. júlí 2005.  Það erindi var tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar 27. júlí 2005 og var tæknideild falið að grenndarkynna umsóknina.  Það var gert með bréfum, dags. 29. júlí og 11. ágúst 2005, og markar seinna bréfið upphaf og lok grenndarkynningarinnar.  Ein athugasemd barst, frá kæranda í bréfum, dags. 12. ágúst og 5. september 2005. 

Að grenndarkynningu lokinni eða hinn 28. september 2005 var á fundi umhverfisnefndar bókað eftirfarandi:  „Umhverfisnefnd metur það svo, að þar sem skuggamyndun virðist vera óveruleg og að í gildandi deiliskipulagi fyrir Eyrina, dags. í nóvember 1997, er gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja geymsluhús aftast á lóðum, leggur umhverfisnefnd til við bæjarstjórn að umsókn Þórðar verði samþykkt.“  Bæjarstjórn vísaði tillögunni aftur til umhverfisnefndar og á fundi nefndarinnar hinn 12. október 2005 var byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjanda.  Á fundi umhverfisnefndar hinn 26. október 2005 var gerð grein fyrir því að samkomulag hafi náðst við eiganda lóðarinnar að Tangagötu 26 um breytingu á áður innsendu erindi þannig að innri gafl bílskúrsins verði u.þ.b. 1,3 metra frá lóðarmörkum að Sundstræti 41, en skúrinn breikki og verði fimm metrar á breidd í stað fjögurra.  Í kjölfarið lagði umhverfisnefnd til við bæjarstjórn að umsóknin um byggingarleyfið, svo breytt, yrði samþykkt.  Tillaga umhverfisnefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 3. nóvember 2005.  Með bréfi, dags. 25. nóvember 2005, kærði kærandi ákvörðun þessa til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum til bráðabirgða hinn 16. desember 2005 stöðvaði framkvæmdir við gerð bílskúrsins með vísan til þess að svo virtist sem hið umþrætta byggingarleyfi væri ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Gögn umhverfisnefndar varðandi grenndarkynninguna voru send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 8. desember 2005, og í bréfi stofnunarinnar, dags. 22. desember 2005, voru ekki gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing um gildistökuna í B-deild Stjórnartíðina hinn 5. janúar 2006. 

Á fundi umhverfisnefndar hinn 11. janúar 2006 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagður fram úrskurður ÚSB í kærumáli vegna bílskúrsbyggingar að Tangagötu 26 á Ísafirði.  Fram kemur í úrskurðinum að framkvæmdir við bygginguna skuli stöðvaðar, þar sem byggingarleyfi var ekki í samræmi við deiliskipulag, þar sem auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins, sem gerir ráð fyrir bílskúrnum, hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum þegar umsókn um byggingu bílskúrsins var samþykkt.  Með vísan til úrskurðar ÚSB er lagt til við bæjarstjórn að samþykkt bæjarstjórnar frá 3. nóvember 2005, um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúrbyggingu að Tangagötu 26 á Ísafirði, verði felld úr gildi, sbr. 2. tl. 26. gr. stjórnsýslulaga.“   Kærandi féll frá fyrri kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. nóvember 2005, með bréfi, dags. 30. janúar 2006.
Á fyrrgreindum fundi umhverfisnefndar hinn 11. janúar 2006 var einnig eftirfarandi fært til bókar:  „Tekin fyrir umsókn Þórðar Eysteinssonar þar sem hann sækir um heimild til að byggja 35m² bílskúr á lóðinni að Tangagötu 26, Ísafirði, í samræmi við deiliskipulag um lóðina, sem gekk í gildi með auglýsingu í Stjórnartíðindum 5. janúar 2006.  Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.“  Á fundi bæjarstjórnar 19. janúar var tillaga umhverfisnefndar samþykkt.

Hefur kærandi skotið framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að umdeild bygging hafi verulega neikvæð grenndaráhrif.  Hún muni skyggja á lóð hennar og hús.  Byggingin eigi að vera fjögurra metra há og muni byrgja alla sýn sem þó hafi verið einhver milli húsa.  Nálægðin verði yfirþyrmandi.  Byggingin sé áætluð við lóðamörk hennar húss, í gömlu og grónu hverfi þar sem hús séu lágreist og byggðin þétt.  Lóðin sem fylgi húsi kæranda sé vestan megin þar sem sólar njóti síðari hluta dags og muni byggingin skyggja á glugga á báðum hæðum húss hennar. 

Ekki sé fallist á að komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda með þeirri breytingu sem gerð hafi verið frá upphaflegri umsókn, enda hafi breikkun bílskúrsins í för með sér að hann stækki um sjö fermetra.  Skúrinn hafi mikil neikvæð áhrif á umhverfið og skapi slæmt fordæmi.  Í upphaflegu deiliskipulagi fyrir svæðið hafi verið gert ráð fyrir geymsluskúrum aftast á lóðum en hér sé á ferðinni mikið meira en geymsluskúr. 

Málsrök Ísafjarðarbæjar:  Af hálfu Ísafjarðarbæjar er kröfu kæranda mótmælt.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum bílskúr og komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda í málinu með því að færa skúrinn frá lóðamörkum. 

Bent sé á að í allri umfjöllun bæjaryfirvalda um mál þetta hafi verið fjallað um bílskúrsbyggingu en ekki geymsluskúr aftast í lóð. 

Fyrirhuguð bygging verði um 3,4 metrar á hæð en ekki 4 eins og kærandi haldi fram.  Fyrirhuguð bygging verði um 4,7 metra frá húsinu að Sundstræti 41 og 1,3 metra frá lóðarmörkum að Sundstræti 41.  Gluggar á 2. hæð að Sundstræti 41 séu nokkru hærri en fyrirhugaður bílskúr og muni hann því ekki byrgja útsýni úr þeim gluggum. 

Bæjarstjórn hafi á fundi sínum hinn 3. nóvember 2005 samþykkt að breyta deiliskipulagi lóðarinnar þannig að það tæki mið af athugasemdum um nálægð við Sundstræti 41 sem fram hafi komið í kjölfar grenndarkynningarinnar.  Málsmeðferð öll vegna deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið yfirfarin af Skipulagsstofnun sem ekki hafi gert athugasemd við að deiliskipulagsbreytingin væri auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Auglýsingin hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. janúar sl.  Umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 2. febrúar sl., enda í samræmi við gildandi deiliskipulag. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti samþykktar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 þess efnis að veita byggingarleyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði í samræmi við samþykkt deiliskipulag sem tók gildi hinn 5. janúar 2006. 

Baklóð kæranda, sem snýr í norður, og baklóð byggingarleyfishafa liggja saman.  Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina mun hin fyrirhugaða bílskúrsbygging vera 3,4 metrar á hæð og vera 1,3 metra frá lóðamörkum kæranda.  Hús kæranda stendur um 3,4 metrum frá lóðamörkum.  Á næstu lóð við byggingarleyfishafa hefur verið byggður bílskúr að lóðarmörkum. 

Úrskurðarnefndin telur að hæð og umfang byggingar samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni ekki skera sig verulega úr umhverfi sínu með tilliti til byggðarmynsturs þegar litið er til þess að um þétta byggð er að ræða og á lóðinni við hliðina hefur þegar verið reistur bílskúr.  Skuggavarp og birtuskerðing vegna hinnar fyrirhuguðu byggingar mun einkum beinast að norðurhluta lóðar kæranda.  Með vísan til þessa verður ekki séð að hið umdeilda byggingarleyfi og sú útsýnisskerðing sem af því leiðir valdi kæranda slíku óhagræði eða röskun að ógilda beri ákvörðunina. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 
_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Geirharður Þorsteinsson