Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.
Fyrir var tekið mál nr. 145/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2024 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu íbúðar að Furugerði 5 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. október 2024, kærir einn eigenda íbúðar 0102 að Furugerði 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2024 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu íbúðar 0101 að Furugerði 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. nóvember 2024.
Málavextir: Með erindi til byggingarfulltrúa í gegnum vefsíðu Reykjavíkurborgar 3. september 2024 benti eigandi íbúðar 0102 við Furugerði 5, F2270407, á að eigandi íbúðar 0101, F2034143, í sama húsi neitaði að setja hurð á sorpgeymslu sína. Það væri mikill sóðaskapur þar sem kærandi gengi fram hjá á leið inn og út úr íbúð sinni. Var farið fram á að Reykjavíkurborg myndi knýja á um frágang.
Með bréfi, dags. 17. september 2024, óskaði byggingarfulltrúi eftir skýringum frá þinglýstum eiganda íbúðar 0101 í nefndu húsi. Var vísað til þess að borist hefði ábending um að búið væri að fjarlægja hurð á sorpgeymslu íbúðarinnar en samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti ætti að vera hurð á rýminu. Eigendur íbúðar 0101 svöruðu erindi byggingarfulltrúa með tölvupósti 20. s.m. þar sem fram kom að þau væru búin að vera eigendur íbúðarinnar sl. níu ár og aldrei á þeim tíma hefði verið hurð á sorpgeymslunni. Þá var því velt upp hvort embætti byggingarfulltrúa hefði upplýsingar um hvort hurð hefði verið á sorpgeymslunni við úttekt hússins og hvort það væri þá ekki allra eigenda hússins að bæta úr ef svo hefði ekki verið. Þá kom fram ábending um pall og öskutunnuskápa við íbúð 0102 sem hindri eðlilegan aðgang að sameiginlegri lóð.
Kærandi var upplýstur með tölvupósti 26. september 2024 um að afnota- og eftirlitsdeild hefði farið í vettvangsferð að Furugerði 5 daginn áður og kynnt sér aðstæður. Málið hefði verið tekið fyrir á afgreiðslufundi deildarinnar með byggingarfulltrúa sama dag sem hefði metið að ekki væru slíkir almannahagsmunir til staðar að ástæða þætti til að byggingarfulltrúi hlutaðist til um málið með beitingu þvingunarúrræða.
Málsrök kæranda: Vísað er til þess að kærendur viti ekki til þess hvort einhvern tíma hafi verið hurð fyrir umræddri sorpgeymslu en eftir að hafa flutt inn í húsið árið 2023 hafi verið óskað eftir því að hurð yrði sett fyrir sorpgeymsluna en þeirri beiðni hafi ekki verið sinnt. Áskorun hafi verið send á eigendur íbúðarinnar með tilstuðlan Húseigendafélagsins en engin viðbrögð hafi borist. Í kjölfarið hafi verið send ábending á byggingarfulltrúa sem hafi að lokum talið að ekki væri þörf á að beita þvingunarúrræðum þar sem almannahagsmunum væri ekki raskað. Af einhverjum ástæðum hafi eigendur íbúðar 0101 í svörum sínum til byggingarfulltrúa séð ástæðu til að leggja fram ábendingu þess efnis að sorpgeymsla og pallur hefðu verið reist við íbúð 0102 án samþykkis og óskað eftir því að byggingarfulltrúi beitti þvingunarúrræðum til að fjarlægja það. Dómur hafi hins vegar fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. febrúar 2019 þar sem ekki hafi verið fallist á kröfur eigenda íbúðar 0101 gagnvart eigendum annarra íbúða í húsinu um að fjarlægja skjólvegg og þar með talið greinda sorpgeymslu og pall sem nú hafi verið kvartað yfir til byggingarfulltrúa. Niðurstaða dómsins hljóti að vera þeim kunn og því sé ljóst að borin hafi verið ósannindi á borð fyrir byggingarfulltrúa í þeim tilgangi að ógna kærendum og ráðskast með opinbera fulltrúa Reykjavíkurborgar.
Fasteign eigi að vera í samræmi við teikningar, líkt og fram komi í byggingarreglugerð og tölvupósti byggingarfulltrúa. Það að hurð hafi ekki verið til staðar þegar eigendur kaupi fasteign sé engin afsökun. Sorpgeymslan sé opin svo óþrifnaður sé af og rusl sem oft fjúki yfir á gangveginn og valdi slysahættu. Kærendur þurfi að ganga fram hjá á leið sinni til og frá íbúð sinni og sorpgeymslan sé lýti á húsinu sem dragi virði fasteignarinnar niður. Nauðsynlegt sé að setja hurð fyrir sorpgeymsluna þar sem í nágrenni hússins séu þjónustuíbúðir þar sem oft sé opið inn í matsal. Öruggt sé að þarna séu einhver meindýr sökum sóðaskapar og því snúi krafan um hurð á sorpgeymsluna að hreinlæti, hollustuvernd og öryggismálum ásamt því að almenningur gangi þarna um og því um almannahagsmuni að ræða.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að húsið á lóð Furugerðis 5 hafi verið byggt árið 1983 og þá skráð sem skrifstofuhúsnæði. Árið 2004 hafi byggingunni verið breytt í íbúðir og séu aðaluppdrættir frá þeim tíma. Þinglýstir eigendur að íbúð 0101 hafi verið eigendur að þeirri íbúð frá árinu 2015. Engar upplýsingar liggi fyrir sem bendi til þess að nokkurn tímann hafi verið hurð fyrir sorpgeymslunni frá byggingu hennar. Útidyr/hurð á sorpgeymslu, sem ytra byrði húss, falli undir sameign fjöleignarhúss sbr. 1. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og því beinist ágreiningur málsins að öllum þremur eigendum Furugerðis 5, þar á meðal ákvörðun byggingarfulltrúa um að beita ekki þvingunarúrræðum.
Ákvæði um beitingu þvingunarúrræða sé að finna í 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og feli í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa til að taka ákvörðun um beitingu slíkra úrræða en slík ákvörðun sé háð mati hans. Í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 160/2010 hafi komið fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki fyrir sig með tilliti til meðalhófs. Ákvæðið gefi byggingarfulltrúa kost á að bregðast við ef gengið sé gegn þeim almannahagsmunum sem búi að baki lögum nr. 160/2010, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Það sé því ávallt mat á aðstæðum sem ráði því hvort þvingunarúrræðum sé beitt eða ekki.
Við mat byggingarfulltrúa á því hvort beita ætti þvingunarúrræðum hafi verið litið til þeirra skýringar sem eigandi íbúðar F2034143, merkt 0101, hafi fært fram auk þess sem starfsmenn byggingarfulltrúa hafi farið á vettvang til að meta aðstæður. Það hafi verið mat þeirra að öryggis- og almannahagsmunum hafi ekki verið raskað. Ákvörðunin hafi verið tekin með hliðsjón af meðalhófsreglu og því að vöntun á hurðinni hafi ekki verið talin raska öryggis- og almannahagsmunum. Það væri mat Reykjavíkurborgar að ekkert hafi komið fram í málinu sem valdið gæti ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa.
Athugasemdir hagsmunaaðila: Bent er á að íbúar í íbúð 0102 hafi aldrei óskað eftir því að hurð yrði sett fyrir sorpgeymsluna eða rætt við nágranna um það. Stanslaust áreiti hafi verið af hálfu kærenda eftir kaup þeirra á íbúð sinni í húsinu auk þess að valda skemmdarverkum og hafa í frammi óhugnanlega hegðun. Fyrsta skipti sem það hafi komið upp að farið væri fram á hurð fyrir sorpgeymsluna hafi verið í bréfi frá húseigendafélaginu auk ásakana og lyga um allt mögulegt. Engin hurð hafi verið fyrir sorpgeymslunni árið 2015 þegar þau hafi flutt inn í íbúðina og miðað við útlit geymslunnar hafi aldrei verið hurð þar. Rusl fari ætíð beint ofan í ruslatunnur en hins vegar berist mikið rusl og lauf frá öðrum húsum í hverfinu sem sé tekið og hent. Engin meindýr séu á svæðinu og ruslatunnurnar nýlegar og hreinar og ekki sóðalegar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu.
Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.
Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum er tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunarúrræðum. Þar kemur fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða er því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur það sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.
Líkt og fram hefur komið fór fulltrúi embættis byggingarfulltrúa á staðinn og kynnti sér aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Í ákvörðuninni kom fram það mat byggingarfulltrúa að ekki væru slíkir almannahagsmunir til staðar að ástæða þætti til að hann hlutaðist til um málið með beitingu þvingunarúrræða.
Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa að synja kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2024 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu íbúðar að Furugerði 5 í Reykjavík.