Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

144/2016 Álftröð 1

 
Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 144/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til að stækka bílageymslur um 39 m2 á lóð við Álftröð 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2016, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var framsend kæra eiganda, Álftröð 3, Kópavogi, dags. 30. október 2016, þar sem kærð er ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. september 2016 um að samþykkja heimild til stækkunar bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. desember 2016.

Málavextir:
Hinn 5. nóvember 2015 sóttu fasteignareigendur að Álfatröð 1 um byggingarleyfi til stækkunar á bílskúrum, stiga utanhúss fyrir íbúð á annarri hæð o.fl. Nefnd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Byggingarfulltrúi vísaði málinu til skipulagsnefndar sem ákvað að grenndarkynna umsóknina. Umsóknin var í framhaldinu grenndarkynnt með bréfi, dags. 22. desember 2015, og lauk kynningu 1. febrúar 2016. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var umsókninni synjað hvað varðar stækkun bílskúra en samþykkt að öðru leyti. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 12. apríl 2016. Á fundi skipulagsnefndar 2. maí 2016 var umsókn lóðarhafa Álftraðar 1 um stækkun bílskúra á lóðinni úr 68,8 m2 í 107,8 m2, eða um 39 m2, synjað að nýju og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. maí s.á. Umsókn sama efnis var enn á dagskrá skipulagsnefndar 20. maí 2016 og samþykkti nefndin á fundi sínum 30. s.m. að grenndarkynna erindið með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í samræmi við bréf, dags. 21. júní 2016, fór grenndarkynningin fram og lauk henni 25. júlí s.á. Tvær athugasemdir bárust innan athugasemdafrests þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum var mótmælt.

Að lokinni grenndarkynningu gaf skipulags- og byggingardeild út umsögn, dags. 19. september 2016, þar sem kom fram að fyrirhuguð stækkun félli ekki að öllu leyti að yfirbragði núverandi byggðar þar sem stærð bílageymslna á götureitnum yrði yfir meðaltali. Neikvæð umhverfisáhrif af fyrirhugaðri stækkun yrðu þó lítil og ekki íþyngjandi. Var jafnframt á það bent að stækkunin yrði fordæmisgefandi fyrir götureitinn.
 
Skipulagsnefnd samþykkti umsóknina á fundi 19. september 2016 og var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar 27. s.m.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er þess krafist að bílageymslan verði ekki stækkuð til austurs og að hæð byggingarinnar fari ekki yfir núverandi hæð lægri skúrs sem nú sé fyrir á umræddri lóð. Hækkun skúranna hefði mikla skerðingu í för með sér á fjallasýn í vestur frá stofu og palli fasteignar hennar við Álftröð 3. Þó að trjákrónur á lóð Álftraðar 1 byrgi sýn að hluta, séu trén einungis laufguð 1/3 hluta úr ári auk þess sem unnt sé að fella þau. Annað gildi um byggingar. Bendir kærandi á að eftir stækkun verði grunnflötur bílskúranna stærri en grunnflötur íbúðarhússins á lóðinni sem telja verði óeðlilegt. Þá sé vísað til þess að bílskúrarnir séu hvergi teiknaðir nema á afstöðumynd hjá byggingarfulltrúa og séu því væntanlega óleyfisbyggingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að þær breytingar sem um ræðir séu óverulegar og hafi ekki í för með sér verulega skerðingu grenndarhagsmuna kæranda. Markmið um þéttingu byggðar komi skýrt fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Þéttingin sé gerð í samræmi við heildaryfirbragð hverfanna og með þeim hætti að það hafi ekki verulega íþyngjandi áhrif á umhverfisþætti líkt og útsýni, nánd o.fl. Eigendur fasteigna geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á nánasta umhverfi þeirra. Ekki verði horft framhjá því að á lóðinni standi stór tré sem hafi áhrif á útsýni, bæði þegar þau eru laufguð og ekki.

Á umræddu svæði sé hefð fyrir stórum bílageymslum og þær séu stærri en almennt í öðrum hverfum. Álftröð 1 sé tvíbýli og því gert ráð fyrir tveimur bílageymslum. Líkt og fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar sé stækkunin yfir meðaltali, en líta verði til þess að viðbyggingin sé ekki hærri en núverandi bílskúrar, stækkunin nái ekki nær lóðarmörkum en 3 m og umhverfisáhrif séu afar lítil. Því hafi verið talið að ekki væri um óeðlilega stækkun að ræða. Áréttað sé að umræddir bílskúrar séu teiknaðir á aðaluppdrátt sem samþykktur hafi verið á fundi byggingarnefndar Kópavogs þann 15. júní 1987 og eigi því stoð í lögformlegu byggingarleyfi.

Bent sé á að eigendur hafi unnið að því að fegra húsið að Álftröð 1 og muni bílskúrinn einnig fá yfirhalningu, þannig að umræddar breytingar hafi jákvæð áhrif á umhverfið og heildarásýnd lóðarinnar verði betri, lóðinni og hverfinu til mikils sóma.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að umræddur bílskúr standi langt inni á lóð hans, fjarri lóð kæranda, og að ekki standi til að hækka bílskúrinn. Vel sjáist á myndum að einungis örfá húsþök sjáist í fjarska á milli bygginga á Digranesveginum auk þess sem stofugluggi kæranda snúi í vestur. Því geti ekki verið um mikla skerðingu á hagsmunum kæranda að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja heimild til stækkunar á bílageymslu á lóð við Álftröð 1. Ákvörðunin var tekin að undangenginni grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingarleyfi án deiliskipulags.

Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu samþykkti skipulagsnefnd umsókn um stækkun umræddrar bílageymslu á fundi sínum 19. september 2016 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarstjórn 27. s.m. Að þeirri afgreiðslu lokinni var byggingarfulltrúa heimilt að lögum að veita umsótt byggingarleyfi. Leyfi hefur hins vegar ekki verið veitt samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Er því og við að bæta að skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson