Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

141/2021 Sjónarvegur

Árið 2022, fimmtudaginn 27. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Garðabæjar frá 21. janúar 2021 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Sjónarvegar 1 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. september 2021, er barst nefndinni sama dag kærir eigandi, Sjónarvegi 1, Garðabæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Garðabæjar frá 21. janúar 2021 að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Sjónarvegar 1. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 17. nóvember og 16. desember 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 21. janúar 2021 gaf byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt á húsinu að Sjónarvegi 1 í Garðabæ með athugasemd um að vélrænt afsog væri ekki til staðar í öllum eldhúsum. Með tölvupósti kæranda til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 11. mars s.á. voru gerðar athugasemdir við greinda afgreiðslu byggingarfulltrúa, einkum hvað varðaði úttekt vegna brunamála. Einnig var bent á að fulltrúi slökkviliðsins hefði ekki verið viðstaddur loka­úttektina. Í kjölfarið óskaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skýringa frá byggingarfulltrúa og rökstuðningi fyrir afgreiðslu málsins. Hinn 8. október 2021 lá fyrir sú niðurstaða stofnunarinnar að framkomnar skýringar teldust fullnægjandi og að á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna er fyrir lægju í málinu væri það í réttum farvegi hjá byggingarfulltrúa.

Kærandi telur að úttekt vegna brunavarna í sameign sé verulega ábótavant. Til að mynda sé inntaksrými rafmagns ekki þétt og veggir ekki með réttum IEXZ staðli. Þá hefði ekki átt að samþykkja handrið í stigagangi en sumstaðar sé hægt að mynda op sem sé stærra en leyfilegt bil á milli pósta. Fylgja beri lágmarkskröfum sem gerðar séu í reglugerðum og öryggisatriði og brunavarnir skulu vera í lagi. Hagsmunir kæranda og annarra íbúðareigenda hússins séu skertir vegna þessa og öryggi íbúa stefnt í hættu. Geti ágallar á úttekt haft áhrif á sölu íbúða í húsinu. Þá sé erfitt að segja til um hvort kærufrestur í máli þessu sé liðinn þegar málið hafi staðið í stað svona lengi.

 Sveitarfélagið hefur ekki skilað greinargerð í máli þessu en í svari byggingarfulltrúa til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 20. apríl 2021, kemur m.a. fram að stöðuútekt á húsinu hafi verið í lagi. Öryggistúttekt hafi farið fram 28. október 2020 að viðstöddum m.a. fulltrúa Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sem mælt hafi með því að öryggisvottorð yrði gefið út enda engar eða óverulegar athugasemdir gerðar við eldvarnir húsnæðisins. Við lokaúttekt hafi öryggisúttektin legið fyrir og talið hafi verið að úttektaraðili fyrir hönd byggingarfulltrúa myndi fylgja eftir skýrslu slökkviliðsins. Heimilt sé að gera öryggis- og lokaúttekt á sama tíma. Skoðun vegna lokaúttektar sé sjónskoðun og sé skoðunarmanni ekki ætlað að prófa virkni tækja eða búnaðar. Þá sé ekki að sjá að framkomnar athugasemdir eigi við rök að styðjast.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem fyrr er rakið gaf byggingar­fulltrúi Garðabæjar út vottorð um lokaúttekt 21. janúar 2021. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort sveitarfélagið hafi tilkynnt kæranda um útgáfu vottorðsins þegar það var gefið út en fyrir liggur að í mars s.á. kom hann að athugasemdum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna mögulegrar „kæru“ á lokaúttekt. Hinn 9. júlí 2021 sendi kærandi tölvupóst til stofnunar­innar til að athuga stöðu málsins og kom fram í svarpósti 13. s.m. að verið væri að skoða málið og að kærandi yrði upplýstur um framgang þess. Jafnframt var bent á rétt kæranda til að kæra ákvörðun um lokaúttekt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og að nánari upplýsingar væri að finna á vef nefndarinnar. Að framan­greindu virtu má ljóst vera að kæranda var kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar eigi síðar en í mars 2021 og um kærurétt sinn til nefndarinnar 13. júlí s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 6. september 2021, eða að liðnum lögbundnum kærufresti.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl.1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Fyrir liggur að kæranda var kunnugt 13. júlí 2021 að unnt væri að skjóta ákvörðun um lokaúttekt til úrskurðarnefndarinnar og hefði hann þá getað aflað sér frekari upplýsinga og gert reka að því að skjóta málinu til nefndarinnar innan lögmælts kærufrests.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem hvorki verður talið að fyrir hendi séu þau atvik að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr né veigamiklar ástæður fyrir því að kæran verði tekin til efnismeðferðar eins og málsatvikum er háttað verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.