Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

140/2020 Fákaflöt

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og­ Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnúmer 209731.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðarinnar Skeggjastaða, landnúmer 194858, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 24. nóvember 2020 að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnúmer 209731. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að gámahúsin verði fjarlægð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 1. febrúar 2021.

Málavextir: Samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2012-2024 er landnotkun Skeggja­staða, svæðisins sem um ræðir, skilgreind sem landbúnaðarsvæði. Stofnaðar hafa verið nokkrar lóðir úr jörðinni Skeggjastöðum, landnúmer 163963, þ. á m. Fákaflöt, landnúmer 209731, sem er lóð leyfishafa, og Skeggjastaðir lóð, landnúmer 194858, sem er í eigu kæranda, og deila þessar lóðir lóðamörkum. Þá á félag í eigu kæranda bæði Skeggjastaði land 9 og jörðina Skeggjastaði.

Með bréfi, dags. 4. desember 2019, til eiganda lóðarinnar Fákaflatar óskaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra eftir skýringum á stöðu mannvirkja (skúrs/smáhýsis og gáms) á nefndri lóð. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, tilkynnti embættið eigendum Fákaflatar að færa þyrfti nefnd mannvirki til þannig að þau stæðu a.m.k. í 3 m fjarlægð frá lóðarmörkum að landi Skeggjastaða. Að auki þyrfti að skila inn hönnunargögnum fyrir fyrrgreind mannvirki sem að mati byggingarfulltrúa virtust flokkast sem tilkynningarskyld framkvæmd skv. i-lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2020, óskaði eigandi Fákaflatar eftir teikningum og mælingum sem fram­kvæmdar hefðu verið þannig að hægt yrði að taka upplýsta ákvörðun um það hvort ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa yrði andmælt eða ekki.

Með bréfi, dags. 11. júní 2020, ítrekaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að skila yrði inn hönnunargögnum vegna nefndra mannvirkja en að öðrum kosti yrði að fjarlægja þau og afmá allt jarðrask. Kom fram að ef ekki yrði brugðist við ítrekuðum óskum embættisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi það láta fjarlægja mannvirkin á kostnað lóðareiganda.

Með umsókn, dags. 8. júlí 2020, sótti eigandi Fákaflatar um stöðuleyfi fyrir tvö gámahús frá 9. júlí 2020 til 9. júlí 2021. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra 24. júlí 2020 var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að gámarnir yrðu staðsettir innan lóðarmarka og var sú afgreiðsla staðfest á fundi byggðaráðs Rangársþings eystra 30. júlí 2020. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðar­nefndarinnar sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 11. nóvember 2020 í máli nr. 76/2020. Var vísað til þess að ekki væri fyrir hendi sérstök samþykkt hjá sveitarfélaginu Rangárþingi eystra um að skipulagsnefnd gæfi út slík leyfi. Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins, eða hinn 24. s.m., gaf byggingarfulltrúi út stöðuleyfi fyrir gámum á lóðinni með þeim fyrirvara að þeir yrðu staðsettir innan lóðarmarka Fákaflatar.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að þrátt fyrir mótmæli gegn staðsetningu umræddra gámahúsa, leyfislausri nýtingu á landi hans til aðkomu og hundarækt á smábletti í miklu nábýli hafi stöðuleyfi verið veitt með valfrelsi um staðsetningu. Það sé full ástæða til að óttast að þessi gámahús muni daga uppi þar sem þau séu á nærliggjandi spildum þegar litið sé til tregðu eigenda við að sækja um leyfi og vegna fjölda annarra leyfislausra en leyfisskyldra lausamuna, gáma og fleira til fjölda ára.

Í stöðuleyfi séu þessi hús eins og áður flokkuð sem „gámar“. Í greinargerð umsækjenda með umsókn um stöðuleyfi komi skýrt fram að þetta séu ekki gámar heldur gámahús sem ætluð séu undir hundaeldi. Á umsóknareyðublaði fyrir stöðuleyfi sé ekki spurt um samþykki nágranna. Í nýja stöðuleyfinu sé ekki gefin upp dagsetning frá því hvaða degi það taki gildi heldur aðeins til hvaða dags.

Hinn 1. nóvember 2020, skömmu fyrir frávísun úrskurðarnefndarinnar á þeim forsendum að stöðuleyfi hafi verið veitt af röngu stjórnvaldi, hafi gámahúsin verið færð af lóð kæranda og að lóðamörkum Fákaflatar og lóðar hans og hafi færslan numið 160 cm. Staðsetningin sé ekki samkvæmt umsókninni en hvorki hafi verið send inn né gerð krafa um nýja umsókn fyrir stöðuleyfisveitingu, en heimild þar til bærs stjórnvalds þeim til handa feli í sér að mannvirkin megi vera hvar sem er innan lóðarmarka. Stöðuleyfi byggingarfulltrúans hafi verið gefið út 24. nóvember 2020 eða einu og hálfu ári eftir að gámahúsin hafi fyrst verið flutt á svæðið.

Umrædd hús séu klædd að utan með timbri, bárujárnsþak hafi verið sett á þau og þau séu með gluggum og þrennum dyrum. Byggð hafi verið verönd ásamt því að rafmagn og vatn hafi verið leitt í húsin sem séu nýtt í atvinnuskyni. Samkvæmt skilgreiningu byggingarreglugerðar nr. 112/2012 séu gámar skilgreindir sem staðlaðir geymar ætlaðir til vöruflutninga á sjó og landi og þurfi stöðuleyfi fyrir þeim sem sækja skuli um áður en þeir séu fluttir á geymslustað. Enginn vafi sé á að þessi hús séu ekki ætluð fyrir vöruflutninga. Samkvæmt leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar séu gámahús byggingarleyfisskyld nema þau geti fallið undir undanþáguákvæði g. eða i. liðar í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segi í gr. 5.3.2: „Afmarka skal og setja ákvæði um hámarks­flatarmál gámasvæðis á lóð og hámarkshæð gámasamstæðu. Þar sem þörf er á gámasvæðum eða sorpgerðum á lóðum utan hefðbundinna atvinnusvæða skal staðsetja þau á baklóðum eða í aflokuðum rýmum. Gera skal grein fyrir afmörkun þeirra á uppdrætti.“

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið bendir á að heimild til útgáfu stöðuleyfis sé að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar segi í gr. 2.6.1. að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað sé til flutnings, og stór samkomutjöld. Á grundvelli umræddrar heimildar hafi Rangárþing eystra talið sig hafa fulla heimild til útgáfu stöðuleyfis með þeim hætti sem gert hafi verið. Áréttað sé að stöðuleyfi sé í eðli sínu tímabundið leyfi. Hið umþrætta stöðuleyfi falli því samkvæmt efni sínu úr gildi í júlí 2021.

Í fyrirliggjandi stöðuleyfi sé sérstaklega tekið fram að leyfið taki einungis til þess að setja umrædda gáma niður innan þess lands sem tilheyri lóðinni Fákaflöt. Leyfishafar hafi því enga heimild frá sveitarfélaginu til að setja gámana á land sem tilheyri kæranda eða öðrum aðilum. Almennt taki sveitarfélagið ekki afstöðu til ágreinings fasteignareigenda um lóðamörk eða landamerki bújarða. Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verði að leysa úr sjálfir eftir þeim reglum sem um það gildi. Sama gildi um ágreining um umferðarrétt.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð sú krafa að ákvörðun byggingarfulltrúa verði staðfest enda hafi verið fullkomlega réttilega staðið að henni. Ekki sé um að ræða byggingarleyfisskylda fasteign enda einungis um að ræða gámahús sem ætlað sé að vera tímabundið á lóð leyfishafa. Sambærileg gámahús hafi verið með stöðuleyfi annars staðar en séu ekki byggingarleyfisskyld.

Reynt hafi verið eftir bestu getu að leita eftir sátt við kæranda, meðal annars að bjóða greiðslu fyrir leigu af landi hans áður en gámahúsin hafi verið færð. Þá hafi verið unnið markvisst að því að fegra ásýnd þeirra og hafa þau í fullu samræmi við aðrar byggingar á staðnum, m.a. með því að klæða húsin með timbri þannig að ekki verði af þeim sjónmengun þrátt fyrir að þeim sé einungis ætlað að vera á lóðinni tímabundið á meðan unnið sé að hönnun og byggingu annars húsnæðis.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í 9. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að í reglugerð skuli setja ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skuli kveða á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.

Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um stöðuleyfi. Í gr. 2.6.1. kemur fram að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: a. Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. b. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað sé til flutnings, og stór samkomutjöld.

Samkvæmt 37. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð er hugtakið gámur skilgreint sem: „Staðlaður geymir fyrir vöruflutninga á sjó og landi.“ Í 54. tl. greinarinnar, þar sem hugtakið mannvirki er skilgreint, er m.a. tekið fram að til mannvirkja teljist tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar.

Umrædd gámahús eru hvort um sig 18 m2 að stærð og í greinargerð með umsókn leyfishafa um stöðuleyfi segir að í þeim sé fullkomin aðstaða og dvalarstaður fyrir hunda leyfishafa sem nýttir séu í smalamennsku og önnur störf tengd búskap. Eru umrædd mannvirki því ætluð til dýrahalds og munu þau vera staðsett í næsta nágrenni við lóð félags kæranda sem á stendur íbúðarhús. Með hliðsjón af framangreindri skilgreiningu í byggingarreglugerð á stöðuleyfisskyldum lausa­fjármunum geta umdeild mannvirki eða gámahús ekki fallið þar undir.

Með hliðsjón af framangreindu verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnúmer 209731.