Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2025 Langabrekka

Árið 2025, fimmtudaginn 3. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 14/2025, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 14. janúar 2025 um að fjarlægja skuli skýli að Löngubrekku 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 29. janúar 2025, kærir lóðarhafi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 14. janúar 2025 að fjarlægja skuli skýli á lóðinni að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. febrúar 2025.

Málavextir: Byggingarfulltrúi Kópvogsbæjar upplýsti kæranda með bréfi, dags. 2. desember 2024, að kvörtun hefði borist vegna byggingar skýlis á lóðinni að Löngubrekku 5. Byggingin væri leyfisskyld og var kæranda gefinn kostur á að koma að skriflegum skýringum innan 14 daga eða sækja um byggingarleyfi. Kærandi lagði fram skýringar, en byggingarfulltrúi féllst ekki á þær og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 14. janúar 2025, að hann skyldi fjarlægja skýlið innan 30 daga að viðlögðum dagsektum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Hin kærða ákvörðun varði skýli við suðurenda á bílskúr á lóð að Löngubrekku 5. Það sé óupphitað, án rafmagns, óeinangrað, haldi ekki vindi og sé einvörðungu ætlað að verja það sem í því sé fyrir úrkomu. Skýlið sé 6,5 m að lengd og 2,10 m að breidd, mesta hæð sé 2,4 m og minnsta hæð 2,2 m. Um sé að ræða opið skýli sem falli  undir gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sérstaka skilgreiningu á skúr og/eða skýli sé ekki að finna í reglugerðinni en smáhýsi sé lýst í g-lið áðurnefndrar greinar byggingarreglugerðar, sem taki til mannvirkja sem ekki séu leyfisskyld. Mannvirkið sé lítilfjörlegra en smáhýsi og byggingarfulltrúi hafi ekki rökstutt ákvörðun sína um að mannvirkið falli undir leyfisskylda framkvæmd. Óumdeilt sé að framkvæmdin stangist ekki á við deiliskipulag, en byggingarfulltrúi hafi ekki virt jafnræðis- eða meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að kanna betur hvort beita hefði mátt vægari úrræðum s.s. lækkun eða minnkun skýlisins. Þá megi draga í efa að rannsóknarskyldu hafi verið gætt nægjanlega, en hafður hafi verið uppi mikill málatilbúnaður af litlu tilefni, þrjár vettvangsskoðanir, tíðar bréfaskriftir og krafa um einhliða aðgerðir. Grenndarréttur hafi ekki verið brotinn á eigendum nágrannalóðar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Vísað er til þess að í 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Þar segi m.a. í 1. mgr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Þá segi að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum, sbr. flokkun mannvirkja skv. 1. mgr. 17. gr., skuli undanþiggja byggingarleyfi. Í samræmi við framangreint séu í 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 talin upp þau minni háttar mannvirki og framkvæmdir sem undanþegnar séu byggingarheimild og -leyfi.

Kæran varði skýli sem lokað sé á þrem hliðum auk þaks. Það sé fest á steyptan vegg við lóðamörk lóðarinnar nr. 61 við Álfhólsveg og verði ekki annað séð en það sé notað sem geymsla. Samkvæmt mælingu byggingarfulltrúa sé það rúmir 16 m² og því ekki undanþegið byggingarleyfi skv. f-lið gr. 2.3.5 byggingarreglugerðar, en smáhýsi allt að 15 m² séu undanþegin byggingarleyfi -og heimild. Skýlið fari því yfir viðmið þess að geta talist smáhýsi. Skýlið sé u.þ.b. 50 cm. frá lóðamörkum og samþykki aðliggjandi lóðarhafa liggi ekki fyrir, eins og áskilið sé í f-lið gr. 2.3.5. Breyti engu þótt kærandi telji að skýlið hafi ekki grenndaráhrif á aðliggjandi lóð. Meðalhófsregla stjórnsýslulaga eigi ekki við í máli þessu gegn skýrum fyrirmælum laga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar og ekki sé öðrum vægari úrræðum til að dreifa. Hafna beri kröfum kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar samkvæmt bréfi dags. 14. janúar 2025 um að kærandi skuli fjarlægja skýli á lóðinni að Löngubrekku 5. Kæruheimild til nefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og barst kæra innan kærufrests sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hið umdeilda skýli, sem notað hefur verið sem geymsla, hefur þak og veggi á þrjá vegu en hefur verið lokað yfir vetrarmánuði til að halda úti snjó. Samkvæmt lýsingu og ljósmyndum mætti helst flokka mannvirkið sem smáhýsi í skilningi 81. tl. gr. 1.2.1. í byggingareglugerð nr. 112/2012, þ.e. óupphitað skýli að hámarksstærð 15 m² sem almennt er ætlað til geymslu garðáhalda o.þ.h. en er ekki ætlað til íveru. Samkvæmt mælingum byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar á skýlinu er það 16,1 m² að stærð. Skýlið er því yfir þeim stærðarmörkum smáhýsa sem tilgreind eru í f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð og flokkast ekki sem minniháttar mannvirki sem undanþegið er byggingarheimild og -leyfi samkvæmt greininni. Kópavogsbær bendir einnig á að sú undanþága eigi ekki við þar sem skýlið liggi nær lóðamörkum en 3 m og því sé áskilið samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar sem liggi ekki fyrir.

Að þessu virtu var byggingafulltrúa rétt að krefjast þess að skýlið yrði fjarlægt að viðlögðum þvingunarúrræðum skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Einnig ber að telja málið nægilega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en kærandi lýsir tíðum bréfaskriftum bæjarins vegna málsins, óskum um skýringar og þremur vettvangsskoðunum fulltrúa hans. Þá tel ég aðgerðir bæjarins falla innan marka meðalhófs skv. 12. gr. stjórnsýslulaga, en byggingarfulltrúi óskaði skýringa frá kæranda og benti honum á að sækja um byggingarleyfi. Sjónarmið kæranda um að hægt hefði verið að krefjast lækkunar eða minnkunar á skýlinu eiga ekki við þar sem ákvörðunin byggist á skorti á byggingarleyfi.

Að framangreindu virtu verða ekki taldir neinir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem varðað geti ógildingu hennar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 14. janúar 2025 um að fjarlægja skuli skýli að Löngubrekku 5.