Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

134/2018 Breiðdalshreppur

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 134/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 um að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2018, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi, Brekkuborg, Breiðdalsvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Er þess krafist að í aðalskipulaginu verði lausaganga sauðfjár bönnuð.

Málsatvik og rök: Hinn 30. júlí 2018 samþykkti sveitarstjórn Fjarðabyggðar tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Staðfesti Skipulagsstofnun aðalskipulagið 24. október s.á. og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á.

Kærandi vísar til þess að í aðalskipulaginu sé lausaganga sauðfjár áfram heimiluð. Ísland sé aðili að bæði Kýótó-bókuninni og Parísarsáttmálanum og hafi því skuldbundið sig til að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þá sé það stefna sveitarstjórnar samkvæmt aðalskipulaginu að atvinnustarfsemi taki mið af umhverfisvænum sjónarmiðum. Ljóst sé að það þurfi mikið og samhent átak til áætlanir um kolefnisbindingu og úrdrætti á losun nái fram að ganga. Með banni við lausagöngu sauðfjár muni sveitarfélagið stíga ákveðið skref í átt að kolefnisjöfnun búgreinarinnar ásamt því að styðja vel við sín eigin markmið sem fram komi í aðalskipulaginu.

Atvik málsins lágu ljós fyrir og var því ekki leitað eftir gögnum eða sjónarmiðum sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hið kærða aðalskipulag staðfest af Skipulagsstofnun 24. október 2018 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.