Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2021 Foss í Grímsnesi

Árið 2021, föstudaginn 30. apríl fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2021, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar umhverfis- og tækni­sviðs Uppsveita bs. frá 9. desember 2020 sem samþykkt var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 16. s.m. um að samþykkja erindi kærenda um skiptingu jarðarinnar Foss með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi jarða þar sem það eigi við.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. janúar 2021, er barst nefndinni 2. febrúar s.á., kæra eigendur jarðarinnar Foss í Grímsnesi þá ákvörðun skipulags­nefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 9. desember 2020, sem samþykkt var í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 16. s.m., að samþykkja erindi kærenda um skiptingu jarðarinnar Foss með fyrirvara um samþykki eigenda aðliggjandi jarða þar sem það eigi við. Gera kærendur þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig að fyrirvarar um samþykki eigenda aðliggjandi jarða verði felldir úr ákvörðunum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 4. febrúar 2021.

Málavextir: Með umsókn, dags. 30. nóvember 2020, sóttu kærendur, sem eru eigendur jarðarinnar Foss, um skiptingu jarðarinnar í þrjá hluta. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs., 9. desember s.á., en umhverfis- og tæknisvið Uppsveita er byggðasamlag sveitarfélaganna Grímsnes- og Grafningshrepps, Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps og Ásahrepps og hefur það hlutverk að annast lögbundin verkefni byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Skipulagsnefnd gerði ekki athugasemd við skiptingu jarðarinnar og mæltist til að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti umsóknina með fyrirvara um að samþykki eigenda aðliggjandi jarða lægi fyrir þar sem það eigi við. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps tók erindið fyrir á fundi 16. desember s.á. og samþykkti umsóknina með sama fyrirvara og skipulagsnefnd. Kærendum var tilkynnt um afgreiðslu umsóknarinnar með bréfi dags. 4. janúar 2021.

Málsrök kærenda: Bent er á að fjórar jarðir eigi land að Fossi, þ.e. Stóra-Borg, Hallkelshólar, Klausturhólar og Hraunkot. Kærendur hafi nú þegar gert sérstakt samkomulag við eigendur allra þessara jarða um landamerki þeirra gagnvart Fossi. Þegar af þeirri ástæðu hafi orðalag hins kærða fyrirvara verið kærendum framandi, sérstaklega að samkomulag þurfi að liggja fyrir „þar sem við eigi“. Að minnsta kosti einn viðsemjenda kærenda, eigandi Hallkelshóla, hafi notið lögfræðiaðstoðar við samningsgerð, líkt og vottun á samkomulagi beri með sér. Samkomulag við eigendur allra aðliggjandi jarða liggi fyrir. Þegar af þeirri ástæðu beri að taka kröfu kærenda til greina.

Til að gefa nánari mynd af samningum þessum þyki kærendum rétt að víkja nokkrum orðum að hverjum þeirra. Sá fyrsti hafi verið gerður í maí 2004 við eigendur Stóru-Borgar. Sá samningur hafi verið gerður að frumkvæði eigenda nefndrar jarðar en hinir þrír að frumkvæði kærenda. Formið hafi verið nokkuð annað en samningurinn hafi einnig náð til grannjarða Stóru-Borgar um merki jarða norðan og austan Biskupstungnabrautar. Áritun eigenda Foss feli í sér samkomulag um merki jarðanna tveggja um miðjan farveg Höskuldslækjar frá brú yfir lækinn á Biskupstungnabraut að mörkum Hraunkots í suðri. Um þetta vísist til meðfylgjandi loftmyndar af landi Stóru-Borgar og Foss og áritun samningsaðila. Um þetta hafi ætlið ríkt fullkomin sátt milli eigenda Foss og Stóru-Borgar.

Næst hafi kærendur gert samning vegna landamerkja 22. júní 2008. Þá hafi verið samið við eiganda Hallkelshóla um landamerki þeirrar jarðar og Foss. Þar með hafi verið leiddur til lykta ágreiningur, sem hafi átt rætur að rekja til 12. maí 1942 þegar Hólakot, eftir það Hallkelshólar, hafi verið selt og orðið samtímis sjálfstæð jörð með nýju nafni. Um leið hafi verið dregin landamerkjalína milli jarðanna sem liggi þar sem stutt sé á milli bæjarhúsa Klausturhóla og Hallkelshóla. Landamerkjalínan skyldi ná til suðurs að landamerkjum Foss. Fyrir mistök hafi markalínan ekki verið dregin frá norðri til suðurs að landamerkjum Foss heldur frá örnefninu Klofsteinum sem sé nokkuð innan landamerkja Foss til norðurs milli bæjarhúsa á Klaustur­hólum og Hallkelshólum. Eignarréttur þeirra jarða skyldi miðast við þá línu allt frá Klofsteinum en með þessu hafi landspildur verið fluttar frá Fossi til áðurnefndra jarða. Ekki hafi verið í ljós leitt að nokkurt samráð hafi verið haft við þáverandi eiganda Foss, hvað þá samþykki hans fengið. Nýr eigandi Foss, frá 1959, hafi leitað eftir samkomulagi við eiganda Hallkelshóla um leiðréttingu á þessum mistökum og börn hans eftir lát hans árið 1973. Viðræður hafi átt sér stað en verið stopular og málinu hafi ekki verið lokið fyrr en árið 2008. Þar séu tekin af öll tvímæli um það að á norður- og vesturmörkum, þar sem lönd Foss og Hallkelshóla komi saman, liggi mörkin í þeirri sjónhendingarlínu milli Arnarhreysis í vestri og Markakeldu í austri, sem samið hafi verið um með landamerkjabréfum fyrir Foss og Klausturhóla árin 1885 og 1890. Í niðurlagi samningsins frá 2008 sé einnig getið um fyrirvara eiganda Hallkelshóla.

Þriðji samningur kærenda við nágranna sé dagsettur 15. nóvember 2010 við Grímsnes- og Grafningshrepp. Hann beri fyrirsögnina „YFIRLÝSING um landamerki Foss og Klausturhóla í Grímsnesi“. Þar sé í upphafi getið áðurnefndra landamerkjabréfa frá 1885 og 1890 fyrir Foss og Klausturhóla en síðan sagt að bæði bréfin séu samþykkt af eigendum aðliggjandi jarða og þinglesin. Eignarréttur að þeim hluta Klausturhóla, sem liggi að Fossi og sé sunnan Biskupstungnabrautar og vestan Hallkelshóla, tilheyri nú Grímsnes- og Grafningshreppi. Aðilarnir lýsi því síðan yfir að þeir séu sammála um að í bréfunum felist að merki mill nefndra jarða mótist af línu sem hugsist dregin frá örnefninu Arnarhreysi í vestri til austurs í sjón­hendingu í Markakeldu á eystri bakka Höskuldslækjar. Vestasti hluti þessarar línu sé samkvæmt því milli Foss og Klausturhóla en framhald sömu línu til austurs að þjóðvegi sé milli Foss og Hallkelshóla samkvæmt yfirlýsingu eigenda þeirra jarða frá 22. júní 2008.

Fjórði og síðasti samningurinn sem kærendur hafi gert við nágranna sé við Sjómannadagsráð sem eiganda Hraunkots í Grímsnesi. Samningurinn sé dagsettur 3. september 2013. Hann mæli fyrir um nákvæmari legu landamerkja milli Foss og Hraunkots en áður hefði verið gert. Þá sé þar einnig fjallað um girðingu á mörkum jarðarinnar Arnarhreysis í vestri og Kiðjabergsvegar í suðaustri. Meðal annars komi fram að hún fylgi ekki nákvæmlega beinni línu sem landamerkin ráðist af og hvernig við því skuli brugðist. Þá hafi verið kveðið á um viðhald girðingarinnar.

Framangreindum athugasemdum sé ætlað að undirstrika að af hálfu kærenda hafi verið kappkostað að forðast misklíð við nágranna og semja þess í stað um ágreiningsefni sem tengist landamörkum. Að gera samning kærenda við þessar aðstæður háðan samþykki „þar sem það á við“ sé í senn illskiljanlegt og óeðlilegt.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að niðurstaða þess sé ekki kærð heldur orðalag bókunar um að erindi sé samþykkt með fyrirvara um að samþykki eigenda aðliggjandi jarða liggi fyrir þar sem við eigi. Engin kvöð felist í bókun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar vegna málsins eins og ítrekað komi fram í kæru. Í bókuninni felist sá fyrirvari að, ef við nánari yfirferð framlagðra gagna komi fram að óska þurfi samþykkis eigenda aðliggjandi jarða fyrir sameiginlegum landamerkjum, þá verði slíkt gert. Í fyrir­varanum felist ef því engin kvöð um að það skuli gert gögn og upplýsingar reynist fullnægjandi. Við yfirferð gagnanna af hálfu starfsmanna umhverfis- og tæknisviðs hafi komið upp vafi um hvort öll hnitsett mörk hefðu sannarlega verið samþykkt af eigendum aðliggjandi jarða. Það liggi fyrir að mörk samkvæmt lýsingu hafi verið samþykkt af öllum hlutaðeigandi eins og fram komi í samantekt kærenda. Við fyrirtöku málsins hafi ekki legið fyrir, og geri ekki enn, hvort allir hlutaðeigandi hefðu samþykkt hnitsetta afmörkun landamerkja og hvort hnitsetning væri í takt við lýsingu. Það sé því ekki óeðlilegt af hálfu sveitarfélagsins að setja fyrirvara um að hugsanlega þurfi að leita samþykkis eigenda aðliggjandi jarða ef vafi sé um sameiginlegt samþykki hlutaðeigandi fyrir hnitsetningu jarðamarka enda sé nákvæmni hnitsetningar landamerkja nokkuð meiri en lýsingar.

Einnig sé bent á að úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fallast á kröfugerð kærenda eins og hún sé sett fram í kæru.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Er það því sveitarstjórn sem samþykkir skiptingu lands eða lóða, eftir atvikum að undangenginni málsmeðferð skipulagsnefndar sem getur sent tillögu sína um lyktir máls til sveitarstjórnar. Er það því samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 16. desember 2020 sem er hin kæranlega ákvörðun í máli þessu en bókun skipulagsnefndar frá 9. desember s.á er hluti af undirbúningi þeirrar ákvörðunar. Deilt er um um lögmæti þess fyrirvara í ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um skipt­ingu jarðarinnar Foss að samþykki eigenda aðliggjandi jarða liggi fyrir þar sem það eigi við.

Það er ekki á valdi sveitarstjórna að leysa með bindandi hætti úr ágreiningi um land- eða lóðamörk og geta ákvarðanir þeirra um slíka skiptingu ekki hróflað við eignaréttindum manna eða lögpersóna. Ef fyrir hendi er ágreiningur um bein eða óbein eignaréttindi að landi verður sá ágreiningur eftir atvikum til lykta leiddur fyrir dómstólum. Í máli þessu liggur ekki fyrir að ágreiningur sé uppi milli kæranda og eigenda aðliggjandi jarða um landamörk. Hafa samningar kæranda og eigenda aðliggjandi jarða sem hann skírskotar til í málsrökum sínum verið þinglýstir.

Umdeildur áskilnaður í bókun hinnar kærðu ákvörðunar er lýtur að samþykki eigenda aðliggjandi jarða felur í sér að þeim er veitt úrslitavald um það hvort að skipting jarðarinnar sem samþykkt var með hinni kærðu ákvörðun nái fram að ganga. Á það skilyrði sér ekki lagastoð og ekki liggur fyrir að efnisleg rök búi að baki því.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að fallast á kröfu kærenda að nefndur áskilnaður verði felldur úr gildi.

Úrskurðarorð:

Það skilyrði sem sett er í hinni kærðu ákvörðun að „samþykki aðliggjandi landeigenda liggi fyrir þar sem það á við“ er fellt úr gildi.