Árið 2014, mánudaginn 30. júní kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 13/2012, kæra á ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um álagningu fráveitugjalds á flugskýli, fastanúmer 202-9664, á Reykjavíkurflugvelli.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. febrúar 2012, er barst nefndinni 29. s.m., kærir Flugvélaverkstæðið ehf., þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að leggja fráveitugjald á flugskýli, fastanúmer 202-9664, á Reykjavíkurflugvelli.
Kærandi gerir þá kröfu að álagning fráveitugjalds verði felld niður og að honum verði endurgreitt það gjald sem hann hafi greitt á undanförnum árum.
Gögn málsins bárust frá Orkuveitu Reykjavíkur 11. september 2012 og viðbótargögn 6. og 10. júlí 2013.
Málsatvik: Með bréfi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2012, var kæranda tilkynnt um álagningu vatns- og fráveitugjalda 2012 vegna nefnds flugskýlis að fjárhæð 96.421 króna. Sama dag seldi kærandi flugskýlið samkvæmt kaupsamningi þar um og var eignin afhent 30. s.m.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að umrætt flugskýli sé tengt rotþró sem sé í eigu kæranda og sjái hann alfarið um rotþróna. Muni aldrei koma til þess að skýlið verði tengt heimæðum í eigu Orkuveitunnar. Þá sé bent á að í skýlinu sé aðeins salerni og handlaug.
Málsrök Orkuveitu Reykjavíkur: Orkuveita Reykjavíkur telur að synja beri kröfu kæranda. Sé skírskotað til þess að fráveitulögn liggi við nefnt flugskýli. Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitu, skuli það sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt sé samkvæmt tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.
Kveðið sé á um í 14. gr. sömu laga að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Sé eigendum húseigna þar sem fráveita liggi skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna, en skv. 1. mgr. 11. gr. sömu laga eigi eigandi eða rétthafi lóðar við götu, gönguleið eða opið svæði þar sem fráveitulögn liggi rétt á að fá tengingu við fráveitukerfi.
Telja verði að þar sem fráveitukerfi sé fyrir hendi og eigi síðar en þegar lóð hafi verið tengd og lóðarhafi/fasteignareigandi eigi rétt á að tengjast kerfinu, sé heimilt að innheimta fráveitugjald, burtséð frá því hvort viðkomandi lóðarhafi/fasteignareigandi hafi tengst fráveitukerfi eða ekki. Sé bent á að skv. 2. mgr. 15. gr. nefndra laga skuli við ákvörðun gjaldskrár miða við að fráveitugjald, ásamt öðrum tekjum fráveitu, standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fleiru. Sé fráveitugjaldi því ætlað að standa undir hlutdeild í heildarkostnaði af uppbyggingu og rekstri fráveitu á viðkomandi svæði. Geti einstakir fasteignaeigendur ekki komist hjá þátttöku í þeim kostnaði með því að tengjast ekki fráveitu, heldur beri þeim að greiða álögð fráveitugjöld, sérstaklega þar sem einkaréttur sé til staðar skv. 2. mgr., sbr. 9. mgr., 4. gr. laga nr. 9/2009.
Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa lýtur að álagningu fráveitugjalds vegna flugskýlis. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Skal skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu 29. febrúar 2012 og var því kærufrestur vegna álagningar fráveitugjalds fyrri ára liðinn þegar kæra barst nefndinni. Afsakanlegt verður að telja að kæra í máli þessu vegna álagningar fráveitugjalds ársins 2012 hafi borist að liðnum kærufresti og er þá til þess að líta að kæranda var ekki gerð grein fyrir kæruheimildum og kærufrestum við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar. Verður málið því tekið til efnismeðferðar vegna álagningar fráveitugjalds ársins 2012, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Heimilt er samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Í athugasemdum við frumvarp til téðra laga kemur fram að lagt sé til í 1. mgr. 14. gr. laganna að heimilt verði að innheimta fráveitugjald af öllum húseignum sem tengist fráveitu sveitarfélags eða geti tengst því en að ekki sé gert ráð fyrir að hús, þar sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli sé frá, greiði fráveitugjald. Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarpið kom fram að ábending hefði borist um að orðalag 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins væri of víðtækt. Var tekið undir þau sjónarmið og lögð til sú orðalagsbreyting að heimildin næði til fasteigna sem væru tengdar eða myndu tengjast fráveitu og var ákvæðið í núverandi mynd svo samþykkt.
Með vísan til orðalags greinds ákvæðis, og til þeirra breytinga sem gerðar voru á frumvarpsdrögum og miðuðu að því að þrengja þær heimildir sem væru til gjaldtöku, verður að líta svo á að heimild til álagningar fráveitugjalds sé bundin því skilyrði að fasteign sé tengd eða að verulegar líkur séu fyrir því að hún muni tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags. Óumdeilt er að umrædd eign er einungis tengd við rotþró en ekki fráveitukerfi sveitarfélagsins. Hefur hvorki verið sýnt fram á að rennsli frá eigninni vegna t.d. ofanvatns sé veitt í fráveituna né að verulegar líkur séu á að hún muni tengjast henni. Þá liggur fyrir að gert var ráð fyrir því í þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 að umrætt flugskýli stæði ekki lengur en til ársins 2016 og myndi þá víkja fyrir annarri byggð, en samkvæmt núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 mun svo verða í síðasta lagi á árinu 2022. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að fallast verði á kröfu kæranda um að felld verði úr gildi álagning fráveitugjalds ársins 2012 á flugskýli á Reykjavíkurflugvelli með fastanúmer 202-9664.
Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi álagning fráveitugjalds ársins 2012 vegna flugskýlis á Reykjavíkurflugvelli, fastanúmer 202-9664, að fjárhæð 96.421 króna samkvæmt álagningarseðli, dags. 16. janúar 2012.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson