Ár 2011, þriðjudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.
Fyrir var tekið mál nr. 13/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um að breyta skilmálum svæðis C í deiliskipulagi Húsahverfis í Grafarvogi, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. A og H, Suðurhúsum 2, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 að breyta skilmálum svæðis C í deiliskipulagi Húsahverfis í Grafarvogi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.
Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. janúar 2009 var lögð fram tillaga skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur, dags. 6. janúar 2009, að breytingu á skilmálum deiliskipulags sem nefnt er Húsahverfi Grafarvogur III svæði C. Með breytingunni, sem tók til húsagerðar E8 og útbygginga, var heimilað byggingarmagn hækkað og skilmálum fyrir útbyggingum breytt. Var tillögunni vísað til skipulagsráðs sem ákvað á fundi hinn 14. janúar 2009 að auglýsa hana og var þeirri afgreiðslu vísað til borgarráðs.
Að lokinni auglýsingu var tillögunni breytt og hún síðan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs 12. ágúst 2009. Tók tillagan nú til húsagerða E8 og E9. Nokkrar athugasemdir bárust á kynningartíma hinnar auglýstu tillögu, m.a. frá kærendum. Samþykkti ráðið að auglýsa hina breyttu tillögu og kynna hana jafnframt fyrir hagsmunaaðilum á skipulagssvæðinu. Að loknum kynningartíma tillögunnar var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 4. nóvember 2009. Fyrir fundinum lágu fram komnar athugasemdir við tillöguna og jafnframt umsögn skipulagsstjóra, dags. 14. október 2009. Var tillagan samþykkt með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsstjóra og málinu vísað til borgarráðs, sem staðfesti þá afgreiðslu hinn 12. nóvember sama ár. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. febrúar 2010 að undangenginni umfjöllum Skipulags-stofnunar.
Kærendur skutu hinni samþykktu deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting fari gegn lögum með margvíslegum hætti og raski verulega hagsmunum þeirra.
Deiliskipulagstillagan hafi komið fram í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands frá 6. nóvember 2008, í máli nr. 32/2008, sem kærendur hafi höfðað á hendur Reykjavíkurborg og byggingarleyfishafa fyrir viðbyggingu að Suðurhúsum 4, Reykjavík. Í þeim dómi hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefði brotið gegn gildandi skilmálum deiliskipulags á umræddu svæði með veitingu byggingaleyfis fyrir fyrrnefndri viðbyggingu að Suðurhúsum 4. Í dóminum hafi byggingarleyfishafa verið gert að fjarlægja viðbygginguna. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé verið að veita heimild fyrir viðbyggingunni. Sé með ólíkindum að borgin skuli samþykkja skipulagsbreytinguna svo skömmu eftir dóminn, að því er virðist í þeim tilgangi að friða þann sem þurft hafi að sæta niðurrifi á viðbyggingu sinni og bjarga skinni embættismanna sem brotið hafi lög. Sæti þessi stjórnsýsla furðu og virðist sem menn geti pantað breytingar á deiliskipulagi að vild og fengið þær samþykktar án þess að nokkur rök standi til slíkra breytinga. Kærendur hafi krafið borgaryfirvöld um ítarlegar upplýsingar um tilurð skipulagstillögunnar, frá hverjum hún stafaði og hver væru tengsl hennar við áðurnefndan dóm Hæstaréttar. Þær upplýsingar hafi aldrei borist kærendum. Hins vegar komi fram í minnisblaði lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar til skipulagsráðs, dags. 21. mars 2009, að tilefni breytingarinnar hafi verið dómurinn í máli kærenda. Sé það rétt sé verið að fórna hagsmunum kærenda til að bjarga embættismönnum sem brotið hafi lög. Slíkt sé vítavert og fari í bága við allar almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Feli framangreint framferði borgaryfirvalda í sér valdníðslu að mati kærenda.
Þá fari deiliskipulagsbreytingin í bága við 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt því ákvæði hafi borginni borið að fjarlægja hluta þeirra bygginga sem fari í bága við gildandi skipulag áður en því hafi verið breytt, en óumdeilt sé a.m.k. nýtingarhlutfall fjölda lóða á skipulagssvæðinu fari fram úr heimildum gildandi skipulags. Það hafi borgin ekki gert og sé samþykkt skipulagstillögunnar því ólögmæt samkvæmt fyrrnefndu ákvæði. Breyti hér engu hvort umræddar byggingar, eða breytingar á byggingum, viðbætur o.fl., hafi verið reistar fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 73/1997. Athygli veki að Reykjavíkurborg geri engan reka að því að gera grein fyrir með hvaða hætti byggingar eða viðbyggingar á svæðinu fari í bága við gildandi deiliskipulag, hverjar af þeim hafi verið byggðar fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 og hverjar eftir, eins og þó hafi verið lagt upp með af hálfu Skipulagsstofnunar að gert yrði. Aðeins liggi fyrir loðin athugasemd um að samkvæmt athugun borgarinnar hafi komið í ljós að umrætt hverfi hafi byggst upp að mestu leyti fyrir gildistöku umræddra laga en minniháttar breytingar hafi átt sér stað á liðnum árum. Sterklega sé gefið í skyn að þarna hafi verið byggt eftir gildistöku laga nr. 73/1997, í bága við skipulag. Skipulagsstofnun árétti athugasemd sína sem að þessu lúti í lokabréfi sínu til borgarinnar, dags. 21. janúar 2010, þar sem segi: „Í ljósi ofangreindra svara þá gerir stofnunin ekki frekari athugasemdir við að birt verði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda, en áréttar þó ábendingu sína varðandi 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.“
Deiliskipulagsbreytingin fari jafnframt í bága við 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í 1. mgr. 26. gr. laganna sé mælt fyrir um að með breytingu á deiliskipulagi skuli fara eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða. Af því leiði að fylgja hafi átt öllum sömu form- og efnisreglum við meðferð tillögu um breytingu á deiliskipulagi, eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða. Hér verði að líta til 4. mgr. 23. gr. nefndra laga, þar sem fram komi að deiliskipulag skuli m.a. setja fram á uppdrætti. Fyrir liggi að hin kærða deiliskipulagsbreyting feli aðeins í sér að texta í skilmálum sé breytt með tilteknum hætti. Hins vegar fylgi enginn uppdráttur deiliskipulaginu. Sé t.d. með öllu óljóst um nánari útfærslur þess, svo sem með hvaða hætti stækka megi húsin og bæta við aukaíbúðum og með hvaða hætti stækkun verði. Þá sé eins og ekkert samræmi eigi að vera í húsagerðum. Þar sem enginn uppdráttur fylgi deiliskipulaginu standist það ekki 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Ljóst sé að deiliskipulagsbreytingin raski hagsmunum kærenda verulega. Kærendur hafi á sínum tíma byggt eign sína að Suðurhúsum 2 á grundvelli tiltekins deiliskipulags og bundið væntingar um að skipulagið myndi standa með hliðsjón af markmiðum skipulags- og byggingarlaga sem fram komi í 1. gr. laganna. Þar komi fram að réttur einstaklinga og lögaðila skuli ekki fyrir borð borinn við framkvæmd laganna þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. janúar 2010, segi m.a. að hér sé um að ræða verulega breytingu eða endurskoðun á skilmálum gildandi deiliskipulags frá árinu 1987. Breytingin hafi m.a. þær afleiðingar í för með sér að nágrannar kærenda geti farið að reisa viðbyggingar við og ofan á hús sín, sem þar með hækki með tilheyrandi útsýnisskerðingu og lækkuðu markaðsvirði eignar kærenda. Heimilaðar viðbyggingar geti og haft í för með sér að frá næstu húsum sjáist vel inn í hús kærenda og garð ásamt ónæði frá svölum og aðrar ófyrirséðar afleiðingar. Enginn uppdráttur fylgi deiliskipulaginu og ekkert komi fram um hvernig hús megi líta út eftir stækkun þeirra frá því sem nú sé. Engin rök hafi staðið að baki umdeildri skipulagsbreytingu sem sé tilviljanakennd, illa ígrunduð geðþóttaákvörðun.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.
Meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga og því sé vísað á bug að í henni felist valdníðsla í garð kærenda. Um hafi verið að ræða heildarendurskoðun á því deiliskipulagi sem gilti fyrir hverfið. Sveitarfélögum sé bæði rétt og skylt að endurskoða deiliskipulagsáætlanir, svo sem í ljósi þróunar byggðar, þarfa íbúa og nýrra viðhorfa. Hin auglýsta tillaga hafi aðeins gert ráð fyrir að heimildir til hámarks byggingarmagns húsagerða E8 og E9 yrðu auknar um 50 fermetra auk þess sem orðalagi heimildaákvæða til útbygginga hafi verið breytt. Ákvæði varðandi húsagerð, byggingarreiti og húshæðir séu óbreytt.
Tilefni endurskoðunar skipulagsskilmála á umræddu svæði hafi m.a. verið það að nokkuð hafi verið um óskir um breytingar á deiliskipulagi vegna einstakra lóða á svæðinu. Meðferð umsóknar um byggingarleyfi að Suðurhúsum 4, sem fellt hafi verið úr gildi með áðurgreindum Hæstaréttardómi, hafi jafnframt gefið tilefni til að yfirfara heimildir með hliðsjón af uppbyggingu hverfisins í tíð gildandi deiliskipulags. Algengt hafi verið að vikið væri frá þeim deiliskipulagsáætlunum sem samþykktar hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 73/1997. Við hina kærðu ákvörðun hafi hliðsjón verið höfð af leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um þörf á endurskoðun skipulagsskilmála, svo sem vegna aldurs deiliskipulags, óskýrleika þess eða þess að framkvæmt hafi verið í verulegu ósamræmi við skipulagið. Að sama skapi hafi það verið mat skipulagsstjóra að nauðsynlegt væri að endurskoða skilmálana í heild sinni eftir að athugun hefði leitt í ljós að heimilt byggingarmagn væri lægra en væntingar og þarfir eigenda viðkomandi húsa stæðu til. Við athugun embættisins á þeirri skipulagslegu heild, sem samanstandi af húsagerðum E8 og E9 á 33 lóðum, hafi komið í ljós samkvæmt fasteignaskrá að byggingarmagn á 15 lóðum, eða á 45% þessara lóða, hafi verið umfram heimildir í gildandi skilmálum og að deiliskipulagi hafi þegar verið breytt vegna tveggja lóða. Í ljósi þessa, ákvæða skipulags- og byggingarlaga og jafnræðissjónarmiða hafi þótt nauðsynlegt að endurskoða skipulag svæðisins í heild í stað þess að huga að einstökum lóðum. Hafa verði og í huga að þarfir og viðmið húseigenda breytist í tímans rás og eðlilegt sé að slík þróun kalli á skipulagsbreytingar, enda gert ráð fyrir því í lögum. Í umræddu tilviki hafi niðurstaðan orðið sú að leggja til aukningu á hámarks byggingarmagni á svæðinu.
Þótt fyrir liggi að í ýmsum tilfellum hafi ekki verið farið að skipulagsskilmálum um hámarks nýtingarhlutfall verði að telja ómögulegt að krefjast þess nú að viðkomandi hús, sem byggð hafi verið fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga, verði minnkuð. Hvorki verði af ákvæðum skipulags- og byggingarlaga né lögskýringar-gögnum ráðið að ætlunin hafi verið að 4. mgr. 56. gr. yrði beitt með afturvirkum hætti. Þá verði ákvæðið ekki túlkað á þann veg að fortakslaus skylda hvíli á skipulagsyfirvöldum að fjarlægja öll mannvirki á skipulagssvæði sem reist hafi verið í skjóli byggingarleyfis en kunni að fara í bága við skipulag. Kærufrestur vegna þeirra leyfa sé löngu liðinn. Títtnefndri 56. gr. hafi fyrst og fremst verið ætlað að taka til leyfislausra framkvæmda og um sé að ræða undantekningarreglu sem skýra verði þröngt. Við túlkun umrædds ákvæðis verði auk þess að líta til sjónarmiða svo sem um eyðileggingu verðmæta og takmörkun á tjóni sem telja verði afar íþyngjandi.
Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið farið yfir núverandi ástand á svæðinu og samþykktar breytingar sem hafi verið gerðar á lóðum. Ef ekki hafi verið byggt á svæðinu í samræmi við deiliskipulag geri lög og reglugerðir beinlínis ráð fyrir að skipulagsáætlanir séu endurskoðaðar. Við þá skoðun hafi komið í ljós að töluverður fjöldi húsa hefðu verið stækkuð eða byggð stærri en upphaflegt skipulag hafi gert ráð fyrir.
Í bréfi Skipulagsstofnunar frá 8. desember 2009 til borgarinnar sé bent á að ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga geti átt við þegar byggt hafi verið í ósamræmi við gildandi deiliskipulag hafi það verið gert eftir gildisstöku laga nr. 73/1997. Reykjavíkurborg bendi á að stofnunin sé þarna að vekja athygli á þeim möguleika að ef til vill eigi 4. mgr. 56. gr. við í umdeildu tilviki. Í því sambandi sé það ítrekað að ekki sé skylt að fjarlægja mannvirki á lóðum á svæðinu áður en að gerð verði breyting á skilmálum deiliskipulagsins. Ekki sé unnt að túlka ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með þeim hætti sem kærendur geri í málinu.
Hin kynnta tillaga hafi aðeins falið í sér breytingu á skilmálum deiliskipulags um hámarks byggingarmagn á lóðum tiltekins svæðis. Samkvæmt venju hafi breytingin því verið sett fram sem textaskjal þar sem fram hafi komið gildandi skilmálar í þessu efni og tillaga um breytingar á þeim. Skipulagstillagan hafi verið vel sett fram og skýrt komi fram í hverju breytingin hafi verið fólgin. Skipulagstillagan hafi því að þessu leyti verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting, sem taki til alls umrædds skipulagssvæðis, miði að því að gæta hagsmuna allra lóðarhafa. Verið sé að auka þróunarmöguleika á öllum lóðum með því að sömu skilmálar gildi á þeim öllum í stað þess að breytingar eigi sér stað á einstökum lóðum. Með vísan, til þess og þegar höfð sé hliðsjón af útgefnum leiðbeiningum Skipulagsstofnunar um endurskoðun eldri skilmála, telji skipulags-yfirvöld borgarinnar að verið sé að vinna í anda markmiða skipulags- og byggingarlaga. Skipulagsbreytingin varði einungis tvo þætti, þ.e. byggingarmagn og útbyggingar, en aðrir skilmálar skipulagsins, svo sem um húsagerð, hæð húsa og byggingarreiti, séu óbreyttir. Að öðru leyti megi hér vísa til þess sem fyrr sé rakið um þróun skipulags í ljósi breyttra viðmiða og þarfa. Verði almennt að gera ráð fyrir að deiliskipulag, sem komið sé til ára sinna, geti sætt endurskoðun og sé ekki fallist á að hin kærða skipulagsbreyting raski hagsmunum kærenda með þeim hætt að leiða eigi til ógildingar hennar.
Andmæli lóðarhafa Suðurhúsa 4: Lóðarhafi bendir á að hann hyggist reisa viðbyggingu við hús sitt á nefndri lóð á grundvelli hins breytta deiliskipulags. Hafa verði í huga að á um 44% lóða, sem hin kærða skipulagsbreyting taki til, sé byggingarmagn umfram það sem upphaflega hafi verið heimilað í deiliskipulagi svæðisins. Breytingin komi því fjölda lóðarhafa til góða þar sem þeir eigi þá ekki yfir höfði sér niðurrif húsa sinna, líkt og átt hafi sér stað að Suðurhúsum 4.
Niðurstaða: Hin kærðu ákvörðun fól í sér breytingu á deiliskipulagsskilmálum fyrir Húsahverfi Grafarvogi III, svæði C, sem að stofni til voru samþykktir í borgarráði á árinu 1987 en breytt á árinu 1991. Samkvæmt upplýsingum í fasteignaskrá Þjóðskrár voru húsin við Suðurhús, þar sem kærendur búa, reist á árunum 1989-1992. Í breytingunni fólst að heimilað flatarmál einbýlishúsa af gerðinni E8 og E9 var aukið um 50 fermetra. Þá var ekki lengur gerð krafa um að allt að 10 fermetra útbyggingar, sem máttu ná út fyrir byggingarreit þar sem aðstæður leyfðu, þyrftu að vera léttar byggingar úr gleri. Breytingin snertir lóðir við göturnar Suður- og Vesturhús. Telja kærendur ákvörðunina haldna form- og efnisannmörkum.
Með hina umdeildu skipulagsbreytingu var farið samkvæmt þágildandi 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Tillagan var auglýst til kynningar lögum samkvæmt og fram komnum athugasemdum svarað við afgreiðslu hennar. Eingöngu var um að ræða breytingu á tilteknum ákvæðum skilmála í greinargerð gildandi deiliskipulags en efnisinnihald deiliskipulagsuppdráttar var óbreytt. Þótt í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið kveðið á um að fara skyldi með breytingar á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag væri að ræða, bar ekki nauðsyn til að kynna sérstaklega nýjan skipulagsuppdrátt af svæðinu við meðferð umdeildrar skipulagstillögu. Ákvæðið laut að málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga, en eðli máls samkvæmt ræðst það af efni breytingar hverju sinni með hvaða hætti hún er sett fram. Allt að einu er gildandi deiliskipulag umrædds svæðis sett fram í greinargerð og á uppdrætti í samræmi við 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Kærendur bera fyrir sig að hin kærða ákvörðun hafi farið gegn 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þar hafi verið lagt bann við því að breyta skipulagi, þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag, fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti hefði verið fjarlægður, en fyrir liggi að fjöldi húsa á skipulagssvæðinu hafi farið í bága við gildandi deiliskipulag. Fyrir liggur að húsin á umræddum skipulagsreit voru byggð mörgum árum fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verður ekki fallist á að umræddu ákvæði, sem telja verður afar íþyngjandi, verði beitt með afturvirkum hætti vegna bygginga sem reistar höfðu verið fyrir gildistöku laganna og kunna að fara í bága við skipulag. Þá verður og að gera þá kröfu, áður en til álita kemur að fjarlægja byggingu eða byggingarhluta á grundvelli ákvæðisins, að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum hafi með formlegum hætti verið metið andstætt skipulagi eða það afturkallað af þar til bærum aðilum. Verður samkvæmt þessu ekki talið að fjarlægja hafi þurft byggingarhluta þeirra húsa á skipulagsvæðinu sem fara út fyrir mörk heimilaðs fermetrafjölda samkvæmt skipulagi svæðisins áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er sú niðurstaða jafnframt í samræmi við breytt lagaviðhorf, en í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010 er ekki að finna samsvarandi ákvæði og í nefndri 4. mgr. 56. gr.
Þá byggja kærendur á því að skipulagsbreytingin feli í sér valdníðslu auk þess sem hún sé órökstudd, fari gegn markmiðum skipulags- og byggingarlaga um réttaröryggi borgaranna og raski hagsmunum kærenda sem fasteignareigenda á svæðinu.
Við gerð deiliskipulags er m.a. tekin ákvörðun um tilhögun byggðar, húsagerðir og nýtingu lóða. Er deiliskipulag sem tekið hefur gildi bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi, sem mótað hefur byggð á skipulagssvæðinu, nema lögmætar ástæður búi þar að baki.
Almannahagsmunir, þróun byggðar, skipulagsrök eða önnur málefnaleg sjónarmið geta knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi, einkum þegar skipulag er komið til ára sinna, og var í lögum nr. 73/1997 gert ráð fyrir slíkum breytingum. Breytingar á deiliskipulagi þegar byggðra hverfa geta haft og hafa oft áhrif á grenndarhagsmuni íbúa og er einstaklingum tryggður bótaréttur í 33. gr. nefndra laga, valdi skipulagsákvörðun þeim fjártjóni.
Í máli þessu er um að ræða breytingu á rúmlega 20 ára gömlu deiliskipulagi og hafa skipulagsyfirvöld vísað til þess að með hinni umdeildu breytingu hafi m.a. verið leitast við að koma til móts við breyttar kröfur og þarfir íbúa til nýtingar fasteigna á svæðinu. Fyrir liggur að breytingin var gerð í ljósi þeirrar staðreyndar að við framkvæmd upphafslegs skipulags hafði ákvæði um hámarksflatarmál húsa ekki verið virt, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var veitt leyfi fyrir byggingu fjölda húsa af gerðinni E8 og E9 sem svo var ástatt um. Þá hafði fallið dómur í Hæstarétti í máli sem snerist um lögmæti byggingarleyfis fyrir viðbyggingu húss á umræddu svæði. Í því máli var byggingarleyfishafa gert að fjarlægja viðbygginguna í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, þar sem með veitingu byggingarleyfisins hefði verið brotið gegn skilmálum skipulags um fermetrafjölda húsa án þess að skilmálunum hefði verið breytt með lögmæltum hætti. Í dóminum er að öðru leyti ekki tekin afstaða til lögmætis byggingarleyfis fyrir hinni umdeildu viðbyggingu.
Um er að ræða gamalt skipulag sem aldrei hefur ekki verið virt sem skyldi. Breytingin styðst við það sjónarmið sem bjó að baki 11. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 um þörf á endurskoðun skipulags þegar framkvæmt hafði verið í ósamræmi við það. Þá var jafnræðis gætt meðal fasteignaeigenda, þar á meðal gagnvart kærendum, við breytinguna.
Að öllu framangreindu virtu verður að telja umdeilda skipulagsbreytingu studda skipulagslegum rökum og lögmætum sjónarmiðum. Með henni er því ekki farið gegn lagamarkmiði um réttaröryggi einstaklinga sem sett var fram í 1. gr. laga nr. 73/1997. Þá þykja grenndaráhrif breytingarinnar gagnvart kærendum ekki slík að leitt geti til ógildingar hennar þegar litið er til þess að ákvæðum um byggingarreiti og hæðir húsa er ekki breytt. Verður því ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 12. nóvember 2009 um að breyta skilmálum í deiliskipulagi Húsahverfis, svæði C, í Grafarvogi, Reykjavík.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ __________________________
Ásgeir Magnússon Hildigunnur Haraldsdóttir