Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

127/2007 Ánanaust

Ár 2007, föstudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 127/2007, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júní 2007 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum i Reykjavík með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. september 2007, er barst nefndinni hinn 1. október sama ár, kærir S, Vesturgötu 73, Reykjavík, formaður húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, f.h. íbúa og húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. júní 2007 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík, með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu. 

Í málinu liggur ekki fyrir umboð íbúa að Vesturgötu 69-75 til að kæra umdeilda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og verður því litið svo á að aðild málsins sé á hendi fyrrgreinds formanns húsfélags greindrar fasteignar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Reykjavíkurborg hefur tilkynnt að útgáfu framkvæmdaleyfis vegna landfyllingarinnar hafi verið frestað vegna kærumáls þessa og hefur því ekki verið þörf á að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júní 2007 var lagt fram á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs borgarinnar, dags. 10. júní 2007, þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi til að koma fyrir út frá Ánanaustum allt að þriggja hektara landfyllingu með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.  Var afgreiðslu erindisins frestað en það hlaut síðan samþykki ráðsins á fundi hinn 20. júní 2007.  Skaut kærandi þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Bendir kærandi á að fyrirhuguð landfylling sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur, en þar sé gert ráð fyrir heildarskipulagi vegna fyrirhugaðrar landfyllingar á svæðinu þar sem stærð hennar og afmörkun verði endurskoðuð í samráði við íbúa á nærliggjandi svæði.  Jafnframt sé í aðalskipulaginu tekið fram að áður en framkvæmdir hefjist við landfyllinguna muni fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Hvorki hafi verið haft samráð við íbúa svæðisins varðandi umdeilda framkvæmd né hafi farið fram umhverfismat vegna hennar.  Íbúar hafi mátt ætla að ekki yrði ráðist í landfyllingu á umræddu svæði fyrr en eftir árið 2012 í samræmi við gildandi aðalskipulag en ekkert liggi fyrir um landnotkun á fyllingunni.  Fyrirhuguð framkvæmd muni skapa íbúum óþægindi og rýra verðmæti eigna þeirra. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða leyfisveiting verði staðfest.  Skírskotað sé til þess að ástæða fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi vegna landfyllingar við Ánanaust sé sú staðreynd að mikið efni komi upp úr grunni vegna byggingar tónlistarhúss við Geirsgötu og ef litið sé til umhverfisáhrifa verði að telja þetta hagkvæmustu lausnina við að losna við efnið jafnframt því að leyst yrði vandamál vegna ágangs sjávar við Ánanaust.  Efnið sem um ræði sé gömul landfylling sem sjór hafi leikið um í áraraðir, en sjávarfalla hafi gætt langt inn í hana. 

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu við Ánanaust.  Skilgreind landnotkun á fyllingunni sé blönduð byggð og í fyrstu töflu í greinargerð I í skipulaginu segi að þessi uppbygging verði á tímabilinu 2012 til 2024.  Í neðanmálsgrein í sömu töflu segi enn fremur:  „Meginhluti uppbyggingar viðkomandi svæðis fari fram á tilgreindu tímabili. Nauðsynlegur undirbúningur vegna uppbyggingar á einstökum svæðum, s.s. landfyllingar, getur hafist mun fyrr. Gert er ráð fyrir að landfylling fyrir framhaldsskóla við Ánanaust verði gerð fyrir 2012.“  Fyrirhuguð framkvæmd fari því ekki í bága við aðalskipulag.  Heildarskipulag svæðisins verði unnið í samráði við íbúa og umhverfismat framkvæmt áður en til uppbyggingar komi á væntanlegri landfyllingu samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Hin heimilaða þriggja hektara landfylling sé ekki tilkynningarskyld eða matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. 

Um sé að ræða afturkræfa framkvæmd en ekki verði ráðist í frekari landfyllingu á svæðinu eða framkvæmdir fyrr en að uppfylltum skilyrðum aðalskipulags Reykjavíkurborgar varðandi fyrirhugaða 35 hektara landfyllingu á svæðinu.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun heimilar allt að þriggja hektara landfyllingu við Ánanaust á svæði þar sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 gerir ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu.  Ekki eru heimilaðar byggingar á umræddri fyllingu og mun hún vera staðsett þar sem fyrirhugaðar hafa verið framkvæmdir vegna ágangs sjávar. 

Að stjórnsýslurétti er það skilyrði aðildar að kærumáli að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar ákvörðunar eða að kæruaðild sé samkvæmt beinni lagastoð.  Með hliðsjón af aðstæðum og eins og atvikum er háttað þykir umdeild framkvæmd ekki þess eðlis að hún snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild í máli þessu.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson