Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124 og 128/2019 Elliðaárdalur norðan Stekkjarbakka

Árið 2020, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2019, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. desember 2019, kæra 14 eigendur fasteigna við Fremristekk, Hólastekk, Urðarstekk og Skriðu­stekk í Reykjavík þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunar­svæði Þ73. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2019, er barst nefndinni 17. s.m., kæra tveir eigendur fasteignar við Fremristekk í Reykjavík sömu ákvörðun borgarstjórnar og krefjast ógildingar hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 128/2019, sameinað kærumáli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. janúar 2020.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2016 var lögð fram lýsing á deiliskipulagsbreytingu Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73, og hún samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr., sbr. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var ákvörðunin samþykkt á fundi borgarráðs 22. desember s.á. Að lokinni kynningu á lýsingu deiliskipulagsins var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. febrúar 2017. Voru umsagnir þeirra sem gerðu athugasemdir við lýsinguna á kynningartíma lagðar fram og málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Var málið síðan ítrekað tekið fyrir á fundum umhverfis- og skipulagsráðs og skipulags- og samgönguráðs frá 8. febrúar 2017 til 19. september 2018. Hinn 19. desember s.á. var á fundi skipulags- og samgönguráðs samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi borgarstjórnar 15. janúar 2019. Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl s.á og athugasemdir sem bárust á kynningartíma tillögunnar lagðar fram. Á fundi ráðsins 26. júní s.á. var tillagan lögð fram nýju og samþykkt með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. s.m. um þær athugasemdir sem borist höfðu. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 4. júlí 2019.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 30. október 2019 var lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 11. september s.á., þar sem gerð var athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda vegna tilgreindra atriða. Var einnig lögð fram og samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. september s.á., þar sem lagt var til að auglýst tillaga yrði samþykkt með breytingum og lagfærðum uppdráttum til samræmis við athuga­semdir Skipulagsstofnunar. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 7. nóvember s.á. og á fundi borgarstjórnar 19. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 25. nóvember 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við þá stefnu aðalskipulags varðandi þróunarsvæði Þ73 að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað og miðist við 1-2 hæðir. Ekki sé hægt að bera saman 9 m háar byggingar við hús sem séu 1-2 hæðir. Það orðalag deiliskipulagsins að hæðir mælist jafnaði frá botnplötu á aðkomu­hæð komi hvergi fram í aðalskipulagi. Fyrirhugaðar gróðurhvelfingar verði 4.500 m2 og hæð bygginga frá gólfi verði 20 m, en það geti ekki talist takmarkað. Mannvirkin verði heldur ekki í samræmi við aðalskipulag vegna ljósmengunar. Þá sé verslunar- og veitingarekstur að sama skapi ekki í samræmi við aðalskipulagið.

Hæð mannvirkjanna komi til með að byrgja fyrir útsýni kærenda til norðurs og muni það, ásamt ljósmengun, valda þeim fjárhagslegum skaða með tilliti til áhrifa á söluverðmæti fasteigna þeirra. Kærendur verði allir með mannvirkið í beinni sjónlínu frá sínum heimilum. Ljósmengunin muni hafa veruleg áhrif á rétt íbúa til að njóta útsýnis, ljósaskipta og skamm­degis. Fram komi í blaðaumfjöllun að gróðurhvelfingarnar muni líta út eins og ljóshnettir í landslaginu. Á það sé bent að áætluð fjarlægð frá lóðarmörkum fasteignar eins kærenda að lóð gróðurhvelfinganna séu tæpir 100 m. Mannvirkin komi til með að hafa aukna umferð í för með sér um Stekkjarbakka, sem sé einungis tveggja akreina stofnbraut, en kærendur fari þar mörgum sinnum á dag. Í blaðaviðtali hafi forsvarsmaður félags þess sem hyggist byggja hvelfingarnar sagst gera ráð fyrir 300.000-400.000 gestum á ári.

Loks sé vísað til þess að borgarfulltrúi hafi í blaðaviðtali upplýst að Garðheimar eigi að fá úthlutaða lóð nr. 1 á svæðinu undir starfsemi sína. Samkvæmt deiliskipulaginu sé ekki gert ráð fyrir neinum byggingum á lóð nr. 1. Sá formgalli varði ógildi deiliskipulagsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé gerð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á þróunarsvæðinu í sam­ræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í skilmálum deiliskipulagsins séu settar takmarkanir á mögulegri starfsemi, uppbyggingu, útliti fasteigna og meðferð á meng­andi ofanvatni og efnum en með því sé verið að vernda grænt yfirbragð Elliðaárdals, sem og vatnasvið Elliðaáa. Fyrirhuguð starfsemi teljist til grænnar starfsemi með sjálfbærni að leiðarljósi og sem slík sé hún í samræmi við markmið aðalskipulags. Mikilvægt sé að hafa í huga að með því að skilgreina landsvæði sem þróunarsvæði þá sé fyrirhugað að fara í enduruppbyggingu án þess að taka endanlega afstöðu til þess í hvaða mynd hún eigi að vera.

Í aðalskipulaginu sé kveðið á um að hæð mögulegra bygginga á svæðinu miðist við 1-2 hæðir, en um viðmið sé að ræða og feli það ekki í sér endanlega afmörkun á fjölda hæða. Glöggt komi fram á skýringaruppdráttum að verulegur landhalli sé á svæðinu sem leiði til þess að sá hluti hússins sem verði ofan aðkomuhæðar mildist verulega þar sem bæði Stekkjarbakki og byggðin fyrir ofan liggi hærra í landi. Að því leyti sé eðlilegt að kveða á um hámarkshæð byggingar frá aðkomuhæð, enda verði ekki séð að nokkur áhrif verði af þeim hluta byggingarinnar sem grafa megi niður. Raunveruleg sjónræn áhrif verði minni en ætla megi jafnvel þótt byggingin verði 9 m á hæð mælt frá aðkomuhæð vegna fyrrgreinds landhalla. Af sniðmyndum megi ráða að byggingarnar muni valda óverulegum áhrifum á nærliggjandi byggð. Bent sé á að við vinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi byggingarnar verið lækkaðar frá því sem fyrirhugað hafi verið auk þess sem byggingarreit hafi verið hnikað til suðurs, en markmiðið með þeim breytingum hafi verið að draga úr áhrifum bygginganna. Útsýni sé ekki lögverndaður réttur íbúa í borg og megi íbúar vænta þess að uppbygging og þróun byggðar kunni að skerða útsýni frá því sem áður hafi verið.

Sérstakar og ítarlegar skorður séu í skilmálum deiliskipulagsins varðandi ljósmagn, en með því sé tryggt að lýsingin valdi sem minnstum „lífeðlisfræðilegum og vistlegum vandamálum“ fyrir umhverfi og fólk. Rannsókn á núverandi ljósmengun á svæðinu hafi sýnt að ólíklegt sé að mengunin muni aukast við fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu. Í athugasemdum Skipulags­stofnunar við deiliskipulagstillöguna hafi verið talið að breyta þyrfti vísun til ÍST staðals og setja skilmála um mörk heimilaðs ljósmagns á svæðinu. Jafnframt hafi stofnunin talið að gera þyrfti viðbragðsáætlun ef ljósmagn reyndist vera meira en heimilað væri samkvæmt skil­málum skipulagsins. Vegna þeirra athugasemda hafi verið gerðar breytingar á tillögunni. Ljósmagn verði ekki meira en almennt megi vænta innan borgarmarka.

Hvað varði aukna umferð sé bent á að rekstraraðili á svæðinu fyrirhugi að nota „skutlur“ til að aka gestum til og frá svæðinu. Slíkt fyrirkomulag eigi að leiða til þess að umferðaraukning verði ekki veruleg. Þá séu engar heimildir til uppbyggingar á lóð nr. 1 á svæðinu og þyrfti að gera breytingu á deiliskipulaginu til að byggja mætti þar. Einnig sé bent á að skipulagslög nr. 123/2010 hafi að geyma lagalegt úrræði fyrir þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni við samþykkt deiliskipulagstillögu, sbr. 52. gr. laganna.

Athugasemdir Spors í sandinn ehf: Af hálfu félagsins er vísað til þess að það hafi beinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu nefndarinnar um kærumálin, en því hafi verið gefið vilyrði fyrir úthlutun lóðar nr. 3 á svæðinu Þ73 til byggingar gróðurhvelfinga. Þeir einir geti átt aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þetta skilyrði hafi verið skýrt þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekkert komi fram í kærunum sem styðji að kærendur eigi verulega og einstaklega hagsmuni umfram aðra af hinni kærðu ákvörðun. Kærendur eigi það sameiginlegt að vera eigendur fasteigna í svokölluðu Stekkjarhverfi í Reykjavík. Frá fasteignum kærenda og að næstu mörkum svæðis Þ73 séu á bilinu u.þ.b. 100 m til nokkra hundraða metra. Á milli fasteigna kærenda og svæðis Þ73 liggi mikil umferðargata sem um fari u.þ.b. 20.000 bifreiðar á degi hverjum. Hljóðvistarkort sýni að hávaði frá umferð til nærliggjandi byggðar í Stekkjum sé um 62 dB. Syðst á svæði Þ73, á milli Stekkjahverfis og skipulagðra byggingarreita, sé hár trjágróður sem að mestu sé hærri en byggingar sem þar eigi að rísa samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. Álitaefni um samræmi deiliskipulags við aðalskipulag skjóti engum stoðum undir lögvarða hagsmuni kærenda af úrlausn málsins. Kærendur eigi ekki fasteignir á deiliskipulagssvæðinu. Auk þess hafi þeir ekki getað haft lögmætar væntingar til þess að aldrei yrðu reistar byggingar á svæði Þ73 sem hefðu áhrif á útsýni þeirra til norðurs, að eingöngu yrðu reistar óupplýstar byggingar eða byggingar sem hefðu engin áhrif á umferð um Stekkjarbakka. Sjálfstæður réttur kærenda til kæruaðildar geti ekki risið fyrr en og ef til þess komi að veitt verði byggingarleyfi fyrir gróðurhvelfingunum. Kærendur geti ekki haft hagsmuni af því að fá fellt úr gildi deiliskipulag vegna óljósra og rangra hugmynda þeirra um áhrif fyrirhugaðra mannvirkja sem enn hafi ekki verið fullhönnuð eða fjármögnuð. Þá geti vangaveltur kærenda um mögulega úthlutun lóðar nr. 1 á svæðinu fyrir starfsemi Garðheima enga aðild veitt að málinu. Ekkert liggi fyrir um slíka úthlutun og komi til hennar þurfi til þess deiliskipulagsbreytingu.

Verði málinu ekki vísað frá telji leyfishafi að hafna beri kröfum kærenda. Deiliskipulagið gangi ekki gegn því orðalagi gildandi aðalskipulags að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað með hliðsjón af stærð hinnar skipulögðu lóðar. Aðalskipulagið kveði ekki á um afgerandi hæðarviðmið. Ekki sé fjallað um frá hvaða hæðarpunkti mishæðótts landslagsins skuli miða við að byggingar megi vera 1-2 hæðir, hversu há í metrum hver hæð skuli teljast eða hvert þakform megi vera. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmda­leyfis, sbr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist m.a. skv. b-lið gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi, ekki aðalskipulagi, skuli setja skilmála um stærð bygginga og hæðarfjölda ofan og neðan jarðar. Af hinum samþykkta deiliskipulags­uppdrætti megi sjá að skipulagið uppfylli allar kröfur sem til þess séu gerðar hvað varði tilgreiningu á hæð bygginga og hafi niðurgrafni hluti gróðurhvelfinganna að sjálfsögðu engin sjónræn áhrif. Ljósmengun á svæði Þ73 sé í dag töluverð og ólíklegt að hún aukist mikið með tilkomu fyrirhugaðra bygginga. Myrkramæling hafi verið framkvæmd og núverandi ástand svæðis Þ73 myndi flokkast sem slæm umhverfislýsing borgar og sé ljósmengunin á svæðinu yfir meðaltali ljósmengunar í Reykjavík. Skilmálar deiliskipulagsins tryggi að ljósmengun frá starfseminni verði innan marka samkvæmt staðli ÍST EN 12464-2:2007 um utanhússlýsingu og hönnunarleiðbeiningum ILE (The Institution of Lighting Engineers: Guidance notes for the reduction of obstructive light). Aðalskipulagið heimili starfsemi sem tengist „grænni starfsemi“ og fari fyrirhuguð starfsemi ekki í bága við það, en hún muni fela í sér aðgang að gróðurvin með plöntum frá heitari löndum í miðjarðarhafsloftslagi, að stórum hluta án kostnaðar fyrir gesti en að nokkrum hluta gegn endurgjaldi, auk þess að selja gestum veitingar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í greinargerð borgaryfirvalda sé ekkert fjallað um byggingarmagnið sem fyrirhugað sé að byggja á lóðinni, en það byggingar­magn sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Sérstök ákvæði í skilmálum deiliskipulagsins um ljósmengun hafi enga þýðingu þar sem engar mælingar liggi fyrir sem réttlætt geti byggingu gróðurhvelfinganna á þessum stað. Þær myrkramælingar sem borgaryfirvöld vísi til hafi ekki verið birtar. Röksemd borgaryfirvalda um að skutlur eigi að leysa vanda sem fylgi umferðarþunga sé haldlaus á meðan rekstraraðili hafi það alfarið í hendi sér að framkvæma með þeim hætti.

Kærendur krefjist þess að athugasemdir Spors í sandinn ehf. verði ekki hluti af máli þessu þar sem félagið sé ekki aðili kærumálsins. Kærunum sé beint að Reykjavíkurborg en ekki félaginu og geti lóðarvilyrði borgaryfirvalda ekki gert það að aðila málsins, enda hafi það ekki lýst afdráttarlausum vilja til að nýta sér lóðina. Kærendur geri engar athugasemdir við fyrirætlanir félagsins en mótmæli harðlega fyrirætlunum borgaryfirvalda. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri nefndinni að gefa Garðyrkjufélagi Íslands sama tækifæri til að koma að athugasemdum. Aðalskipulagið kveði skýrt á um að umfang hverrar byggingar fyrir sig skuli vera takmarkað og sé því til lítils að reikna út hlutfall fyrirhugaðra bygginga á svæðinu miðað við svæðið í heild sinni. Félagið víki sér undan að fjalla um fyrirhugaðan verslunar- og veitingarekstur, en verði mannvirkið að veruleika verði um að ræða stærstu mathöll landsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæðis Þ73. Felur breytingin m.a. í sér að skilgreina byggingar­lóð fyrir gróðurhvelfingar á vegum félagsins Spor í sandinn ehf. samkvæmt fyrirliggjandi lóðarvilyrði og snúa málsrök kærenda nær einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins. Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem félagið hefur að gæta vegna hinnar kærðu ákvörðunar, sem og þeirri rannsóknarskyldu sem hvílir á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var félaginu gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kæranna.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulags­breytingu verður að líta til þess að hús þeirra standa bæði ofar í landi og að lágmarki í tæplega 100 m fjarlægð frá þeim gróðurhvelfingum og öðrum mannvirkjum sem áætlað er að byggja. Skilur nokkur trjágróður svo og þung umferðargata með tilheyrandi götulýsingu á milli húsa kærenda og umrædds deiliskipulagssvæðis. Þau mannvirki sem deiliskipulagið heimilar að byggja munu þó verða í sjónlínu frá flestum húsum kærenda. Ekki verður séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda húsin í talsverðri fjarlægð frá skipulagssvæðinu. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi með hliðsjón af þeirri umferð sem fyrir er. Þrátt fyrir að ásýnd þess landsvæðis þar sem fyrirhugað er að reisa upplýstar gróðurhvelfingarnar og aðrar byggingar muni breytast verður ekki talið, að virtum fyrrnefndum staðháttum, að grenndaráhrif útsýnisbreytinganna séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Þar sem kærendur hafa ekki þeirra verulegu hagsmuna að gæta sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, og aðrar þær ástæður liggja ekki fyrir sem leitt geta til hennar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.