Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124/2024 Oddagata

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingar­áform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Akralind ehf. Miðhrauni 13, Garðabæ og eigandi Oddagötu 13, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 5. október 2024.

Málavextir: Kærendur eru eigendur beggja eignarhluta fasteignarinnar að Oddagötu 13, Akureyri, sem liggur vestan og ofan við fasteignina að Oddagötu 11. Forsaga málsins er sú að með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2022 tók gildi breyting á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar þar sem afmarkaður var byggingarreitur fyrir bílskúr á lóð Oddagötu 11 með þeim skilyrðum að hámark mænishæðar yrði 4,5 m.

Á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 var tekið fyrir erindi um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna Oddagötu 11 sem fól í sér að gólfkóti yrði lækkaður um 90 cm. Ekki var talið að breytingin hefði þau áhrif að fara þyrfti fram grenndarkynning. Var breytingin birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024. Er sú breyting hin kærða skipulagsákvörðun. Á fundi skipulagsráðs 24. apríl s.á. var enn samþykkt breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina þar sem gert var ráð fyrir að byggingarreitur færist aftur um 1 m. Var breytingin grenndarkynnt fyrir eigendum Oddagötu 13 og Gilsbakkavegar 11. Engar athugasemdir bárust og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingaráform fyrir bílskúr á lóðinni 8. ágúst 2024, en byggingarleyfi hefur enn ekki verið gefið út.

 Málsrök kærenda: Kærandi, Akralind ehf. kveðst hafa fyrst fengið bréf frá sveitarfélaginu, dags. 14. desember 2021, í tilefni af grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra breytinga á deili­skipulagi vegna Oddagötu 11 er varðaði bílskúrsbyggingu á lóðinni. Hafi hann skilað inn athugasemdum þar sem lagst var gegn umræddri deiliskipulagstillögu og bent á að fyrirhuguð bygging myndi koma til með að hafa gríðarleg grenndaráhrif með skertu útsýni yfir miðbæinn og til sjávar. Hafi félaginu svo verið tilkynnt með bréfi, dags, 16. ágúst 2022, að samþykkt hefði verið deiliskipulagsbreyting þar sem nú væri gert ráð fyrir byggingarreit fyrir bílgeymslu á lóðinni Oddagötu 11. Í ljósi athugasemda hefði samþykkið verið bundið því skilyrði að mesta hámarks mænishæð yrði 4,5, m sem væri lækkun miðað við það sem sótt hafði verið um.

Sótt hafi verið um aðra breytingu á umræddu deiliskipulagi 30. janúar 2024 og hafi erindið verið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 14. febrúar s.á. Í fundargerð komi fram að breytingin fæli í sér að gólfkóti bílskúrs yrði lækkaður um 0,9 m og að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða. Hafi breytingin verið samþykkt og sérstaklega bókað að ekki væri talin þörf á grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi kærendum því hvorki verið tilkynnt né verið kunnugt um deiliskipulagsbreytinguna. Nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024.

Aftur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulaginu 12. apríl 2024. Í þeirri beiðni hafi verið óskað eftir að byggingareitur fyrir bílskúr yrði færður 1 m aftar á lóðinni. Hafi sú umsókn verið samþykkt á fundi skipulagsráðs 24. s.m. og bókað að breytingin skyldi grenndarkynnt lóðar­höfum Oddagötu 13. Hafi kærendum verið tilkynnt um þá breytingu sem þeir hafi ekki gert athugasemdir við en vilja sérstaklega benda á að í umræddri tilkynningu hafi ekkert komið fram um fyrri deiliskipulagsbreytingu varðandi gólfkóta. Síðari breytingin hafi svo tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Hinn 16. s.m. hafi svo verið sótt um staðfestingu byggingaráforma og byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst s.á.

Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um framangreint, þ.e. um þá breytingu á deiliskipulagi sem varðaði lækkun á gólfkóta sem tók gildi 7. mars 2024, fyrir rúmri viku síðan. Hafi annar kærenda, hlutafélagið, strax sent erindi á Akureyrarbæ þar sem þess var krafist að deili­skipulagsbreytingin og byggingarleyfi yrðu afturkölluð en ekki fengið efnisleg viðbrögð við erindinu.

Sú breyting sem tekið hafi gildi 7. mars 2024 virðist fela í sér að bílskúrinn sem fyrirhugað sé að reisa við Oddagötu 11 sé hærri en samkvæmt því deiliskipulagi sem áður gilti, þrátt fyrir að breytingin hafi átt að fela í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m. Þetta megi glögglega sjá þegar skoðuð er sú lína sem dregin sé inn í prentaða útgáfu deiliskipulagsins. Þar sjáist að mænir bílskúrsins standi umtalsvert hærra á hinni nýju teikningu heldur en þeirri eldri. Á það megi þó benda að enginn hæðarkóti sé ritaður inn á deiliskipulagið og því sé erfitt að átta sig á því hver raunhæð hússins eigi að vera samkvæmt deiliskipulagi. Allt að einu megi ljóst vera að sam­kvæmt gildandi deiliskipulagi virðist raunhæð hússins ljóslega hærri en heimilt var áður.

Telji kærendur ljóst að ákvörðun um umrædda deiliskipulagsbreytingu frá 14. febrúar 2024, sem fól í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m, hafi í raun falið í sér hækkun hússins án þess að breytingin væri grenndarkynnt og hafi því verið ólögmæt. Í því tilliti verði ekki fram hjá því litið að með breytingunni skertust hagsmunir kærenda með tilliti til útsýnis og skuggavarps, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010. Þá verði einnig að líta til þess að hámarks mænishæð hafi verið í deiliskipulagi árið 2022 ákveðin 4,5 metrar frá gólfkóta sem hafi verið lækkun frá því sem sótt hafi verið um að undangengnum athugasemdum frá kærendum. Að mati kærenda sé ákvörðun um samþykkt á deiliskipulaginu sem tekin var á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 því ólögmæt og sé ógildanleg.

Telji úrskurðarnefndin að kæra þessi hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 sé á því byggt af hálfu kærenda að undantekningaákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu. Svo sem lýst sé að framan hafi kærendum orðið kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu rétt rúmri viku áður en kæra þessi sé rituð. Hafi þeim aldrei verið tilkynnt um breytinguna og um leið og þeim varð það kunnugt hafi erindi verið sent til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara með það fyrir kærunefndina.

Erindinu hafi ekki verið svarað af hálfu Akureyrarbæjar innan þess frests sem veittur hafi verið sveitarfélaginu og sé málið nú kært strax í kjölfar þess. Sé því að mati kærenda alveg ljóst að það sé sannarlega afsakanlegt, í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993, að kæran hafi ekki borist fyrr. Einnig telji kærendur ljóst að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda ljóst að hagsmunir þeirra skerðast alvarlega og varanlega, fái deiliskipulagsbreytingin og byggingarleyfið að standa óraskað. Væri slíkt ótækt og óheimilt án þess að kærendum væri veitt tækifæri á að hreyfa andmælum.

 Málsrök Akureyrarbæjar: Bent er á að við skoðun málsins hafi uppgötvast villa í gögnum deiliskipulagsbreytingar sem hafi eflaust valdið því að kærendur telji að verið sé að hækka umræddan bílskúr. Villan sé sú að ásýndarteikningin sem kærendur fengu senda og átti að sýna gildandi skipulag hafi ekki verið rétt, þ.e. húsið á efri ásýndarteikningunni virðist vera neðar á lóðinni en raun ber vitni. Neðri myndin sem sé breytingatillagan hafi hins vegar verið rétt. Myndin sem hefði átt að vera efri ásýndarmyndin í deiliskipulagsbreytingunni sé sú sem birt var í Stjórnartíðindum 6. september 2022. Umrædd villa hafi því engin áhrif á gildi skipu­lagsins. Niðurstaðan sé því að breytingin sem samþykkt hafi verið í skipulagsráði 14. febrúar 2024 hafi engin grenndaráhrif á eign kærenda og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna deiliskipulagsbreytinguna.

 Bent sé á að í flestum tilvikum hafi nefndin ekki talið það afsakanlegt að kæra berist að kæru­fresti liðnum og vísað kærum frá, sbr. mál ÚUA nr. 100/2024, 99/2024, 77/2024 og 135/2023. Í niðurstöðum nefndarinnr í þessum málum segi að sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Í þessu máli sé ekki um að ræða að stjórnvald hafi veitt rangar leiðbeiningar varðandi kærufrest. Málsástæður kærenda um að þeim hafi ekki verið tilkynnt um deiliskipulagsbreytinguna og að þeim hafi ekki verið kunnugt um hana fyrr en 14. október 2024 breyti engu hér um. Eigi það einnig við um þær málsástæður að kærendur hafi sent erindi til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara fyrir kærunefndina.

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sé heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. sömu greinar um grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Hafi skipulagsráð metið það svo að breytingin hefði ekki grenndaráhrif þar sem engin breyting yrði á hæð eða ásýnd fyrirhugaðs mannvirkis að vestanverðu, séð frá eign kærenda. Breytingin hafi því engin áhrif á kærendur hvað varði útsýni eða skuggavarp umfram það sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir. Því sé ljóst að ákvörðun um lækkun gólfkóta hafi ekki verið þess eðlis að hún breytti nokkru um skilmála eldra skipulags um landnotkun, nýtingar­hlutfall, útlit og form byggingarinnar.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11 og ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 8. ágúst s.á. Kæruheimild er í 59. gr laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulags­breytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni 21. október s.á. og var kærufrestur þá liðinn. Þá liggur fyrir að eftir gildistöku hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar hefur önnur deiliskipulagsbreyting verið samþykkt. Sú breyting felur í sér að byggingarreitur fyrir bílskúr á umræddri lóð er færður 1 m aftar á lóðinni og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi teljist vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða samþykkt byggingaráforma sér stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað enda liggja ekki fyrir þeir meinbugir á ákvörðuninni sem raskað geta gildi hennar. Ekki liggur fyrir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna byggingaráformanna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 8. ágúst  2024 um að samþykkja byggingaráform vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11.