Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124/2023 Fiskvinnsla að Bolafæti

Árið 2023, þriðjudaginn 14. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 124/2023, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Erik the Red Seafood ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 að afskrá fiskvinnslustarfsemi kæranda að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisnefnd Suðurnesja 2. nóvember 2023.

Málsatvik og rök: Kærandi rekur fiskvinnslu á þremur starfsstöðvum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði. Ein starfsstöðvanna er á lóð nr. 15 við Bolafót í Reykjanesbæ og var sú starfsemi skráð sem skráningarskyldur atvinnurekstur í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur. Hinn 5. júlí 2023 sendi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kæranda bréf þar sem greindi að í athugun væri hvort afskrá skyldi starfsemi félagsins að Bolafæti 15 með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 830/2022 þar sem samkvæmt upplýsingum skipulagsyfirvalda samrýmdist starfsemin ekki gildandi skipulagsskilmálum fyrir svæðið. Kærandi svaraði erindinu með bréfi, dags. 17. júlí 2023, og mótmælti fyrirhugaðri afskráningu. Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurnesja 25. september 2023 var samþykkt að afskrá starfsemi félagsins að Bolafæti 15 á fyrrgreindum grundvelli. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 26. s.m., var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar. Hinn 16. október 2023 sendi kærandi eftirlitinu bréf um lokunaráætlun, þar sem m.a. kom fram sú beiðni að félaginu yrði veittur frestur til loka árs 2023 að koma starfseminni að Bolafæti 15 í það horf að þar yrði einungis unnið á hefðbundnum dagvinnuvöktum. Í áætluninni fælist hins vegar ekki viðurkenning á réttmæti eða lögmæti ákvörðunar heilbrigðisnefndar um afskráningu starfseminnar.

Kröfu sína um frestun réttaráhrifa byggir kærandi á því að ákvörðunin sé íþyngjandi þar sem félagið hafi gífurlegra hagsmuna að gæta. Um 30 manns starfi að jafnaði á starfsstöð félagsins að Bolafæti 15 en starfsstöðin sé ein af lykileiningum í starfsemi kæranda. Starfsfólk og viðskiptavinir hafi því einnig mikilla hagsmuna að gæta. Verði réttaráhrifum ákvörðunarinnar ekki frestað verði kæranda fyrir óumflýjanlegu fjártjóni, sem felist m.a. í kostnaði við kaup og/eða uppsetningu á nýrri starfsstöð, flutningskostnaði, greiðslu launa 30 starfsmanna á uppsagnarfresti, missi hagnaðar og eftir atvikum missi viðskiptavina og viðskiptavildar. Húsnæðið að Bolafæti 15 og sú verkun sem þar fari fram hafi vottun frá þriðja aðila, en við flutning þyrfti félagið að afla slíkrar vottunar fyrir nýtt húsnæði og sé það kostnaðarsamt og tímafrekt ferli. Í símtölum milli fyrirsvarsmanna kæranda og starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafi kæranda verið tjáð að hann þurfi ekki að hlíta ákvörðuninni þá þegar heldur fái eilítið svigrúm til lokunar starfsstöðvarinnar. Eftirlitið hafi óskað eftir svokallaðri lokunaráætlun og hafi framkvæmdastjóri eftirlitsins vísað til þess að slík áætlun væri hugsuð til komandi vikna, m.a. til að koma til móts við andmæli félagsins varðandi meðalhóf. Kærandi telji að með því hafi stjórnvaldið viðurkennt nauðsyn þess að réttaráhrifum verði frestað. Þá sé lagagrundvöllur ákvörðunarinnar langt frá því að teljast afgerandi og fullnægjandi. Með hliðsjón af því, svo og þar sem félagið sé einn aðili að málinu, sé ljóst að málið gefi tilefni til að fresta réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunarinnar.

Fyrir hönd heilbrigðisnefndar Suðurnesja er kröfu um frestun réttaráhrif ekki sérstaklega mótmælt, en verði málinu frestað er þess óskað að það sæti flýtimeðferð hjá nefndinni. Þrátt fyrir það telur stjórnvaldið rétt að halda því til haga að auk hagsmuna kæranda séu undir hagsmunir íbúa á svæðinu. Þá sé hin kærða ákvörðun efnislega rétt auk þess sem málsmeðferðarreglum hafi verið gætt í hvívetna.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber því að skýra hana þröngt.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 að afskrá fiskvinnslustarfsemi kæranda að Bolafæti 15 þar sem starfsemin sé ekki í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2020–2035. Lýtur ágreiningur málsins nánar að því hvort ákvörðunin hvíli á viðhlítandi lagastoð svo og hvort starfsemin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag eða ekki.

Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Þrátt fyrir að nálægt umræddri starfsemi megi finna íbúðarbyggð verður ekki talið að mögulegir hagsmunir þeirra íbúa, um að hin kærða ákvörðun hafi réttaráhrif sem allra fyrst, vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að þurfa ekki að svo stöddu að ráðast í aðgerðir til að hlíta niðurstöðu heilbrigðisnefndarinnar á meðan ágreiningur málsins hefur ekki verið til lykta leiddur hjá úrskurðarnefndinni. Þá er og litið til þess að gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá nefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma skv. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þykir því rétt að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. 

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki aðalskipulagi.