Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

123/2016 Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf.

Árið 2016, föstudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að hafna umsókn um undanþágu frá reglugerð nr. 724/2008 um hávaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf., Grjóthálsi 7-11, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 16. ágúst 2016 að hafna umsókn kæranda um undanþágu frá reglugerð nr. 724/2008 um hávaða svo hann geti hafið vörulosun í miðborg Reykjavíkur fyrir þann tíma sem nú er heimilaður. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt umbeðin undanþága en ella að ráðuneytið taki málið til efnismeðferðar á ný.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 20. október 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi, til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 24. febrúar 2016 sótti kærandi um undanþágu frá ákvæði í töflu III um mörk hávaða frá atvinnurekstri í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða vegna vörulosunar á hans vegum á tilteknum stöðum í miðborg Reykjavíkur. Ráðuneytið hafnaði umsókn kæranda að fenginni umsögn  heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar og var kæranda tilkynnt sú niðurstaða með bréfi, dags. 16. ágúst 2016.

Kærandi vísar til þess að verulega sé þrengt að svigrúmi hans til afhendingar vöru í miðborg Reykjavíkur, m.a. vegna fækkunar bílastæða til vörulosunar og götulokana. Þörf á vöruafhendingu hafi aukist vegna fjölgunar þjónustuaðila á svæðinu í kjölfar aukins ferðamannastraums. Þetta kalli á rýmri afhendingartíma og sé því farið fram á að afhending vöru geti hafist á tilteknum stöðum kl. 4 að nóttu til.

Af hálfu ráðuneytisins er vísað til þess að í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir komi fram að ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í athugasemdum við greinda 31. gr. frumvarps þess sem varð að nefndum lögum sé tekið fram að sérstakar úrskurðarnefndir komi í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og geti þær ekki úrskurðað í málum þar sem ráðherra fer með ákvörðunar- eða úrskurðarvald. Úrskurðarnefndin sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd, skipuð til hliðar við þau stjórnvöld sem heyri undir yfirstjórnunarheimildir ráðherra, og starfi á nánar tilteknum málefnasviðum sem lúti yfirstjórn hans lögum samkvæmt.  Sú ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra að hafna veitingu undanþágu frá reglugerð um hávaða sé því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar umhverfis- og auðlindaráðherra um að hafna umsókn kæranda um undanþágu frá hávaðamörkum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Ráðherra er heimilt að veita slíka undanþágu skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sem gengið hafa byggt á því að úrskurðarvald hennar næði ekki til ákvarðana sem ráðherra er falið að taka eða staðfesta samkvæmt lögum.  Hefur sú niðurstaða stuðst við þau rök að ráðherra er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á sínu sviði að stjórnskipunarrétti og verði lögmæti nefndra ákvarðana því ekki endurskoðað af öðrum stjórnvöldum nema samkvæmt ótvíræðri lagaheimild.

Samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 skal vísa ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hefur tilvitnað orðalag ákvæðisins ekki sætt breytingum frá gildistöku laganna að öðru leyti en því að í stað sérstakrar úrskurðarnefndar skal nú vísa málum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í athugasemdum við 31. gr. frumvarps til nefndra laga er tekið fram: „að í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með afgreiðslu mála verði þeim afgreiðslum ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar enda kemur úrskurðarnefndin í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og getur ekki úrskurðað í málum sem ráðherra fer með ákvörðunarvald eða úrskurðarvald í. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um hvernig túlka beri greinina.“

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir viðhlítandi réttarheimild til þess að úrskurðarnefndin taki til endurskoðunar hina kærðu ákvörðun ráðherra og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Kristín Benediktsdóttir