Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2024 Vesturbraut

Árið 2024, miðvikudaginn 30. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 121/2024, kæra á vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gerð miðeyju á Vesturbraut/Vestfjarðavegi um Búðardal og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsdeildar Dalabyggðar á erindi því tengdu, dags. 2. október 2024.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 16. október 2024, kærir íbúi að Gunnarsbraut 6, Búðardal, fyrirhugaðar framkvæmdir við gerð miðeyju á Vesturlandsvegi um Búðardal og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsdeildar Dalabyggðar á erindi því tengdu, dags. 2. október 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 29. október 2024.

Málsatvik og rök: Með tölvupósti 20. september 2024 til Vegagerðarinnar og sveitastjórnar Dalabyggðar var óskað eftir að fyrirhugaðri framkvæmd við Sunnubraut/Vesturlandsveg yrði frestað. Í erindinu kom fram að ef framkvæmdinni yrði myndi umferð að sunnan geta brunað hindrunarlaust í beinni línu í gegnum Búðardal eftir að hafa tekið á sig einn hlykk við bæjarhliðið sunnan megin. Þeir sem kæmu úr norðurátt þyrftu að fara í gegnum þrjá hlykki á leið sinni til suðurs. Væri þetta vanhugsað verkefni sem kostaði talsverðar fjárhæðir. Var með erindinu reifuð önnur tillaga að aðferð til að draga úr umferðarhraða á svæðinu.

Í svari Vegagerðarinnar sem barst kæranda sama dag í tölvupósti kom fram að framkæmdin fæli í sér örugga gönguþverun og þrengingu akgreina. Ástæða þess að bunga væri neðan við veg væri sú að gangstétt og bílastæði væru hinumegin götunnar. Ásamt þessari breytingu myndi Vegagerðin setja upp ljósastaura við afleggjara að hesthúsahverfi og yfirfara skilti. Það væri á áætlun hjá Vegagerðinni að lagfæra veginn við þéttbýlisskiltin beggja vegna Búðardals á næsta ári. Þegar öllum framkvæmdum yrði lokið væri öryggi betra, bæði fyrir gangandi og akandi vegfarendur. Með tölvupósti kæranda, samdægurs, var óskað upplýsinga hjá Vegagerðinni um hvort heimilt væri að færa þjóðveg nær aðliggjandi íbúðarhúsalóð án grenndarkynningar og án framkvæmdaleyfis frá viðkomandi sveitarfélagi. Því erindi var ekki svarað. Var fyrra erindi síðar ítrekað og bent á fleiri atriði sem vörðuðu umferðarhraða og öryggi vegfarenda.

Erindi kæranda um fyrirhugaðar framkvæmdir tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar 2. október 2024. Var þar bókað að um væri að ræða fyrsta fasa af stærra verkefni sem teygði sig norður fyrir og suður fyrir þéttbýlið með ýmsum ráðstöfunum. Allar framkvæmdir væru á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar og krefðust ekki framkvæmdaleyfis. Lögð væri áhersla að ná niður aksturshraða í gegnum þéttbýlið með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal umræddum framkvæmdum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum Vegagerðarinnar við gerð miðeyju og gönguþverunar yfir Vesturbraut í Búðardal. Fram kom á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Dalabyggðar 2. október 2024 að hinar umdeildu framkvæmdir væru á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar og krefðust ekki framkvæmdaleyfis. Framkvæmdaleyfi hefur þannig ekki verið samþykkt eða gefið út, né er slík leyfisveiting fyrirhuguð.

Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 má beiðast álits úrskurðarnefndarinnar um hvort framkvæmdir séu háðar framkvæmdaleyfi. Sú heimild er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn og kemur því ekki til álita að taka ágreiningsefni þessa máls til meðferðar á grundvelli þeirrar heimildar.

Með vísan til framanrakins verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun í máli þessu sbr. 2. mgr. 26. gr., sbr. 2. mgr. 1. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.