Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2007 Fjarskiptamastur

Ár 2008, þriðjudaginn 6. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Rangárþings bs. frá 31. maí 2007 um að veita leyfi til byggingar fjarskiptastöðvar í landi Gunnarsholts í Rangárþingi ytra. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2007, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Ásdís J. Rafnar hrl., f.h. H, Heklugerði, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggingarnefndar Rangárþings bs. frá 31. maí 2007 um að veita leyfi til byggingar fjarskiptastöðvar í landi Gunnarsholts í Rangárþingi ytra.  Var ákvörðun byggingarnefndar staðfest á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra hinn 6. júní 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  

Málavextir og rök:  Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra hinn 6. júní 2007 var staðfest ákvörðun byggingarnefndar frá 31. maí s.á. um veitingu byggingarleyfis til Og fjarskipta ehf. fyrir uppsetningu fjarskiptamasturs og tækjahúss í landi Gunnarsholts.  Fyrir lá samþykki Landgræðslu ríkisins, eiganda jarðarinnar Gunnarsholts, fyrir umræddum framkvæmdum.  Um er að ræða tækjaskýli sem hýsir tækjabúnað og 20,3 metra hátt stálgrindarmastur fyrir fjarskiptaloftnet.  Framkvæmdir hófust í kjölfar útgáfu leyfisins og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var mastrið reist hinn 10. júlí 2007.

Skaut kærandi framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið. 

Af hálfu kæranda er á því byggt að hann hafi ekki haft vitneskju um að hið umdeilda mastur skyldi reist og að sveitarstjórn hafi borið að kynna framkvæmdina fyrir hagsmunaaðilum með fullnægjandi hætti, eða með grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá sé því haldið fram að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 áður en mastrið hafi verið reist þar sem skylt hafi verið að leita umsagnar Skipulagsstofnunar á því hvort framkvæmdin hafi verið háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 43. gr. in fine skipulags- og byggingarlaga. 

Þá sé því haldið fram að mastrið hafi verið reist er kærandi hafi verið á ferðalagi í lok júlí 2007.  Þegar hann hafi haft samband við sveitarstjóra og spurst fyrir um málið hafi hann látið þá skoðun sína í ljós að hann væri mjög ósáttur við framkvæmdina. 

Undirstaða mastursins sé í hvarfi frá íbúðarhúsunum á torfunni og eina sem kærandi geti sagt um upphaf framkvæmdarinnar sé að hann hafi verið var við að hola hefði verið grafin sem ekki sé nýnæmi á svæði Landgræðslunnar.  Kærandi starfi á höfuðborgarsvæðinu og sé aldrei heima á virkum dögum og hafi því ekkert fylgst með hvað reist hafi verið ofan í holunni.  Hafi kærandi verið erlendis 6. til 20. ágúst og hafi honum ekki verið kunnugt um veitingu byggingarleyfis fyrir framkvæmdinni fyrr en 26. þess mánaðar.  Í byrjun september hafi verið gerð fyrirspurn hjá Skipulagsstofnun um hvort eitthvað væri þar til um framkvæmd þessa og hafi svo ekki reynst vera.  

Af hálfu Rangárþings ytra er krafist frávísunar málsins og á því byggt að kæran sé of seint fram komin auk þess sem kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar hinn 6. júní 2007.  Með kæru, dags. 18. september 2007, sem móttekin hafi verið hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 24. september sama ár, hafi kærandi kært veitingu byggingarleyfisins.  Ekki verði annað ráðið af lýsingu kæranda en að honum hafi verið eða mátt vera ljósar hinar umdeildu framkvæmdir í júlí 2007.  Vísi kærandi að auki til jarðvegsframkvæmda sem og samtals við sveitarstjóra.

Vinna við framkvæmdir hafi hafist hinn 11. júní 2007 og undirstöðusteypa verið steypt 12. s.m.  Vinnu verktaka hafi verið lokið 2. júlí og 10. júlí hafi mastrið verið reist.  Frá þeim tíma a.m.k. hafi kæranda mátt vera ljósar umræddar framkvæmdir.  Kæran sé hins vegar ekki móttekin fyrr en 24. september 2007 og hafi því kærufrestur verið liðinn er kærandi skaut máli sínu til nefndarinnar.  Beri því að vísa því frá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Einnig sé tekið fram að kæranda hafi verið eða hafi mátt vera ljósar þær framkvæmdir sem hafi átt sér stað á lóðinni, sem hafi hafist í kjölfar útgáfu byggingarleyfisins.  Vitneskja um þessar framkvæmdir hafi því verið til staðar mun fyrr en greindar dagsetningar í kærunni gefi til kynna.  Þá hefði kærandi átt að grípa til aðgerða en hafi ekki gert. 

Þá sé því einnig haldið fram að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir „…einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“  Í því máli sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir.  Þá segi í kæru að hinar umdeildu framkvæmdir séu í 334 metra fjarlægð frá heimili kæranda.  Hann geti því ekki átt slíka hagsmuni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2006.  

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu sveitarfélagsins.  Mótmælir hann fullyrðingu þess efnis að hann eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.  Hið kærða leyfi gangi gegn einstaklegum, verulegum og lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild að málinu.  Mastrið og búnaður þess valdi kæranda og bústofni hans sannanlega óþægindum og truflunum og sé alvarlegt lýti í fögru landslagi. 

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem úrskurðarnefndin hefur tekið til skoðunar en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Af hálfu Rangárþings ytra er því haldið fram að kærandi eigi ekki aðild að kærumáli þessu þar sem hið kærða byggingarleyfi skerði í engu hagsmuni hans.  Á þetta verður ekki fallist.  Hið umdeilda fjarskiptamastur er um 20 metra hátt og blasir við kæranda frá heimili hans.  Er mastrið all áberandi í landslaginu og verður því að telja að bygging þess snerti lögvarða hagsmuni hans. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um, eða mátti vera kunnugt um, ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar. 

Eins og áður greinir er kærandi máls þessa búsettur í nágrenni við jörðina Gunnarsholt.  Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina má ráða að hinn 10. júlí 2007 hafi fjarskiptamastrið verið reist.  Hefur því ekki verið andmælt af kæranda.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kæranda hafi, a.m.k. frá þeim tíma, mátt vera kunnugt um byggingu þess og að honum hafi þá borið að kynna sér byggingarleyfið, staðreyna hvort það væri í samræmi við skipulagsheimildir og skjóta því til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni aftur á móti ekki fyrr en 24. september 2007 og voru þá liðnir tveir og hálfur mánuður frá því að mastrið var reist.  Var kærufrestur þá liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. laganna.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson