Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2024 Hnausastrengur

Árið 2024, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2024, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Fiskistofu vegna kröfu um að grjótgarður við Hnausastreng í Vatnsdalsá verði fjarlægður.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 29. janúar 2024, kærir A óhæfilegan drátt á afgreiðslu Fiskistofu á kröfu um að grjótgarður við Hnausastreng í Vatnsdalsá verði fjarlægður. Skilja verður kæruna svo að þess sé krafist að lagt verði fyrir Fiskistofu að taka fyrirliggjandi erindi kæranda til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 14. febrúar 2024.

Málavextir: Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 28/2022, uppkveðnum 25. janúar 2023, var felld úr gildi ákvörðun Fiskistofu um að fara ekki fram á að grjótgarður við Hnausastreng í Vatnsdalsá yrði fjarlægður. Kærandi fór fram á það með tölvupósti 7. desember 2023 að Fiskistofa tæki ákvörðun um að grjótgarðurinn yrði fjarlægður án frekari tafa. Óskaði Fiskistofa eftir upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi vestra um stöðu máls sem væri til meðferðar hjá embættinu og varðaði kæru stofnunarinnar á endurteknum framkvæmdum á steingarði í Hnausastreng í Vatnsdalsá. Samkvæmt svörum lögreglunnar var málið enn til rannsóknar, en ráðgert væri að ljúka því snemma á árinu 2024. Fiskistofa svaraði kæranda með tölvupósti 21. desember 2023 þar sem fram kom að í samræmi við fyrirmæli í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 28/2022 væri verið að bíða eftir niðurstöðu lögreglunnar og var vísað til svara hennar um væntanlega niðurstöðu málsins.

 Málsrök kæranda: Vísað er til þess að Fiskistofu hafi verið send fyrirspurn 13. desember 2023 um framvindu máls er varðaði grjótgarð í Hnausastreng í Vatnsdalsá. Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi legið fyrir 25. janúar 2023 í máli nr. 28/2022. Svör Fiskistofu hafi verið þau að beðið væri niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar á Norðurlandi vestra áður en stofnunin tæki ákvörðun í málinu. Telur kærandi óhæfilegan drátt hafa orðið á nefndu erindi hans.

 Málsrök Fiskistofu: Bent er á að í kjölfar fyrirspurnar kæranda, dags. 7. desember 2023, hafi verið send fyrirspurn á Lögreglustjórann á Norðurlandi vestra þar sem óskað hafi verið upplýsinga um stöðu málsins sem sæti rannsókn hjá embættinu. Eftir að kæran hefði borist stofnuninni hafi lögreglunni verið send önnur fyrirspurn þar sem upplýst hafi verið um kæruna og óskað upplýsinga um stöðu málsins. Svar hefði borist 6. febrúar 2024 þar sem fram hafi komið að rannsókn málsins væri vel á veg komin, en ekki lokið og væri nú á borði Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Næstu skref í málinu væru að leita að kunnáttumanni á grundvelli 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sem gæti lagt mat á það hvort framkvæmdirnar hafi spillt fiskvegi eða tálmað á ólögmætan hátt fiskför um vatn.

Það hafi verið túlkun stofnunarinnar að í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 28/2022 hafi falist fyrirmæli um að rétt væri að bíða eftir niðurstöðu rannsóknar lögreglu áður en málið yrði tekið til meðferðar að nýju hjá stofnuninni. Með hliðsjón af þeim tíma sem hafi liðið megi velta fyrir sér samspili málshraðareglunnar við rannsóknarregluna, en stofnunin telji rétt að virða fyrirmæli áðurnefnds úrskurðar og bíða niðurstöðu lögreglu.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla Fiskistofu á kröfu kæranda um að grjótgarður í Hnausastreng í Vatnsdalsá verði fjarlægður hafi dregist óhæfilega.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvald skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er og samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Fyrir liggur að ákvörðun Fiskistofu frá 29. mars 2022 um að fara ekki fram á að umræddur grjótgarður yrði fjarlægður var felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 28/2022 uppkveðnum 25. janúar 2023. Í úrskurðinum kom meðal annars fram að opinber rannsókn vegna framkvæmda í ánni stæði yfir og að niðurstaða rannsóknarinnar gæti haft áhrif á mat um það hvort tilefni væri til beitingar úrræða 33. gr. a. í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi vestra er rannsóknin enn í gangi, en von á niðurstöðu snemma árs 2024.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi skylda til að sjá til þess að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun. Um nánari afmörkun verður m.a. að líta til þess hversu mikilvægt málið er og hversu nauðsynlegt það er að taka skjóta ákvörðun því. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar sem búa að baki ákvörðun séu sannar og réttar.

Í ljósi framangreinds verður sá dráttur sem orðinn er á afgreiðslu erindis kæranda ekki talinn ástæðulaus. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að rúmt ár er síðan fyrri ákvörðun Fiskistofu var felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, að afloknum löngum málsmeðferðartíma. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Hefur kærandi nú verið upplýstur um hver staða málsins er og að niðurstöðu sé að vænta í rannsókn lögreglu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið þykir réttlætanlegt að Fiskistofa bíði málalykta í þeirri opinberu rannsókn sem nú á sér stað vegna ætlaðra framkvæmda við Hnausastreng þrátt fyrir þær tafir sem orðnar eru á afgreiðslu stofnunarinnar á erindi kæranda. 

Úrskurðarorð:

 Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir sá dráttur sem orðið hefur á afgreiðslu málsins ekki óhæfilegur og styðjast við efnislegar ástæður.