Árið 2014, þriðjudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 12/2013, kæra á ákvörðunum Reykjavíkurborgar um álagningu endurvinnslustöðvagjalds árin 2012 og 2013 vegna Skógarsels 25 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. febrúar 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir P, Skógarseli 25, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að leggja á gjald vegna endurvinnslustöðva vegna fasteignarinnar Skógarsels 25, en gjaldið var 5.265 krónur árið 2012 og 6.300 krónur árið 2013. Er þess krafist að Reykjavíkurborg verði gert að endurgreiða gjaldið.
Gögn bárust frá Reykjavíkurborg 12. mars 2013.
Málavextir: Álagningarseðill fasteignagjalda fyrir árið 2012 er dagsettur 23. janúar 2012 og álagningarseðill ársins 2013 hinn 18. janúar 2013. Kæranda var gert að greiða 16.300 króna gjald vegna einnar svartrar sorptunnu árið 2012 og 5.265 króna gjald vegna endurvinnslustöðva. Gjald vegna grárrar sorptunnu árið 2013 var 18.600 krónur og gjald vegna endurvinnslustöðva var 6.300 krónur. Á bakhlið álagningarseðlanna er vísað til þess að gjald vegna endurvinnslustöðva sé lagt á samkvæmt 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að í 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sé ekki að finna stafkrók um gjaldtöku vegna endurvinnslustöðva, en Reykjavíkurborg vísi til þessa ákvæðis um innheimtu gjaldsins. Greinin fjalli ítarlega um heimildir til gjaldtöku vegna sorphirðu og förgunar úrgangs og miða skuli gjaldið við magn, tíðni losunar, og aðra þætti sem hafi áhrif á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Einnig sé heimilt að miða gjaldið við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Reykjavíkurborg leggi sorphirðugjald á húseign kæranda í samræmi við lögin en álagning aukagjaldsins, gjald vegna endurvinnslustöðva, sé stjórnvaldsákvörðun sem ekki eigi sér stoð í lögum.
Endurvinnslustöðvar taki á móti úrgangi frá þeim sem komi með sorp til stöðvanna og sé þessi þjónusta alls ekki notuð af öllum heimilum. Reykjavíkurborg hafi í tilviki kæranda miðað við fjölda sorpíláta og tíðni losunar. Hann hafi greitt fyrir gráa sorptunnu, og geti borgin því ekki lagt á annað gjald. Bæði texti nefndrar lagagreinar og andi laganna sýni að ætlast sé til að gjaldið miðist við þá þjónustu sem viðkomandi aðili fái og heimili lögin ekki að annað gjald sé lagt á allar húseignir til að standa undir kostnaði við endurvinnslustöðvarnar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs geymi skýra lagaheimild til hinnar umdeildu gjaldtöku. Í fyrri málslið 2. mgr. 11. gr. laganna segi að sveitarfélögum sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs, þ. á m. megi innheimta gjald vegna viðtöku hans. Í lokamálslið ákvæðisins segi að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Sveitarfélagi sé þannig annars vegar heimilt að miða umrætt gjald við fjölda sorpíláta eða þjónustustig og hins vegar fjölda sorpíláta og þjónustustig.
Sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þ. á m. Reykjavíkurborg, hafi stofnað Sorpu bs. á grundvelli heimildar í IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 um samvinnu sveitarfélaga. Tilgangur félagsins sé að annast meðhöndlun úrgangs fyrir sveitarfélögin, sbr. lög nr. 55/2003. Sorpa bs. sinni sínu hlutverki m.a. með því að reka sex endurvinnslustöðvar og u.þ.b. 80 grenndarstöðvar þar sem úrgangi frá íbúum höfuðborgarsvæðisins sé veitt viðtaka. Reykjavíkurborg fjármagni kostnaðarhlutdeild sína í rekstri framangreindra stöðva með álagningu hins umdeilda gjalds, sbr. 4. mgr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1280/2012 fyrir sorphirðu í Reykjavíkurborg. Endurvinnslustöðvarnar þjónusti alla íbúa höfuðborgarsvæðisins með þeim hætti að veita úrgangi frá þeim viðtöku. Framangreind þjónusta standi öllum íbúum höfuðborgarsvæðisins til boða án endurgjalds hverju sinni, þ.e. við hverja viðtöku. Aftur á móti innheimti Reykjavíkurborg fast gjald af hverri fasteignareiningu sem standi þjónustan til boða, óháð því hvort fasteignareiningin nýti þjónustuna.
Þess megi geta að sorphirðugjaldi í Garðabæ og Hafnarfirði sé m.a. ætlað að standa undir kostnaði við rekstur endurvinnslustöðvanna, sbr. 2. mgr. 2. gr. gjaldskrár um sorphirðu í Garðabæ og 3. mgr. 1. gr. gjaldskrár um sorphirðu í Hafnarfirði.
Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning gjalds vegna endurvinnslustöðva fyrir árin 2012 og 2013 og að það verði endurgreitt. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem kæra á endurvinnslustöðvagjaldi fyrir árið 2012 barst nefndinni rúmu ári eftir að ákvörðun um gjaldið var tilkynnt kæranda verður kæru vegna ársins 2012 vísað frá, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í málinu er deilt um álagningu gjalds vegna endurvinnslustöðva. Endurvinnsla, sem greiða á fyrir með hinu umdeilda gjaldi, telst til endurnýtingar, sem aftur er hluti af meðhöndlun úrgangs, sbr. skilgreiningar 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Gilda því ákvæði laganna og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs settri samkvæmt þeim lögum.
Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi og ber hún ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs. Þá ber henni að sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang. Á grundvelli nefndrar lagagreinar er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 og 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003. Í slíkum samþykktum er meðal annars heimilt að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang. Reykjavíkurborg setti, með vísan til þessa, samþykkt nr. 410/2011 um meðhöndlun úrgangs í borginni. Í samþykktinni sagði að Sorpa bs. annaðist rekstur endurvinnslustöðva í borginni til móttöku á flokkuðum úrgangi, sbr. 4. mgr. 1. gr. og 6. gr. Úrgang skyldi flokka og endurnota eða endurnýta eins og kostur væri, sbr. 1. mgr. 3. gr., en tiltekin efni, svo sem garðaúrgang, jarðefni, spilliefni, timbur og brotamálm, væri óheimilt að setja í sorpílát og poka fyrir blandaðan heimilisúrgang og skylt að skila á endurvinnslustöðvar Sorpu bs. eða til annars aðila sem hefði heimild til að taka við honum.
Sveitarfélög geta innheimt gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 737/2003, en til meðhöndlunar úrgangs telst meðal annars endurnýting og þar með endurvinnsla, sbr. 3. gr. laganna. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Í samræmi við þetta var kveðið á um það í samþykkt nr. 410/2011 að innheimt skyldi gjald fyrir rekstur endurvinnslustöðva og að gjaldið skyldi lagt á allar íbúðir í Reykjavík, sbr. 1. og 6. mgr. 7. gr. samþykktarinnar. Þá hefur Reykjavík með vísan til 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998, sett gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík nr. 1280/2012, sem birt var 11. janúar 2013. Þar kemur fram að gjald vegna reksturs endurvinnslustöðva sé 6.300 krónur á íbúð og að því sé ætlað að standa undir kostnaðarhlutdeild Reykjavíkurborgar í rekstri endurvinnslustöðva Sorpu bs. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum var heildarkostnaður Reykjavíkurborgar á árinu 2012 vegna endurvinnslu- og grenndarstöðva 245.868.982 krónur og álögð gjöld vegna endurvinnslu sama ár voru 256.333.823 krónur, að teknu tilliti til tæplega 10.000.000 króna endurgreiðslu frá árinu 2011. Á árinu 2013 nam kostnaðurinn 307.480.126 krónum og álögð gjöld námu 307.565.615 krónum og álagningin samkvæmt því í samræmi við skilyrði laganna.
Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Sveitarfélög hafa samkvæmt því sem áður er rakið heimild til að ákveða að úrgangur sem til fellur skuli endurnýttur og komið í endurvinnslu, svo sem Reykjavíkurborg hefur gert meðal annars með því að ákveða að Sorpa bs. reki endurvinnslu- og grenndarstöðvar, og að tiltekinn úrgangur megi ekki fara í venjulegar sorptunnur. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og er raunar skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 1. og 6. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 410/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald fyrir endurvinnslustöðvar yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hans. Í samræmi við þetta verður kröfu kæranda hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Reykjavíkurborgar um gjald vegna endurvinnslustöðva, sem lagt var á hann vegna fasteignarinnar Skógarsels 25 í Reykjavík fyrir árið 2013.
Kröfu kæranda um að felld verði úr gildi álagning vegna ársins 2012 er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson