Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

119/2022 Aðgangur að gögnum máls

Árið 2022, 5. desember 2022, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 119/2022, kæra vegna dráttar á afhendingu gagna frá Reykjavíkurborg vegna máls er varðar fjölgun bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2022, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hlyngerði 1, Reykjavík, drátt á afhendingu gagna frá Reykjavíkurborg vegna máls er varðar fjölgun bílastæða á lóð Furugerðis 2 í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hlutist til um að gögn málsins verði afhent kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. nóvember 2022.

Málavextir: Í september 2020 sendi kærandi máls þessa erindi til Reykjavíkurborgar og fór fram á að borgin nýtti heimildir sínar í lögum til að sjá til þess að bílastæði sem stækkað hefði verið við Furugerði 2, án tilskilinna leyfa, yrði fært í fyrra horf. Hinn 5. maí 2021 synjaði embætti byggingarfulltrúa að beita úrræðum þeim er farið væri fram á. Málið var þó áfram til meðferðar hjá Reykjavíkurborg og í maí 2022 kærði kærandi óhæfilegan drátt á afgreiðslu þess til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 27. júní s.á. barst kæranda svar eftirlitsdeildar Reykjavíkurborgar þar sem m.a. kom fram að niðurstaða hennar væri sú að umrætt bílastæði væri ekki í samræmi við samþykktar heimildir og að áfram yrði unnið að úrlausn málsins. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 27. september s.á., í máli nr. 45/2022, var lagt fyrir embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík, í ljósi framvindu málsins, að taka erindi kæranda til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

Við meðferð málsins hjá Reykjavíkurborg var kærandi upplýstur um að „samtal“ stæði yfir við eigendur Furugerðis 2 vegna bílastæða á lóðinni og að unnið væri að lausn málsins. Í framhaldi óskaði kærandi eftir því með tölvupósti til eftirlitsdeildarinnar 15. júlí 2022 að fá afrit af „öllum gögnum tengdum þessum samskiptum, þar á meðal fundargerðum, bréfum, tölvupóstum og eftir atvikum öðrum gögnum sem liggja fyrir.“ Frekari tölvupóstsamskipti urðu á milli kæranda og deildarinnar vegna málsins og 18. ágúst s.á. var kæranda svarað á þann veg að óskað yrði eftir því að gögn sem tilheyrðu málinu yrðu tekin saman eftir því sem þau væru til. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti 16. september 2022 og barst sama dag það svar að öll gögn sem til væru á sviðinu vegna málsins hefðu verið afhent kæranda. Jafnframt var bent á að unnt væri að kæra framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að honum hafi engin gögn borist þrátt fyrir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að þeirra hafi verið óskað og því lofað að þau yrðu tekin saman. Dregið sé í efa að öll gögn málsins hafi verið afhent. Fram hafi komið í svari eftirlitsdeildar til kæranda 27. júní 2022 að deildin hygðist „upplýsa eiganda Furugerðis 2 um afstöðu eftirlitsins“, en kærandi hafi ekki fengið aðgang að þeim samskiptum sem gera verði ráð fyrir að átt hafi sér stað í framhaldi. Jafnframt hafi kærandi óskað eftir öllum fundargerðum vegna málsins en engar fengið. Í ljósi þessa sé þess óskað að úrskurðarnefndin staðreyni hvaða gögn séu fyrirliggjandi í málinu með því að óska eftir upplýsingum úr málaskrárkerfi Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um að málinu verði vísað frá nefndinni. Kæra vegna dráttar á afhendingu gagna falli undir úrskurðarnefnd upplýsingamála en ekki úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum fer samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Nær réttur almennings til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum máls, þ.m.t. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum máls og lista yfir málsgögn, sbr. 2. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls einnig rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varða og er sá réttur ríkari heldur en sá réttur sem almenningi er tryggður með lögum nr. 140/2012. Er réttur aðila máls til aðgangs að upplýsingum nátengdur andmælarétti, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst er að aðila getur borið nauðsyn til að fá aðgang að málsgögnum að loknu stjórnsýslumáli, t.d. í því skyni að meta réttarstöðu sína.

Þegar kærandi fór fyrst fram á að fá gögn málsins afhent hjá Reykjavíkurborg var hann aðili að kærumáli nr. 45/2022 fyrir úrskurðarnefndinni sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans. Lauk því kærumáli með úrskurði sem kveðinn var upp 27. september 2022. Fyrir liggur að kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi ekki afhent honum nánar tilgreind gögn er málið varðar, en því er andmælt af hálfu sveitarfélagsins. Hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að rengja þær staðhæfingar borgarinnar, en gerir þá bendingu að gagnabeiðni sem þessi getur m.a. náð til yfirlita úr málaskrárkerfi.

Ákvörðun sveitarfélags um beitingu þvingunarúrræða er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og verður ágreiningur um synjun um aðgang að gögnum máls eða takmörkun á aðgangi gagna við málsmeðferðina því einnig borinn undir nefndina, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi, líkt og Reykjavíkurborg greinir frá, er ekki um að ræða synjun eða takmörkun á aðgangi á gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þessa er kæru þessari vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.