Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:
Mál nr. 119/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 um að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Hótel Óðinsvé ehf., Þórsgötu 1, og Gamma ehf., eigandi Týsgötu 8, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreint sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að þau bílastæði sem um ræði verði almenn bílastæði á gjaldsvæði 2.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2020.
Málsatvik og rök: Hinn 30. október 2019 var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur lagt fram bréf skrifstofu og samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 24. október 2019, þar sem lagt var til að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Var tillagan samþykkt með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Kærendur vísa til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011 varðandi kæruheimild. Þeir séu hagsmunagæsluaðilar við Týsgötu, Þórsgötu og Lokastíg. Um langt árabil hafi vöruafgreiðsla fyrir hótelið og veitingastaði þess verið um bakhurð í bílastæðaporti við Lokastíg í samræmi við óskir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Séu húsnæði kærenda í raun einu húsnæðin við Óðinstorg og nálægar götur sem þurfi á reglulegum vöruafgreiðslum að halda. Hafi fyrirkomulagið við að afhenda varning gengið vel og ekki verið nokkrum til ama. Með fyrirhuguðum breytingum verði ekkert bílastæði fyrir framan hótelið sem sé algjörlega ótækt. Þau örfáu bílastæði sem séu eftir séu nú einvörðungu ætluð til vöruafgreiðslu í stað þess að gestir hótelsins og veitingastaðarins, sem og aðrir sem sæki þjónustu í hverfið, geti nýtt sér bílastæðin. Þau verði meira og minna ónotuð þrátt fyrir þann mikla hörgul sem sé á bílastæðum í hverfinu. Hagsmunir eiganda Týsgötu 8 fari saman við hagsmuni hótelsins að þessu leyti þar sem íbúðir félagsins við Týsgötu 8 séu nýttar til skammtímagistingar. Þá sé fyrirhuguð framkvæmd ekki í samræmi við skipulag. Í athugasemdum kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar árétta þeir að lögvarðir hagsmunir þeirra séu fyrir hendi og að nefndinni beri að taka málið til efnislegrar meðferðar. Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð sé. Umrædd stæði séu almenn bílastæði á borgarlandi sem kærendur og viðskiptavinir þeirra hafi ekkert tilkall til eða forgang í. Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 hafi sveitarstjórn fulla heimild til að gera tillögur að varanlegum sérákvæðum um notkun vega, þar á meðal um stöðvun eða lagningu ökutækja.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður þó ekki séð að fyrir liggi nein ákvörðun samkvæmt þeim lögum heldur var hin kærða ákvörðun tekin á grundvelli 2. mgr. 81. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 er mælir fyrir um að lögreglustjóri geti, að fengnum tillögum sveitarstjórna, kveðið á um önnur varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum umferðarlögum. Þá verða tillögur sveitarstjórna ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.