Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

119/2007 Hafnargata

Ár 2008, fimmtudaginn 16. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 119/2007, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 21. júní 2005, sem staðfest var í sveitarstjórn 14. júlí s.á., um að veita leyfi til að breyta húsi og byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Hafnargötu, Vogum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. september 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Hólagötu 4, Vogum, þá samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 21. júní 2005 að veita leyfi til að breyta húsi og byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 5 við Hafnargötu, Vogum.  Staðfesti hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps ákvörðun nefndarinnar á fundi sínum hinn 14. júlí sama ár. 

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að því er varðar byggingu bílgeymslu á lóðinni. 

Málsatvik:  Árið 2002 tók gildi deiliskipulag fyrir Hafnar,- Hóla,- Austur,- Mýrar,- og Marargötu í Vogum á Vatnsleysuströnd, er tekur m.a. til lóðar nr. 5 við Hafnargötu, en samkvæmt skilmálum þess er heimilt að reisa innan byggingarreits einbýlishús ásamt sambyggðri bílgeymslu á lóðinni.  Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 23. maí 2005, óskaði lóðarhafi umræddrar lóðar eftir heimild til að reisa m.a. bílskúr á lóðinni.  Var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. júní s.á. og hún samþykkt og talin samræmast lögum nr. 73/1997.  Var sú ákvörðun staðfest í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 14. júlí sama ár. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi keypt hús sitt sumarið 2007 og hafi dag nokkurn í september s.á. orðið þess var að búið væri að reisa bílskúr neðan við lóð hans, á lóðinni nr. 5 við Hafnargötu.  Sé bílskúrinn um 60 m² og nærri fjórir metrar á hæð.  Bendi kærandi á að við grenndarkynningu, er fram hafi farið í febrúar 2004, hafi verið sýnd blýantsteikning að bílskúrnum og aðeins fermetrafjöldi tilgreindur en ekki hæð hans. 

Gerður sé áskilnaður í lögum þess efnis að framkvæmdir skuli hefjast innan árs frá grenndarkynningu og frá því að veitt sé leyfi til bygginga.  Framkvæmdir hafi byrjað sumarið 2007 en þá hafi byggingarleyfið verið útrunnið.  Hafi kærandi við kaup á húsinu að Hólagötu 4 kynnt sér deiliskipulag svæðisins en hvorki sé gert ráð fyrir umræddum bílskúr í núgildandi deiliskipulagi fyrir Hafnar,- Hóla,- Austur-, Mýrar- og Marargötu né í drögum að nýju deiliskipulagi. 

Málsrök Sveitarfélagsins Voga:  Sveitarfélagið bendir á að samkvæmt upplýsingum frá húsbyggjanda hafi framkvæmdir við jarðvegsvinnu verið hafnar haustið 2005 og sökklar bílskúrsins tilbúnir haustið 2006.  Í ljósi þess megi telja að kæranda hafi mátt vera ljóst þegar hann hafi skoðað og síðar keypt fasteignina að Hólagötu 4 að framkvæmdir væru fyrirhugaðar.  Því sé álitamál hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni haustið 2007. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi tekur fram að umræddur bílskúr hafi verið grenndarkynntur og að lóðarhafar Hafnargötu 7 og Hólagötu 4 og 6 hafi samþykkt hann.  Upphaflega hafi verið teiknaður skúr að lóðarmörkum með samþykki þáverandi eigenda aðliggjandi húsa og hafi þeir átt að upplýsa kaupendur, þar á meðal kæranda máls þessa, um að framkvæmdir stæðu fyrir dyrum. 

Grafið hafi verið fyrir bílskúr um haustið 2005 og fyllt í, forsteyptir sökklar hafi verið settir upp að vori 2007 og veggir reistir síðla sumars 2007.  Skúrinn hafi, skv. ákvörðun þáverandi byggingarfulltrúa, verið færður innar í lóð Hafnargötu 5 vegna hæðarmismunar á lóðum.  Bent sé á að bílskúrar séu á lóðamörkum Hafnargötu 1, 1a og 3.  Þá sé hús kæranda tvær hæðir og standi bak við Hafnargötu 7, þar af leiðandi sjáist vel frá húsinu yfir þök. 

Byggingarleyfishafi vísar jafnframt til þess að þáverandi byggingarfulltrúi hafi leyft uppgröft og púða undir bílskúr.  Einnig hafi hann leyft sökkla að bílgeymslu.  Hafi byggingarleyfishafa verið tjáð að ekki þyrfti frekari úttekt þar sem sökklar væru forsteyptar einingar sem og veggir bílskúrs.  Varðandi úttektarskyldu hafi byggingarfulltrúa verið fullkunnugt um framkvæmdir.  Hann hafi fylgst með og kallað eftir fleiri teikningum og hafi bílskúrinn verið byggður með fullu leyfi og í sátt við alla að því er talið hafi verið.

Niðurstaða:  Frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. 

Umþrættur bílskúr er staðsettur við mörk lóðar kæranda og er um stakstæða byggingu að ræða.  Var grafið fyrir bílskúrnum haustið 2005 og fyllt í grunn en það var fyrst vorið 2007 sem forsteyptir sökklar voru settir upp.  Þykir, eins og atvikum máls þessa er háttað, óvarlegt að fullyrða að kæranda hafi verið kunnugt, eða mátt vera kunnugt, um að veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir bílskúrnum fyrr en hann var reistur haustið 2007.  Verður og til þess að líta að heimild til að byggja bílgeymslu samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins er bundin því skilyrði að um sambyggða bílgeymslu sé að ræða og mátti kærandi því ekki vænta þess að verið væri að undirbúa byggingu stakstæðrar bílgeymslu sem þar að auki væri að hluta til utan byggingarreits.  Verður máli þessu því ekki vísað frá sökum þess að kæra sé of seint fram komin. 

Í málinu er deilt um samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 21. júní 2005, sem staðfest var í sveitarstjórn 14. júlí s.á.  Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess, sbr. og 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Uppdrættir eru áritaðir af byggingarfulltrúa hinn 21. júní 2005 og verður við það að miða að byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi legið fyrir allt frá því að sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. júlí 2005. 

Enda þótt framkvæmdir við jarðvegsvinnu hafi verið hafnar haustið 2005 teljast framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi ekki hafa hafist þá í skilningi 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Verður hvorki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að búið hafi verið að steypa undirstöður né að byggingarfulltrúi hafi lokið úttekt á einum eða fleiri úttektarskyldum verkþáttum innan 12 mánaða frá útgáfu leyfisins og er þá sama hvort litið er til framkvæmda við umdeildan bílskúr eða þeirra breytinga á húsi sem leyfið tók einnig til.  Hófust framkvæmdir í skilningi tilvitnaðs ákvæðis byggingarreglugerðar því ekki innan tilskilins frests og var hið umdeilda byggingarleyfi af þeim sökum fallið úr gildi þegar forsteyptum sökklum að bílskúrnum var komið fyrir á byggingarstað vorið 2007.  Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið umdeilda byggingarleyfi sé úr gildi fallið og að margnefndur bílskúr hafi verið reistur án fullnægjandi heimildar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi til breytinga á húsi og byggingar bílgeymslu að Hafnargötu 5 í Vogum, samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 21. júní 2005, er úr gildi fallið. 

 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson