Fyrir var tekið mál nr. 117/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að veita Langanesbyggð tímabundna undanþágu frá starfsleyfi fyrir urðunarstað við Bakkafjörð í Langanesbyggð.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir, eigandi fasteignarinnar að Bæjarási 9, Bakkafirði, þá ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins frá 15. ágúst 2016 að veita Langanesbyggð undanþágu frá starfsleyfi fyrir urðunarstað við Bakkafjörð í Langanesbyggð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðað verði til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hennar. Verður kærumálið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 20. október 2016.
Málsatvik og rök: Með bréfi, til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 8. júlí 2016, sótti Langanesbyggð um undanþágu frá starfsleyfi vegna urðunarstaðar við Bakkafjörð með vísan til þess að Umhverfisstofnun hefði samþykkt umsókn sveitarfélagsins um starfsleyfi fyrir urðunarstaðinn og væri það í vinnslu hjá stofnuninni. Ráðuneytið veitti umbeðna undanþágu með tilteknum skilyrðum hinn 15. ágúst 2016 með vísan til umsagnar Umhverfisstofnunar, dags. 9. s.m., og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sem og 14. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Kærandi telur fasteign sína á Bakkafirði vera innan áhrifasvæðis umrædds urðunarstaðar. Ólögmætt hafi verið að veita hina kærðu undanþágu enda þurfi ríkar ástæður að búa að baki henni, en ákvörðun ráðuneytisins sé órökstudd. Ákvörðun ráðuneytisins sé hlutdræg og styrki starfsleyfisumsókn Langanesbyggðar á kostnað íbúa og eigenda húseigna á Bakkafirði. Þeir hafi um áratuga skeið háð baráttu gegn áformum um að staðsetja urðunarsvæði fyrir sorpúrgang í túnfæti íbúðarbyggðar á Bakkafirði.
Af hálfu ráðuneytisins er vísað til þess að í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir komi fram að ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í athugasemdum við greinda 31. gr. frumvarps þess sem varð að nefndum lögum sé tekið fram að sérstakar úrskurðarnefndir komi í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og geti þær ekki úrskurðað í málum þar sem ráðherra fari með ákvörðunar- eða úrskurðarvald. Sú ákvörðun ráðherra að veita tímabundna undanþágu frá starfsleyfi fyrir notkun urðunarsvæðis við Bakkafjörð sé því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar umhverfis- og auðlindaráðherra um að veita tímabundna undanþágu frá skilyrðum laga um starfsleyfi fyrir urðun sorps. Ráðherra er heimilt að veita slíka undanþágu skv. 14. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, en jafnframt er að finna almenna heimild til handa ráðherra í 1. mgr. 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að veita undanþágu frá starfsleyfi fyrir starfsemi sem háð er slíkum leyfum samkvæmt lögunum.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.
Úrskurðarnefndin hefur í úrskurðum sem gengið hafa byggt á því að úrskurðarvald hennar nái ekki til ákvarðana sem ráðherra er falið að taka eða staðfesta samkvæmt lögum. Hefur sú niðurstaða stuðst við þau rök að ráðherra er æðsti handhafi stjórnsýsluvalds á sínu sviði að stjórnskipunarrétti og verði lögmæti nefndra ákvarðana því ekki endurskoðað af öðrum stjórnvöldum nema samkvæmt ótvíræðri lagaheimild.
Í athugasemdum við málskotsheimild 23. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 55/2003 er tekið fram að lagt sé til að sambærilegt fyrirkomulag gildi um málsmeðferð og úrskurði og gildi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Meginreglan verði sú að ágreiningi um framkvæmd laganna verði vísað til sérstakrar úrskurðarnefndar. Er ákvæðið efnislega samhljóða núgildandi 1. mgr. 67. gr. laganna nema þar er kveðið á um að vísa skuli málum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina.
Samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1998 skal vísa ágreiningi um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hefur tilvitnað orðalag ákvæðisins ekki sætt breytingum frá gildistöku laganna að öðru leyti en því að í stað sérstakrar úrskurðarnefndar skal nú vísa málum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í athugasemdum við 31. gr. frumvarps til nefndra laga er tekið fram: „að í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með afgreiðslu mála verði þeim afgreiðslum ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar enda kemur úrskurðarnefndin í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og getur ekki úrskurðað í málum sem ráðherra fer með ákvörðunarvald eða úrskurðarvald í. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um hvernig túlka beri greinina.“
Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir viðhlítandi réttarheimild til þess að úrskurðarnefndin taki til endurskoðunar hina kærðu ákvörðun ráðherra og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ómar Stefánsson Kristín Benediktsdóttir